11.03.1954
Neðri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

164. mál, brúargerðir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Hv. þm. N-Þ. (GíslG) beindi þeirri fsp. til samgmn., hvort n. hygðist leggja til nýja fjáröflun í sambandi við þá endurskoðun brúalaga, sem nú er fyrirhuguð. Spurðist hann í þessu sambandi einnig sérstaklega fyrir um afgreiðslu frv. þess, sem hann hefur flutt hér í hv. þd. um brúagjald af benzíni og legið hefur hjá samgmn. deildarinnar.

Ég vil fyrst svara beint fsp. hans um það, hvort n. hefði af sjálfsdáðum í hyggju að leggja fram einhverja nýja tilhögun á fjáröflun, þannig, að n. hefur ekki sem heild haft það til athugunar. Hins vegar hefur hún fjallað um frv. hv. þm., sent það til umsagnar vegamálastjóra og fengið um það hans umsögn, þar sem fallizt er í aðalatriðum á hans hugmynd, að tvöfaldaðar verði tekjur brúasjóðs. Hins vegar er vegamálastjóri andvígur því í þessari umsögn sinni, að þessi fimm aura hækkun á benzínskatti verði látin renna í sérstakan sjóð. Hann vill, að það renni beint í brúasjóð og verði varið eins og segir í lögunum.

Ég vil taka það fram, að n. hefur ekki tekið afstöðu til þessa máls. Í henni ríkir fullur skilningur á þörfinni í þessum efnum, en hins vegar kemst n. ekki fram hjá því, að þarna er um nýja tollahækkun að ræða, sem getur haft veruleg áhrif á flutningskostnað í landinu. Áður en n. tekur endanlega afstöðu til þess, sem ýmsir nm. hafa töluverða hneigð til að vilja, hafði hún ákveðið að ræða við ríkisstj. um málið. Og ég vil segja það sem mína persónulegu skoðun, að þó að ég hafi mikinn áhuga fyrir því að fá aukið fjármagn í brúasjóð eða til byggingar stórbrúa eða endurnýjunar eldri brúa, þá tel ég ekki ráðlegt að samþykkja hækkanir á benzínskattinum og stofna sérstaka sjóði með þeirri hækkun, án þess að hafa samráð við ríkisstj. um það.

Ég get lofað hv. þm. því, að n. mun afgreiða þetta mál fljótlega. Hún hefur fullan skilning á því máli, sem hann hefur flutt, en telur sig þurfa að ráðgast um það við hæstv. ríkisstj., hverja afstöðu skuli taka til þessa máls.