22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

164. mál, brúargerðir

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Ég þykist sjá á þessu frv., sem hér liggur fyrir og nú er til umr., um brúargerðir, að þeir, er að samningu þess standa, og einnig hv. samgmn. þessarar d., hafi hug á því að þoka brúarsmíðinni á fallvötnum landsins áleiðis, og er ekki nema gott eitt um slíkt að segja. Það er vissulega víða þörf á því, að þannig séu bættar samgöngurnar, ekki eingöngu með vegagerð, heldur og með brúarsmíði, og svo bezt kemur vegagerðin víða að fullu gagni, að smíði brúnna sé hraðað eftir því, sem tök eru á. Vafalaust má um þessar brýr segja, sem hafa verið teknar á þetta frv., að allra þeirra sé meiri og minni þörf.

Ég hef ekki þann kunnugleika alls staðar, að ég geti um það dæmt, hve mikil nauðsyn ráði um, hvað hún er brýn og hvað hún kann að bæta mikið úr samgönguþörfinni. Hitt dylst mér ekki, að vafalaust geri þær það allar meira og minna. Og mér sýnist af hálfu hv. samgmn., að þá vilji hún gjarnan af sinni hálfu greiða fyrir því, að þetta megi takast. Það er vafalaust, að það má telja fyrirgreiðslu, að brúalög séu sett og þær brýr, sem hugsað er til að byggja á vatnsföllum landsins, séu teknar inn á brúalög, jafnvel þó að ekki sé fullljóst, hvernig það megi takast, það sé ég á brtt. hv. samgmn. Það er ósýnt, hvað auðvelt það er eða jafnvel hvort það megi takast, en samt sem áður tekur n. þessa brtt. upp og leggur til, að hún komi inn á brúalög. Hér á ég við brúarsmíði á Hornafjarðarfljót. Þetta álít ég vel farið, einmitt að mæta þessari nauðsyn hjá mönnum víðs vegar um landið af fullum skilningi. Vitaskuld verður ekki hægt að byggja þessar brýr allar í einu, og það tekur vafalaust langan tíma. En þó að brýrnar standi á brúalögum, þá étur það ekki fé. Það ætti fremur að vera mönnum hvöt til þess að flýta þessari smíði, og með því að setja þær á brúalög er þó verið að minna á, að þetta sé ógert og það þurfi að gera.

Nokkuð af þessum ástæðum hef ég leyft mér að flytja brtt., sem er á þskj. 497. Hjá hv. samgmn. hefur legið núna lengri tíð till. frá mér um að taka þessa brú, brúna í Óseyrarnesi, inn á brúalög. Og þegar nú hér koma ný brúalög, sem ætlazt er til að séu sett nú á þessu Alþingi, þá hefur hv. n. ekki fram að þessu tekið ákvörðun um það að taka hana inn á brúalögin. En ég hjó eftir því hjá hv. frsm. n., að n. er ekki búin að taka endanlega ákvörðun um málið. Ég mun nú í lengstu lög vona hið bezta af hv. n., en ekki get ég neitað því, að mér finnst nokkuð á skorta, þegar þetta mál er nú komið til 2. umr. og aðeins þá ein umr. eftir að henni lokinni og till. er búin að liggja fyrir hjá n. síðan snemma á þessu þingi, að einmitt um þetta atriði hefur hv. n. ekki tekið enn endanlega ákvörðun. Vera má, að þetta stafi nú að nokkru leyti af því, að þetta mannvirki, er það verður reist, kostar mikið fé. En ég ætla, að ástæðurnar fyrir því, að haft er á orði að byggja þessa brú, séu meiri og mikilvægari til þess, að það verði gert eða a. m. k. prófað, hvort hægt er að gera það, heldur en nokkra aðra brú af þeim brúm, sem talað er um nú að leggja yfir vatnsfall í landinu. Og vil ég engan veginn gera lítið úr ástæðum fyrir því um margar þær brýr, sem á frv. standa, að það sé mikil þörf á þeim. — Það má vel vera, að ég eigi nokkra sök á þessu, að hv. n. hefur ekki séð sér fært að taka ákvörðun um málið, og þá vildi ég núna með nokkrum orðum reyna að bæta úr því, sem áfátt er.

Ég hef ekki svo mjög talið fram allar þær ástæður, sem í raun og veru, ef mögulegt er, gera það knýjandi, að þessi brú verði byggð undireins og möguleikar eru á því. Og þegar ég segi það, þá á ég ekki við, að öll önnur brúarsmiði í landinu eigi að — bíða eða sitja á hakanum. Ég álít, að hún verði að ganga með eðlilegum hraða, en af hálfu Alþingis verði gerðar ráðstafanir til þess að mæta þeirri fjárþörf, sem kemur við smíði þessara brúa, þegar í það verður ráðizt.

