04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

118. mál, póstlög

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af samgmn. þessarar hv. d. að beiðni póst- og símamálaráðherra.

Frv. er um það, að með reglugerð geti póst- og símamálaráðherra gert húseigendum skylt að setja upp bréfakassa í eða við hús sín. Það fer m.ö.o. í þá átt að gera auðveldari útburð á pósti og koma honum á rétta staði í þeim bæjum, sem póststjórnin eða simamálaráðherra mundi ákveða.

Ég skal ekki fara neitt út í þetta frv. eins og það liggur fyrir hér núna á þessu stigi, en geta þess, eins og segir í grg., að einstakir nm: hafa óbundnar hendur um afgreiðslu þess. Hygg ég að það sé rétt og eðlileg meðferð á málinu, að að lokinni þessari umræðu verði því vísað aftur til samgmn. og hún fái tækifæri til þess að taka það til nánari meðferðar og gefa þá út nál.

Ég vil því leggja til, að þessi háttur verði hafður á að vísa málinu aftur til samgmn.