22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

164. mál, brúargerðir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. beggja þd. hafa fjallað um frv. það til brúalaga, sem hér liggur fyrir. Samkomulag hefur orðið um það innan nefndanna beggja að flytja nokkrar brtt. við það. Brtt. n. er í fyrsta lagi brtt. við 2. gr. a: Brýr yfir 10 m haf og lengri á þjóðvegum.

Þar er lagt til í fyrsta lagi, að Fnjóská fremri verði bætt inn í frv., en hún hafði áður verið á brúalögum, en fallið niður.

2. brtt. er leiðrétting við 22. lið: Á Austurlandi, þar stóð Tunguá í Stöðvarfirði, átti að vera Tunguá í Fáskrúðsfirði.

Þá er 3. brtt. við 1.D, þ. e. um að bæta við Hornafjarðarfljóti, ef fært þyki að undangenginni rannsókn. Hér er um mikið vatnsfall að ræða, sem ekki hefur verið gerð áætlun um, hvernig brúa skuli, en vegamálastjóri taldi rétt, að þar yrði brú, og það yrði tekið upp í brúalög með þessari klásúlu, sem fylgir í brtt.

Þá er enn fremur lagt til, að tvær aðrar ár í Skaftafellssýslum, Hverfisfljót í Fljótshverfi og Hólsá á Mýrdalssandi, verði teknar upp í frv. og enn fremur verði tekin þar upp brú á Ytri-Rangá á Suðurlandsvegi. Er hér um að ræða endurbyggingu eldri brúa á þessum vatnsföllum.

Loks leggur n. til í 4. brtt. sinni, að tekin verði upp brú á Hítará á Stykkishólmsvegi, en brú á því vatnsfalli er mjög hrörleg, og gegnir svipuðu máli um nauðsyn endurbyggingar hennar og um ýmsar þær ár, sem voru í frv. upprunalega.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða frekar þessar brtt. Þær brýr, sem lagt er til að teknar verði upp í frv. samkv. till., eru allar á ám, sem eru á þjóðvegum.

Ég sé, að hv. þm. hafa flutt nokkrar brtt. Þess er fyrst að geta, að brtt. á þskj. 464 eru um brýr á ám, sem eru á sýsluvegum og eiga þess vegna ekki heima í frv., þar sem eingöngu er kveðið á um brýr á ám, sem eru á þjóðvegum. N. hefur þess vegna ekki getað mælt með því, að þær yrðu samþykktar. Svipuðu máli gegnir um brtt. þær, sem eru á þskj. 476.

Um brtt. á þskj. 497 vildi ég aðeins leyfa mér að segja það, þó að hv. flm. hafi ekki mælt fyrir henni, að til hennar hefur n. ekki tekið endanlega afstöðu. Hér er um að ræða geysimikið mannvirki, brú á Ölfusá við ósa hennar, mannvirki, sem sennilega kostar 25–30 millj. kr., enda þótt engin rannsókn liggi fyrir um það. Það liggur fyrir sérstakt frv. hér í hv. þd. um brú á þessa á, og n. mun annaðhvort taka afstöðu til þess frv. eða þá til þeirrar brtt., sem hér liggur fyrir, við 3. umr. En ég vildi mælast til þess, að hv. flm. tæki hana aftur nú.

Að öðru leyti vil ég segja það, að n. mælir gegn því, að aðrar brtt. en hennar eigin verði á þessu stigi málsins samþ. í hv. þingdeild.