29.03.1954
Neðri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja tvær brtt. við þetta frv. á þskj. 444.

Fyrri brtt. er um það, að stjórn Kirkjubyggingasjóðs sé skipuð fimm mönnum, biskupi landsins og fjórum mönnum öðrum, sem kosnir séu í landsfjórðungunum, einn úr hverjum landsfjórðungi. af sóknarprestum og formönnum sóknarnefnda samkv. reglum, sem um það eru settar. Hér verður um að ræða, ef frv. gengur fram, nokkuð stóra lánsstofnun, og virðist mér að naumast sé hægt að ætlast til þess, að biskup landsins taki það að sér einn að veita lán úr þessari stofnun, og því rétt, að þarna sé kosin stjórn af þeim, sem einkum fjalla um þessi mál í sóknum, sóknarprestunum og formönnum sóknarnefndanna, þannig að kosinn sé einn maður úr hverjum landsfjórðungi. Sumum kann að virðast þetta heldur þungt í vöfum, en ég vil benda á það, að til þess að slík kosning gæti farið fram, er ekki nauðsynlegt að boða til fundar; heldur gæti fyrirkomulagið verið eitthvað svipað og t.d. þegar biskup er kosinn, að menn fái senda atkvæðaseðla. En hvernig svo sem þessu yrði fyrirkomið, finnst mér það ekki óeðlilegt, að yfir þessum sjóði sé einhver stjórnarnefnd, eins og tíðkast þegar á að veita lán, jafnvel þó að um minni upphæðir sé að ræða heldur en þær, sem þessi sjóður fær nú til umráða,

Hin brtt. er við 3. gr. og er um lán til endurbóta eldri kirkna. Gert er ráð fyrir því í 2. málsgr. 3. gr., að til endurbóta eldri kirkna megi ekki veita hærri lán en sem svarar 1/4 kostnaðar. Mér virðist, a.m.k. við fljóta athugun, að það sé ekki sanngjarnt, miðað við þau lán, sem á að veita til nýrra bygginga, að kveða svo á, að undir engum kringumstæðum megi lána meira en 1/4 kostnaðar út á endurbyggða kirkju. Ég þekki dæmi þess, að kirkjur hafi verið endurbyggðar með mjög miklum tilkostnaði, þannig að heita mega sem nýjar. Þó er þar um endurbyggingu að ræða, og mætti samkv. þessu ákvæði ekki veita nema kostnaðar. Hins vegar treysti ég mér ekki að svo stöddu til þess að koma fram með brtt. um að setja þarna annað hlutfall í staðinn og lagði því til, að það væri á valdi sjóðsstjórnarinnar að ákveða lán til endurbóta á eidri kirkjum, því að þau lán er ekki hægt að veita samkv. sömu reglum og til nýrra kirkna. En ég hef nú í dag verið að ræða þetta víð fleiri, sem hafa áhuga á að breyta þessu ákvæði, og þess vegna ætla ég að taka 2. lið brtt. aftur til 3. umr. Mun ég þá athuga nánar í samráði við aðra, sem áhuga hafa á þessu, hvort þetta gæti orðið eitthvað nánar tiltekið í nýrri brtt., sem fram væri borin.