27.11.1953
Efri deild: 25. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Ég skal ekki fara að halda hér neina ræðu um þetta mál. En hvort tveggja það, að þetta eða svipað frv. hefur verið flutt oftar en einu sinni á Alþingi, og svo það, að hv. menntmn. hefur fallizt, að miklu leyti að minnsta kosti, á það, að nauðsynlegt væri að gera lög í þessa átt, þ.e.a.s. til þess að tryggja að einhverju leyti uppbyggingu kirkna hér hjá okkur, sýnir, að það er mikil þörf á athugun á þessu máli, enda vitum við, að margar kirkjur eru því miður í sorglegu ástandi, gamlar og úr sér gengnar og hæfa því tæplega því veglega verkefni, sem þeim er ætlað að inna af höndum,. og mun því vera full ástæða til þess að athuga þetta mál rækilega.

Ég ætlaði mér nú einmitt, eftir að ég sá þær brtt., sem fram voru komnar, sérstaklega brtt. á þskj. 203 frá hæstv. forseta þessarar d., að óska eftir því, að n. tæki þetta mál til rækilegrar athugunar aftur,. af því að sú till. er svo stór í sniðinu; að það er náttúrlega engin leið að afgreiða hana að óathuguðu máll. Ég ætla ekkert að segja um þessa brtt. efnislega, en mun þó að svo stöddu máli ekki geta léð henni mitt fylgi. Ég álít, að það mál þurfi að athugast miklu betur. Ég held nú, að ef það ætti að, fara inn á þetta, eins og það hér er lagt fyrir, þá væri ef til vill orðið tímabært að athuga með fullri alvöru um aðskilnað ríkis og kirkju um leið. Ef söfnuðirnir og kirkjan í landinu fengju þær eignir, sem kirkjan telur sig eiga, — ég tala nú ekki um, ef eitthvað væri farið aftur í tímann einnig, — þá væri það eðlileg afleiðing af því, að þá ætti kirkjan þar með að sjá um sig sjálf að öllu leyti. Ég segi þetta ekki sem mína skoðun á málinu, — ég er ekki viðbúinn með það, — en bendi á þetta, að. það getur verið margt, sem kemur til athugunar, ef er farið að ræða jafnstórt mál og hér er um að ræða. En það styrkir mjög það, sem fram hefur komið frá ræðumönnum áður, að sjálfsagt sé að athuga þetta mál nánar og að hv. menntmn. taki því málið enn á ný til athugunar. Svo styður einnig þetta .frá mínu sjónarmiði það, sem hv. 1. þm. Eyf. benti á í sinni ræðu, að það gæti komið til mála að hækka kirkjugjöld frá því, sem verið hefur, til þess, að afla meiri tekna. — Það mun rétt, að kirkjugjöld hafa alls ekki fylgzt með annarri verðhækkun hér hjá okkur og eru á þann hátt orðin á eftir tímanum. En það var sérstök ástæða fyrir mig til þess að nefna þetta, vegna þess að dómprófasturinn í Rvík hefur núna fyrir fáum dögum lagt erindi fyrir kirkjumrn. með ósk um hækkun á kirkjugjöldum, og flytur þau rök fyrir því, að t.d. hvað snertir dómkirkjuna hér í Rvík, þá sé ekki nokkur leið að halda henni sæmilega við með þeim tekjum, sem hún hefur nú, og sýnir einnig fram á, að kirkjugjöldin séu orðin óhæfilega lág á við það, sem áður var, miðað við verðgildi peninganna nú. Þetta erindi prestanna hér í Rvík er nú í athugun hjá kirkjumrn., og það er ekki að fullu ákveðið enn þá, hvort það kemur frv. frá rn, um þetta. En mér virðist mjög eðlilegt, að þetta hvort tveggja fylgist nokkuð að, því að hvort tveggja þetta snertir sama málið, þó að nokkuð sé á sinn veg hvort. Ég taldi því rétt aðeins að skýra frá þessu hérna, og má búast við því, að eitthvað slíkt kunni að koma hér fram nú innan fárra daga á Alþingi, þó að ég þori ekki enn þá að segja það alveg ákveðið. En þetta erindi liggur fyrir með mjög sterkum rökstuðningi, að mér virðist, af hálfu dómprófastsins og yfirleitt prestanna hérna í Rvík.

Ég held það sé ekki annað, sem ég sé ástæðu til að taka fram á þessu stigi málsins, því að ég sé á því, sem aðrir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa sagt, að þessu máli muni verða frestað í bili og það verða tekið til nýrrar athugunar.