11.03.1954
Neðri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

164. mál, brúargerðir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir til nýrra brúalaga, er samið af vegamálastjóra. Samgmn. beggja þd. hafa athugað það sameiginlega og orðið sammála um flutning þess. Hefur sá háttur verið á hafður undanfarin ár, þegar brúa- og vegalög hafa verið endurskoðuð, að samgmn. beggja d. hafa unnið sameiginlega að afgreiðslu þeirra. Hefur það sparað vinnu og þótt gefast vel.

Þetta frv. er lagt fram eins og það kom frá vegamálastjóra. Þýðir það að sjálfsögðu ekki, að engar breytingar sé á því hægt að gera. Hafa nm. í samgmn. óbundnar hendur um að flytja brtt. við það og fylgja brtt., sem fram kunna að koma. En það er skoðun n. í heild, að til þess að endurskoðun brúalaga fari sem bezt úr hendi, sé í aðalatriðum rétt að fylgja tillögum vegamálastjóra. Á það má einnig benda, að þótt brýr yfir einstakar ár á þjóðvegunum séu ekki teknar upp í brúalög, er engin hætta á því, að það tefji framkvæmdir. Þegar vegur er að þeim kominn, er brúin oftast nær byggð, án þess að hún hafi verið tekin upp í brúalög.

Brúalög voru síðast endurskoðuð árið 1947. Sjö ár eru því liðin frá því að þeim var síðast breytt. Er því ekki óeðlilegt, að endurskoðun þeirra fari nú fram. Af þeim 285 brúm, sem nú eru taldar í brúalögum, hafa 206 verið byggðar, en 68 ár eru taldar óbrúaðar. Þar við má bæta 11 ám, sem byggðar hafa verið á bráðabirgðabrýr, þannig að samtals eru 79 af þessum 285 fyrirhuguðu brúm á núgildandi brúalögum óbyggðar. Í frv. er hins vegar lagt til, að 135 brýr, yfir 10 metra haf og lengri, verði teknar upp í ný brúalög. Bætast því samkv. frv. 56 nýjar brýr inn á brúalög.

Samkv. upplýsingum, sem vegamálastjóri gefur í grg., sem fylgir frv., hafa samtals á tímabilinu 1890, er fyrsta brúin var byggð, til ársloka 1953 verið byggðar 467 brýr lengri en 10 metrar á þjóðvegum. Enn fremur hafa verið byggðar 260 brýr, sem eru af lengdinni 4–10 metrar. Samtals hafa á þessu 63 ára tímabili þannig verið byggðar 727 brýr í landinu.

Það er mjög fróðlegt að sjá, hvernig brúarbyggingarnar skiptast niður á hina einstöku áratugi. Þannig eru byggðar 11 brýr á tímabilinu 1890–1910, 40 brýr á tímabilinu 1911–1920, 106 brýr á tímabilinu 1921–1930 og jafnmargar á tímabilinu 1931–1940. Á tímabilinu 1951–1953 eru byggðar samtals 64 brýr yfir 10 m á lengd.

Það er þannig auðsætt, að því lengra sem líður á tímabilið, því meiri verður hraðinn í þessum nauðsynlegu framkvæmdum fyrir samgöngur þjóðarinnar.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta frv. á þessu stigi þess. Ég leyfi mér að vísa til hinnar ýtarlegu grg., sem fylgir því af hálfu vegamálastjóra. Af henni verður það ljóst, að mikil verkefni eru fram undan á sviði brúarframkvæmda í landinu. Enda þótt mikið hafi áunnizt þar síðastliðin ár, eru margar ár og lækir enn þá farartálmar á vegum þjóðarinnar. Að því verður að vinna af fyrirhyggju og ráðdeild að útrýma þeim.

Nefndin mun svo á milli umræðna taka málið í heild til frekari athugunar, en eins og ég sagði í upphafi, þá er það skoðun nm. beggja samgmn. þingsins í heild, að bezt fari á því, að tillögum vegamálastjóra verði í aðalatriðum fylgt. Hins vegar er eðlilegt að gera smávægilegar leiðréttingar og að sjálfsögðu einnig til athugunar að taka upp brtt. frá einstökum þm.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.