30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

84. mál, kirkjubyggingasjóður

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það er aðeins í sambandi við síðara atriðið; sem ég raunar greindi nú frá hér áðan, þegar ég talaði fyrir till. okkar, — það er síðara atriðið, sem deilt hefur verið um í þessu máli, atriðið um það hlutfall, sem heimilast skal að lána úr sjóðnum. Ég skýrði frá því, að þegar um nýbyggingar væri að ræða, teldu fróðir menn, að hlutfallið, eins og það er í frv. núna, væri 1/3 sem mætti styrkja. En með till. þeirra hv. flm., sem komu hér með brtt., er gert ráð fyrir, að styrkja megi endurbyggingu eða viðgerðir á kirkjum með 2/5, þ.e.a.s. nokkru hærra hlutfalli. Það var það, sem ég vakti athygli á áðan að okkur fyndist nú ekki eðlilegt, sérstaklega þegar, eins og hv. þm. Borgf. viðurkenndi, að telja mætti víst, að það væri yfirleitt auðveldara fyrir söfnuðina að endurbyggja kirkjur og gera við þær heldur en ef þeir þyrftu að ráðast í nýbyggingu. Ég vildi bara vekja frekari athygli á þessu en ég gerði áðan, að okkur finnst ekki eðlilegt að hafa hlutfallið hærra um viðgerðir eða endurbyggingu heldur en um nýbyggingu.