Brú á Ölfusá í Óseyrarnesi er ekki brúarsmiði í venjulegum skilningi með aðeins samgönguþörf eina, sem hér er um að ræða. Það má miklu fremur telja, að smíði þessarar brúar lúti að atvinnuöryggi þriggja kauptúna á Íslandi. Og höfuðástæðan er ekki að stytta mönnum leið frá Þorlákshöfn yfir ána í Óseyrarnesi, heldur að gera þremur þorpum mögulegt að bjargast og tryggja tilveru þeirra á þessum stað. Og að þessu atriði vil ég lítið eitt víkja.

Íbúatala á Stokkseyri mun vera nú 500–600 manns, eitthvað á sjötta hundrað; ég get ekki sagt það nákvæmlega, síðasta manntal liggur ekki enn fyrir. Áður mun það hafa verið yfir sjö hundruð manns. Fimm bátar eru gerðir út frá Stokkseyri, tveir þeirra eru 25 tonn, en hinir munu vera 15–20 tonn. Í Þorlákshöfn eru gerðir út nokkrir bátar, — það er nú tveimur færra en til stóð að yrðu á þessari vertíð, en svo illa tókst til í suðaustanroki, að bátarnir slitnuðu upp, annar gerónýttist og hinn það mikið, að hann kemur ekki að neinum notum á þessari vertíð. Ég hygg, að þeir muni vera einhvers staðar í kringum sjö; mig minnir, að mér hafi verið sagt það. Frá Eyrarbakka eru gerðir út sex bátar, en tveir af þeim hafa verið fluttir til Þorlákshafnar og eru gerðir út þaðan. Í báðum þessum kauptúnum er íshús, bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka. Með byggingu þeirra var ætlazt til að tryggja hirðingu og meðferð sjávaraflans. Nú hagar þarna svo til í þessum kauptúnum, að skerjaklasi er fyrir framan bæði kauptúnin. Það er búið um langa stund og á mælikvarða þessara kauptúna er búið að verja miklu fé til lendingarbóta, en það eru aðeins smálagfæringar, og þó að miklu fé sé varið til slíkra umbóta, getur það þó ekki orðið annað en smálagfæringar. Ef ætti að gera höfn örugga, þannig að unnt væri að sækja sjó í venjulegu tíðarfari, í hóflegu tíðarfari getur maður sagt, þá mundi á hvorum staðnum sem væri slík hafnargerð kosta tugi milljóna, hvað mikið vil ég ekki nefna í tölum, en ég þykist vita, eftir þeirri aðstöðu, sem þarna er, að þá geti það ekki kostað minna.

Öðruvísi er háttað um Þorlákshöfn að þessu leyti. Þar er byrjað á hafnarsmíði og búið að verja allmiklu fé. Aðstaða þar til sjósóknar yrði, þegar höfn væri komin, enn fullkomnari en hún er enn, því að það má segja, að þetta sé ekki nema vísir að höfn enn. Þá mundi þetta reynast, eins og áður hefur verið öldum saman, einhver bezta fiskistöð hér við land. Það er ekki nema örskammt út á fiskimiðin. Langoftast, ef nokkur fiskigengd er, gengur fiskurinn inn á grunninn, svo að það eru ekki meira en svona fimm til tíu mínútur úr höfninni út á fiskimiðin. Því mannvirki verður haldið áfram, að stækka og bæta þessa höfn, og þegar komið væri í land með smíði þess, þá er aðstaða til sjósóknar þarna hin æskilegasta. Þá mundu menn úr kauptúnunum, Stokkseyri og Eyrarbakka, gera sína báta út frá Þorlákshöfn, en flytja aflann til vinnslu í kauptúnunum eystra og nota þau mannvirki, sem reist hafa verið í því skyni að hirða um aflann, og fólkinu veitt atvinna við slík störf. Bæði þessi kauptún, Stokkseyri og Eyrarbakki, byggja allmikið á sjósókninni, stunda dálítið landbúnað, en það er mjög takmörkun bundið, hvað unnt er að hafa mikinn búskap sakir þess, að landrými er ekki það mikið, að þessi mannfjöldi, sem í þorpunum býr, geti haft fulla atvinnu eða fullt framfæri af landbúnaði einum og náttúrlega ekki nærri því. Þess vegna þarf að stunda sjávarútveginn með. En það hefur löngum reynzt mjög misbrestasamt með sjósókn úr þessum kauptúnum. Þannig hefur það stundum farið sum ár, að það hafa ekki verið nema örfáir róðrar, sem menn hafa komizt á sjóinn sökum brims.

