24.11.1953
Neðri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Einar Olgeirsson:

Það er aðeins eitt litið atriði, herra forseti, sem ég vildi leyfa mér að fá gengið úr skugga um, áður en þetta mál kemur til atkv. Þetta frv. er um framlengingu allra tekjuöflunarákvæðanna í 3. kafla dýrtíðarlaganna. Meðal þeirra tekjuöflunarákvæða er ákvæðið um 100% álag á leyfisgjöld fjárhagsráðs. Er það alveg öruggt, að við megum ganga út frá því, að þetta ákvæði verði ekki túlkað þannig eftir á, ef það frv., sem hér liggur fyrir d. nú, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, verður samþykkt, að 1%, sem þar er, verði ekki tvöfaldað? Mig langaði aðeins til þess að fá yfirlýsingu um það. Það er greinilegt, að það á ekki að vera eftir lögunum. Það er ákveðið í núverandi lögum fjárhagsráðs 1/2%, og í 32. gr. söluskattslaganna er ákveðið, að það skuli innheimta það með 100% álagi. (Fjmrh.: Stendur ekki þarna fjárhagsráð?) Jú, það stendur, þannig að maður á að geta skilið þar með, að það félli alveg burt. (Gripið fram í.) Já, það er einmitt það, sem ég vildi fá fram, að það væri þar með dautt, þannig að það mundi ekki vera hægt að innheimta það á eftir.

Svo er annað í þessu sama sambandi. Þessi gjöld fjárhagsráðs hafa hingað til verið höfð utan við fjárlögin síðustu árin. Alþingi hefur ekkert fengið að vita um ráðstöfun á tekjuafgangi af þessum leyfisgjöldum fjárhagsráðs, nema þegar hæstv. fjmrh. öðru hvoru, aðspurður, hefur gefið upplýsingar um, á hvern hátt hann sé notaður. (Fjmrh.: Hann kemur undir óvissar tekjur þar inn.) Já, en væri ekki eins gott að hafa það undir vissum tekjum? Ég held, að við ættum að athuga það í sambandi við fjárlögin, að það yrði ekki hafður sá háttur á að hafa þetta utan við þau, heldur að setja þetta inn í þau.

Svo er aðeins eitt í viðbót, sem ég býst ekki heldur við að hafi mikla beina praktíska þýðingu.

Það, sem eftir er af gjöldum af innflutningsleyfum og ákveðið er í 3. kafla þessara laga, gæti náttúrlega fallið niður, ef ríkisstj. færi að praktísera allt það frelsi, sem hún var að tala um áðan. Ég býst nú ekki við að vísu, að það sé sérstaklega mikil hætta á því, sérstaklega ekki með þessa einu vörutegund eða leyfi, sem þar er eftir, en rétt er að vekja athygli á því. Annars vil ég segja það, að ég ætla mér ekki við þessa umr. málsins að koma fram með þær brtt. aftur, sem felldar voru við 2. umr., því að mér þykir alveg sýnt, hvernig með þær mundi fara, en álít hins vegar, að þessar endurbætur, sem lagt er til hér nú, að undanþiggja landbúnaðarvélarnar og vélarnar til fiskiðjufyrirtækja, séu svo sjálfsagðar, að eftir að búið er nú að fella allt annað, sem ríkisstj. áður hefur lofað að létta af almenningi, þá ætti þó a.m.k. að vera hægt að fá þær samþykktar.