26.03.1954
Efri deild: 69. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

182. mál, lögsagnarumdæmi Húsavíkurkaupstaðar

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja hér á þskj. 545 frv. um stækkun lögsagnarumdæmis Húsavikur á þá leið að leggja jörðina Kaldbak undir umdæmið. Kaldbakur er næsta jörð sunnan við Húsavík og nyrzta jörð í Reykjahreppi. Land jarðarinnar tekur við um 21/2 km sunnan við Húsavíkurhæ eins og bæjarstæðið er nú. Í Húsavík er mikil túnrækt, og í sambandi við þessa túnrækt er þar allmikil kvikfjárrækt. Þar er allmargt sauðfé og enn fremur talsvert af kúm. Það er þröngt til beitar fyrir þennan búfénað í heimalandi bæjarins, sauðfé vantar beitiland að segja má á öllum tímum árs, og sumarhaga vantar handa kúm í heimalandinu. Til úrbótar í þessu efni keypti kaupstaðurinn árið 1949 jörðina Kaldbak, hann leigði hús jarðarinnar fólki frá Húsavík, sem fluttist þangað, og enn fremur tún jarðarinnar, en búfjáreigendur kaupstaðarins hafa heimild til beitar í landi jarðarinnar utan túns. Málin horfa þá þannig við, að Reykjahreppur á örðugt með að hafa eðlilegar sveitarfélagstekjur af jörðinni, sem áður veitti honum góða gjaldstofna, því að þar var vel búið. Enn fremur óttast hreppsbúar, að Húsavíkurhreppur geti komið af sér og á Reykjahrepp framfærsluskyldu fátæklinga með því að setja þá niður til heimilis í Kaldbak, og þeim þykir, Reykjahverfisbúum, eiga slíkt yfir höfði sér. (Dómsmrh.: Eru þeir ekki sendir til Reykjavíkur aðallega frá Húsavík?) Það er nú of langt, enda verst Reykjavík furðanlega í þeim efnum, og okkur Húsvíkingum þykir frekar hallað á okkur í þeim viðskiptum og teljum það stafa af því, hvað Reykjavík er óeðlilega sterk í öllum efnum, líka að því er úrskurðarvald snertir. — En svo að ég tali um málið: Bæjarstjórnin í Húsavík telur ekki viðkunnanlegt að greiða af Kaldbak, sem er eign bæjarins, gjald til annars sveitarfélags og að Húsvíkingar, sem nytja Kaldbak, þurfi að lúta kalli annars sveitarfélags um skyldur ýmsar, t.d. að því ér snertir fjallgöngur, smalanir o.fl. Nú hefur orðið gott samkomulag milli bæjarstjórnar Húsavíkur og hreppsnefndar Reykjahrepps um það að óska þess, að Kaldbakur verði lagður undir lögsagnarumdæmi Húsavíkur. Útdrættir þeir, sem fylgja grg. frv., bera þetta með sér.

Ég hygg, að í frv. sé tekið allt, sem nauðsyn krefur til þess að tryggja, að lögsagnarumdæmisbreytingunni verði samfara fullkomið uppgjör milli sveitarfélaganna að því er þessum málum viðkemur og að tekjurýrnun verði bætt því sveitarfélaginu, er fyrir henni verður.

Ég leyfi mér að vænta þess, að hv. þd. samþykki frv., og ég óska þess, að því verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.