Ég þori ekki að segja, hvaða vetur það var, en það er mjög stutt síðan, hvort það var í hittiðfyrra eða svo, að ég ætla, að það hafi verið eitthvað fjórir, fimm róðrar, sem menn komust á sjóinn af Eyrarbakka, en nærri alltaf var sjór sóttur þá úr Þorlákshöfn.

Það sér líka á, þetta öryggisleysi og erfiðleikar hjá fólkinu að komast af. Ég nefndi áðan fólkstöluna á Stokkseyri og hvað þar færi fækkandi fólki, en það hefur orðið í enn stærri stíl á Eyrarbakka. Þar var útgerð meiri, þó að ætíð hafi hún verið áhættusöm og hæpin, og þar var verzlun um eitt skeið mikil, og þá mun íbúatala Eyrarbakka hafa verið nærri 1000 manns. Ekki fyrir löngu var íbúatalan um 700, en nú er hún komin niður í 500, — ég ætla, að það sé í kringum 520, — eitthvað þess konar er íbúatala Eyrarbakka. Og eftir þeirri aðstöðu, sem er til atvinnu og lífsbjargar hjá fólki, má nærri geta, hvort ungt fólk hugsar sig ekki um tvisvar, áður en það sezt að á stöðum, sem hafa þetta erfiða afkomumöguleika, verða að byggja afkomu sína á sjónum að allmiklu leyti, en eiga það ef til vill á hættu, meira að segja í sæmilegri tíð, að helzt væri aldrei á sjóinn komizt.

Fjarlægðirnar út í Þorlákshöfn frá Eyrarbakka eru í kringum 12 km, en frá Eyrarbakka um Selfoss og út í Þorlákshöfn munu vera rúmir 50 km, og það er það mikil vegalengd og kostnaður við slíkar ferðir og flutninga er það mikill, að það er engin leið að ætla sér að gera út frá Þorlákshöfn og flytja fiskinn á bílum þessa vegalengd yfir í kauptúnin til þess að vinna að aflanum þar. Það er ekki til neins að gera ráð fyrir slíku. Það er búið að sýna sig. Þetta hefur verið prófað, og það er búið að sýna sig, að kostnaðurinn við slíka flutninga er það mikill, að slík starfsemi er fyrir fram dauðadæmd.

Nú mun verða leitað á af hálfu Stokkseyringa og Eyrbekkinga um að lagfæra lendingarnar hjá sér og verja til þess talsverðu fé, ef engin eða lítil von er um, að það heppnist að stytta þeim leið út í Þorlákshöfn og þeir geti haft sínar bækistöðvar þar. Það liggur í hlutarins eðli. Ef nú erfiðleikar þar að auki verða mjög miklir á afkomu fólksins, þá mun verða leitað þaðan, eins og frá öðrum byggðarlögum, þegar slíkt kemur fyrir, til hins opinbera um fyrirgreiðslu og fjárframlög til bjargar fólkinu. Og ég hygg, að hvorki ríkisstj. né Alþingi geti skorazt undan að verða við slíkum óskum. En mundi nú þá ekki vera fullt svo hyggilegt að mæta óskum fólksins á þann veg að greiða fyrir því, að það geti bjargað sér sjálft, hjálpa því til sjálfsbjargar, allra hluta vegna? Held ég, að það sé ekkert vafamál, að það sé æskilegra, og í rauninni á ekki annað að koma til greina.

Eitt get ég bent á líka í þessu sambandi, að hvað áhrærir afkomumöguleika á hafnarstaðnum í Þorlákshöfn, þá mundi þetta gerbreyta aðstöðunni þar. Núna er þannig háttað, að sakir útgerðarinnar í Þorlákshöfn getur hún ekki snúizt við þeim vanda, sem því er samfara, ef aflast verulega, öðruvísi en að ráða marga menn, og það verða að vera fastráðnir menn sem kallað er, því að fjarlægðir eru svo miklar. Ef grípa þarf til manna, þó að ekki sé ætið, þá er engin leið að sækja þá langar leiðir í burtu og óviðbúna þá oft og einatt, og þess vegna er ekki um annað að ræða, eins og sakir standa nú, heldur en að hafa þá fastráðna. En þetta veldur því starfi, sem þar fer fram, miklum erfiðleikum og verður miklu dýrara en annars þyrfti að vera.

Þetta kemur þá til viðbótar við þær ástæður, sem ég hef drepið á viðvíkjandi þorpunum fyrir austan ána, Eyrarbakka og Stokkseyri.

