30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Pétur Ottesen:

Hv. þm. N-Þ. tók aftur hér í gær til 3. umr. síðari lið brtt. sinna, sem snerti ákvæði 3. gr. frv., og við höfum nú; hv. þm. N-Þ. og ég, leyft okkur að bera hér fram skriflega brtt. um þetta efni, og mun hann þess vegna endanlega taka aftur sína till.

Þessi brtt. okkar við 3. gr. er um það, að í stað þess, að þar er svo ákveðið, að lán til endurbótar kirkna megi ekki vera hærra en 1/4 kostnaðar, þá leggjum við til, að í atað 1/6 kostnaðar komi 2/5 kostnaðar. Það er vitað, að í mjög mörgum tilfellum munu endurbætur á kirkjuhúsum vera gerðar með þeim hætti að lagfæra þær byggingar, sem fyrir eru. Og kostnaður við það að gera þessar byggingar svo úr garði, að þær verði varanlegar og uppfylli þær kröfur, sem gerðar eru. nú til slíkra húsa, mun í mörgum tilfellum vera ærið þungbær, þó að léttara sé en að rífa kirkjuna af grunni og byggja hana upp aftur. Og þar sem svo hagar til, að hægt er að gera hin eldri hús góð og varanleg, þá er það sjálfsagt í mörgum tilfellum hagkvæmisatriði að fara þessa leið í málinu, og ætti því frekar heldur en hitt að stuðla að því, að svo væri gert. Með tilliti til alls þessa er það, sem við hv. þm. N-Þ. höfum leyft okkur að flytja þessa brtt.

Ég hef átt tal um þetta við þá menn í Ed., sem stóðu að flutningi þessa frv., og hafa þeir ekkert haft fyrir sitt leyti við þessa breytingu að athuga og viðurkenna, að rétt væri að færa málið í þetta horf. Það þarf þess vegna ekki að óttast það, að það valdi neinum ágreiningi milli deilda, þó að þessi brtt. okkar hv. þm. N-Þ. yrði samþykkt

Vil ég svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. okkar og biðja hann um að fá afbrigði fyrir því, að hún megi koma hér til- umræðu og atkvæðagreiðslu.