22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

164. mál, brúargerðir

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það mun nú vera flestum hv. alþm. kunnugt, að þær samgöngubætur á landi hér, sem einna mest eru aðkallandi víða, eru brúargerðir, og það er komið svo, að það eru ákaflegir örðugleikar, sem því valda fyrir ýmsa menn, að svo stendur, að jafnvel smáár eru ekki brúaðar. Íslenzka þjóðin er nú búin að búa í þessu landi í 1080 ár, en það eru ekki nema tæp 40 ár af þeim tíma síðan bifreiðasamgöngur hófust hér. Allan hinn tímann var aðalsamgöngutæki landsmanna á landi hesturinn, og meðan svo stóð, þá var það þannig, að það hafði ekki ákaflega mikla þýðingu, hvort það var brú eða ekki brú á ýmsum smáám, sem nú er sterk og mikil nauðsyn til að fá brúaðar til þess að koma í veg fyrir það, að þeir, sem búa handan við, þurfi að taka flutninginn eða fólkið af bílunum og á hestana, sem oft er miklum örðugleikum bundið, og þeir, sem ekki eru kunnugir, láta sér varla til hugar koma, hvað þeir örðugleikar eru miklir.

Ég hef leyft mér að flytja hér þrjár smábrtt. við þetta frv., sem er í rauninni skrá yfir það, hvaða brýr það eru á landinu, sem í framtíðinni heri að byggja. Þessar brtt. mínar eru á þskj. 464. Hin fyrsta þeirra er ekki annað en leiðrétting um það, að í staðinn fyrir „Sléttá í Svínadal“ komi: Sléttá við Auðkúlurétt í Húnavatnssýslu. Vegna þess flyt ég þessa till., að Sléttá er ekki í Svínadal, og þetta er aðeins leiðréttingaratriði.

2. brtt. er um það að taka inn á skrána Laxá hjá Skrapatungu í Húnavatnssýslu. Þannig stendur á á þessum stað, að handan við ána af vegi og á veginn hinum megin eru fjórir bæir og þessir bæir hafa enga möguleika eins og sakir standa til þess að koma við öðru samgöngutæki en hestunum, vegna þess að það er ekki fært, nema kannske alveg um hásumarið, á bifreiðum yfir þessa á. Þarna er búið að gera áætlun og athuga brúarstæði, svo að það er ekkert í veginum hvað þetta snertir, en þessi á er á sýsluvegi, og kem ég síðar að athuga um það.

3. brtt., sem ég flyt á þessu sama þskj., er að brúa Svartá nálægt Barkarstöðum í Húnavatnssýslu. Þannig stendur þarna á, að þetta er brú af þjóðvegi og yfir á hreppsveg, og stendur þar þannig á, að þar eru sex bæir að vestanverðu við ána, sem hafa eins og stendur engan möguleika til þess að koma ökutækjum að alloftast, vegna þess að það vantar brú á ána. Ég skal taka það fram, að þarna er ekki búið að ákveða um brúarstæði, því að það getur víða komið til greina, því að þetta er engin stórá.

Nú heyrði ég það hjá hv. frsm. samgmn., að hann mælti það á móti þessum till., að þessar ár væru ekki á þjóðvegi og það er rétt. En því þá að fara hér á Alþ. að ganga frá brúalögum, vitandi það, eins og tekið er hér fram í 2. gr. frv., rómv. III að brýr á sýsluvegi eiga að vera kostaðar alveg af ríkinu, ef þær eru af ákveðinni stærð, og því þá að vera að ganga frá brúalögum hér án þess að taka upp alveg eins þær brýr, sem eru á sýsluvegum, eins og hinar, sem eru á þjóðvegum? Við skulum segja, að það væri eðlilegt, að hv. samgmn. hefði á þann hátt að hafa sýsluvegabrýr undir sérstökum flokki á l., en ég tel ekki vera réttmætt að ganga fram hjá þeim, því að það er víða svo, bæði varðandi þá brú, sem ég flyt hér till. um, og viða annars staðar, að það er engu síður og jafnvel miklu frekar þörf á að fá brúaða á, þó að það sé á sýsluvegi eins og þjóðvegabrýrnar, en það mun áreiðanlega verða tekið svo af mörgum mönnum úti um landið, þegar þeir heyra lesna þessa skrá yfir ár, sem eigi að brúa, að hinar eigi að sitja á hakanum, þær sem séu á sýsluvegi. Þetta álít ég þess vegna alveg rangt, að ganga fram hjá sýsluvegabrúnum, og ég mun skoða það svo, að mín till. um brú á Laxá hjá Skrapatungu, þegar hún kemur til atkv. hér, muni skoðast sem bending um það, hvort sýsluvegabrýr skulu takast inn á frv. eða ekki.

Varðandi hinar brýrnar, sem eru annaðhvort af þjóðvegi yfir á sýsluveg eða þjóðvegi yfir á hreppsveg, eins og hér eru dæmi um, þá gætu þær líka verið undir öðrum flokki á l., en eiga þar að vera, því að úr því að farið er hér inn á það að afgr. brúalög og á að vanda dálítið til þeirra, þá álít ég að eigi að telja upp á þeim allar þær brýr, sem eru yfir ákveðið metratal, og það án tillits til þess, á hvaða vegaflokki þær eru, hvort þær eru á þjóðvegi, sýsluvegi eða af þjóðvegi á sýsluveg eða yfir á hreppsveg.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessa brtt., en vonast eftir, að hv. samgmn. átti sig á því, að þetta muni vera réttari aðferð, og að hv. þdm. taki það til greina, þegar atkvgr. fer hér fram.