Nú stendur til, eins fljótt og nokkrir möguleikar eru á, að gera breytingar í Þorlákshöfn á því mannvirki, sem komið er, og tryggja betur legu báta þar en nú er.

Viðvíkjandi svo aðstöðunni til þessa mannvirkis, þá skal ég ekki fara mörgum orðum um það. Ég veit til þess, að það hefur verið athugað af hálfu vegamálastjórnarinnar, hvernig brúarstæði muni vera þarna, og ég veit ekki betur en að það sé gott. Ég ætla, að það hafi sýnt sig, og það kemur reyndar ekki á óvart kunnugum mönnum þarna á þessum slóðum, að það sé klöpp mikið til í ánni, svo að aðstaðan til brúarsmíðarinnar er að því leyti góð. Samt sem áður dettur mér ekki í hug, að hrapað sé að slíku mannvirki sem þessu, áður en ýtarleg og nákvæm athugun hefur farið fram á því. Það dettur mér ekki í hug, því að ef það sýndi sig, að teljast mætti mjög óöruggt og hæpið, að það stæðist, dytti mér ekki í hug að vera að flytja þetta mál og gera till. um, að horfið yrði að brúarsmíði yfir ána á þessum stað. Reyndar væri enginn skaði skeður, þó að till. um þetta efni væri tekin á brúalög, því að aldrei dytti neinum manni, sem ætti að annast þessa framkvæmd og sjá um hana, í hug að ráðast í slíkt mannvirki öðruvísi eða fyrr en búið væri að rannsaka nákvæmlega, hvar öruggt brúarstæði væri.

Viðvíkjandi svo vegarstæði, þá er það að segja, að þetta er malarrif frá Þorlákshöfn og austur á tangann, austur að ánni, og það er það hart nú, að ég veit til þess, að eftir sandinum fara bílar. Vitaskuld þarf að gera þarna upphleyptan veg, en það held ég að þurfi ekki að óttast, að það sé neinum vandkvæðum bundið eða vegarstæði þarna sé ekki öruggt. Öldum saman hefur þessi tangi verið með þeim ummerkjum, sem hann hefur. Það eru einhver munnmæli um það; að áin muni hafa fallið til sjávar eitthvað vestar en hún gerir nú. Það hef ég heyrt, en ég veit ekki til, að neinn geti nefnt þess dæmi, á hvaða tíma eða hvenær það hafi verið, og er því ekki mikið upp úr því að leggja. Svo mikið er víst, að Ölfusmegin við þennan malarkamb er áin búin að bera það mikið undir sig, — því að áður féll hún þar með vesturlandinu á löngum kafla, — að nú er þar á löngum kafla upp af malarrifinu að verða gróið land, og bendir það þá ótvírætt til þess, að áin muni falla þar sem hún gerir nú, að austanverðu. En hvað sem um þetta allt er, þá er sjálfsagt, að slík athugun fari fram. En viðvíkjandi vegarstæðinu þar veit ég fyrir fram, að það þarf ekkert að óttast.

Mér er nú sagt, að það hafi borið á góma, m. a. hjá hv. samgmn., og haft eftir öldruðum manni, sem er kominn talsvert á níræðisaldur, að malarkambur þessi muni vera nokkuð mjúkur og því muni vera betra að gjalda varhuga við þessari smíði allri. Ég veit nú ekki, þó að það hafi kannske verið sagt í alvöru, að neinn maður, og sízt af þeim, sem til þekkja, hafi tekið þetta alvarlega. Svo mikið er víst, að það hlýtur að vera langt síðan þessi maður kom á malarkambinn og sá, hvernig hann lítur út.

Ég býst nú við, að þegar þetta er fært fram, þá sé það nú svona meir sagt til gamans en að menn meini þetta alvarlega, því að það er ósköp einfaldur hlutur, — það er ekki það langt frá, og mannvirkið á nú að koma á þessum stað, — að fara um þetta og sjá, hvernig það er útlits. En annars er þetta atriði, þó að ég aðeins drepi á það, svona til þess að minna á, hvað fram er stundum borið, kannske í alvöru, en hjá þeim, er til þekkja, hlýtur það að verða álitið sem meira af gamansemi. Hjá þeim, sem kynnu að gera það í alvöru, bendir það til, hvað langt er sótt, ef koma á góðu og þörfu máli fyrir kattarnef.

