06.04.1954
Neðri deild: 78. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1669)

118. mál, póstlög

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. og flutt þar af samgmn. að beiðni póst- og símamálaráðh. Efni þess er það, að póststjórninni verði heimilað, ef ástæða þykir til, að gera húseigendum skylt að hafa póstkassa á húsum sínum eða einhvern þann annan útbúnað, sem því samsvari, þannig að auðveldara verði um póstútburð.

Það er á það bent í grg. frv., að það hafi aukizt mjög kostnaður við útburð á pósti og í stórhýsum, einkum hér í Reykjavík, séu ýmsir erfiðleikar við það, að það skuli ekki vera neinir sérstakir póstkassar eða útbúnaður á hurðum til þess að setja þar póst. Þetta mun rétt vera, og er skiljanlegt, að af þessu stafi nokkur vandræði, og af þeim sökum hefur samgmn. þessarar hv. d. fyrir sitt leyti viljað mæla með því, að þetta frv. yrði samþ., þar sem þannig stendur á og hér er aðeins um heimild að ræða, sem má gera ráð fyrir að yrði ekki notuð, nema sérstaklega brýn nauðsyn þætti til bera og þá fyrst og fremst í sambandi við þau hús, þar sem eru margar íbúðir og þar af leiðandi erfitt um að koma pósti á réttan stað.

Í frv. segir, að póstkassa skuli setja á hús á þann stað, þar sem póstmeistari bendir á. Þykir n. nokkuð hæpið að orða það svo, að skylt skuli að setja kassann nákvæmlega þar, sem póststjórnin bendir á að hann skuli vera, því að það vitanlega er nokkuð mikið smekksatriði, hvar slíkur útbúnaður er settur og hvernig því er fyrir komið. Það má segja, að það skipti kannske ekki efnislega miklu máli, en n. þykir þó viðkunnanlegra, að það sé þannig orðað eins og hún leggur til í brtt. sinni á þskj. 692, að í stað orðanna „sem póstmeistari bendir á“ komi: „sem póstmeistari samþykkir“, þannig að það verði tillögur frá viðkomandi húseiganda um það, hvar eigi að koma slíkum kassa fyrir.

Það hefur verið á því vakin athygli, en snertir kannske ekki beinlínis þetta mál, heldur framkvæmd þess, þegar þar að kemur að setja um þetta reglugerð, að það er einn nokkur vandi, sem rís í sambandi við það, ef á að taka upp þetta póstkassakerfi, og það er um öll þau mörgu bréf, sem skakkt eru adresseruð. Til þessa hefur það ekki eins mikið komið að sök, þar sem póstarnir hafa komið í hverja íbúð með póstinn og hafa þá tekið þau bréf til baka, sem skakkt heimilisfang hefur verið á. En verði það almennt að póstkassar séu upp settir, þá er mjög hætt við, að það leiði af sér mikla erfiðleika um að koma slíkum bréfum til skila. Þessu vildi ég aðeins vekja athygli á og benda hæstv. póstmrh. á þetta atriði, sem má segja að sé nú kannske ekki veigamikið, en getur þó skipt nokkru máli í sambandi við framkvæmd málsins, þannig að þetta atriði þurfi að hafa í huga við setningu reglugerðarinnar.

Ég hirði ekki að orðlengja um þetta frekar, en tek fram, að n. mælir með frv. með þessari smábreytingu. Einn nm., hv. 5. landsk., var ekki á fundi, þegar málið var afgr. í n., en mun áður hafa lýst þeirri skoðun, að hann væri málinu sammála.