11.03.1954
Neðri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

164. mál, brúargerðir

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. N-Ísf. (SB) fyrir þau svör, sem hann veitti varðandi starfsemi hv. samgmn. En þar sem frv. um brúagjald af benzíni er ekki á dagskránni, mun ég ekki reyna á þolinmæði hæstv. forseta með því að fara að ræða það, þó að ummæli, sem hv. þm. N-Ísf. lét falla um sum atriði í því sambandi, hefðu e. t. v. gefið tilefni til þess, að ég hefði farið um það nokkrum orðum. Ég vil þakka honum þau svör, sem hann veitti um það, sem n. hefur aðhafzt eða ekki aðhafzt, og vil ég svo aðeins vænta þess, úr því að n. hefur fengið áhuga á brúamálunum, sem sýnilegt virðist nú vera af því frv., sem hér hefur verið lagt fyrir í dag, að ekki liði langt þangað til hún lætur uppi álit sitt á því frv., sem ég hef flutt. Annað fer ég ekki fram á á þessu stigi málsins.