Nú vil ég vona, að hv. samgmn. fylgi þessari till. minni. Vel má það vera, að mér hafi yfirsézt í því að benda ekki rækilegar á þau höfuðatriði, sem liggja fyrir um nauðsyn þessa máls, og þykir mér nú miður, að ég skuli ekki hafa gert það. En nú vil ég mega vænta þess, að hv. samgmn. fylgi þessari till., svo að hún komist inn á brúalög. Með þeirri athugasemd, sem ég hef látið fylgja till., ætti að vera óhætt að samþ. hana, því að ef hv. n. ætlar sér ekki alveg endilega að drepa málið undir öllum kringumstæðum, en einhvern veginn af sinni hálfu að greiða fyrir því með öðru móti, þá getur hún ekki fundið aðrar ástæður, sem máli skipta, heldur en það, sem ég færi fram hér með till., og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp till., eins og ég legg til, að hún verði orðuð, þ. e., að það komi einn nýr rómverskur liður, það fellur ekki undir brýr á þjóðvegum. Þetta er ekki á þjóðvegi, eins og kunnugt er. Það er ekki mín sök. Ég hef flutt hér áður á þinginu till. um að gera veginn frá Þorlákshöfn austur að á að þjóðvegi. Alþ. afgreiddi það mál ekki, en að því get ég ekki gert, og þarf það ekki að breyta eða raska forminu, að það séu aðeins brýr á þjóðvegum, eins og bæði hefur nú komið áður fram hér og kom fram, að ég ætla, af hálfu hv. frsm. Reyndar er það nú ekki alveg rétt, að þær séu allar á þjóðvegunum þessar till. um brýr, sem fyrir liggja, en mér finnst, að það skipti engu máli. Ég tek það svo af hálfu n., eins og rétt er, það á að meta nauðsynina á mannvirkinu, en ekki að hanga í einhverju formi, sem er í þessu falli a. m. k. einskis virði. Till. hljóðar þá svo:

„Á eftir tölul. I kemur nýr rómv. liður (verður töluliður II), svolátandi (og breytist liðatalan á eftir samkvæmt því): Ölfusá hjá Óseyrarnesi, enda leiði rannsókn í ljós, að brúarstæðið sé öruggt og brúarsmíðin sé mikill þáttur í að tryggja afkomu íbúanna í sjávarþorpunum austan fjalls.“

Ég ætla, að með þessu sé vikið að höfuðatriðunum, sem eru þess valdandi, að maður er með till. um brú á Óseyrarnesi. Og þarna kemur til viðbótar því, eins og ég hef nú dregið fram, enn ýtarlegri og nákvæmari athugun á því, hvað það mundi kosta að gera verulegar umbætur á lendingunum bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka.

Þá kemur mér það ekki á óvart, að það sýni sig, að það kostar afar mikið fé, og ef brúarstæðið á Ölfusá reynist öruggt, sem ég er alveg sannfærður um, þá ætla ég, að það væri miklu betur varið þeim fjármunum, þ. e. a. s. miklum fjármunum, í því skyni að koma brúnni á en að káka við lendingarbætur á stöðunum eystra, sem þó gætu aldrei orðið veruleg lausn, nokkur hjálp fyrir fólkið, en alls engin trygging.

Nú skildist mér á orðum hv. frsm., að gjarnan hefði hann kosið, að þessi till. kæmi ekki til atkv. við þessa umr. Ég er nú áður búinn að láta í ljós, hvað mér þykir þetta miður, en sé þess enginn kostur, að hv. n. geti nú náð saman og tekið ákvörðun við þessa umr., þá mun ég þó heldur verða við tilmælum hv. frsm. og taka hana aftur til 3. umr., en þá í fullu trausti þess, að vænta megi fullkomins drengskapar og skilnings af hálfu hæstv. samgmn., því að vitaskuld kysi ég, ef n. ætlar að snúast gegn till., heldur að fá úrslit um slíkt við 2. umr., og hefði ég þá í huga að velja mér nýja vígstöðu í þessu máli við 3. umr. En með því að slá því á frest með atkvgr., þá auðvitað er maður meira afvopnaður með slíkar ráðstafanir, og það þykir mér miklu miður. En samt mun ég verða við tilmælum hv. frsm., í fullu trausti þess, að vænta megi fullkomins skilnings af háttvirtri samgmn. og drengskapar í jafnþýðingarmiklu máli. Ég ætti ekki að þurfa að minna á það, að menn þekkja dæmi þess, að allfjölmennar sveitir, þó að ekki séu margar, hafa tæmzt af fólki. Og úr því nú að dæmi um slíkt liggja fyrir, þykir mér ekki ætlanlegt, að hv. samgmn. vilji nú koma í þann hópinn, sem daufheyrist við því, sem gera þarf til þess að koma í veg fyrir, að fólk á vissum svæðum í landinu verði landflótta.