22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

164. mál, brúargerðir

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 472 að bera fram brtt. við frv. það, sem hér er tekið til meðferðar. Þessar brtt. eru, að teknar verði upp í 2. gr. frv., rómv. II. a, um endurbyggingu brúa á þjóðvegum, brú á Hitará á sýslumörkum Hnappadalssýslu og Mýrasýslu og í öðru lagi brú á Haffjarðará í Hnappadalssýslu. Ég sé, að hv. samgmn. hefur tekið upp í brtt. sínar á þskj. 487 Hítará á Stykkishólmsvegi, svo að það er í lagi hvað þá brú snertir. Hins vegar eru mér nokkur vonbrigði, að hvorki vegamálastjórnin né hv. samgmn. skuli hafa tekið upp Haffjarðará í Hnappadalssýslu, því að fyrir 2–3 árum gerði vegamálastjórnin till. til hv. fjvn. um það, að sú brú yrði endurbyggð þá strax, og óskaði að veittar yrðu til hennar um 250 þús. kr. á fjárl. Hv. fjvn. sá sér ekki fært á þeim tíma að samþ. þessa endurbyggingu eða framlag til að standast kostnað við endurbygginguna, og var því aðeins gert lítils háttar við þessa brú, sem er þó ein af elztu bogabrúm hér á landi. Hún var byggð árið 1912, svo að það segir sig sjálft, að þessi brú fullnægir hvergi nærri þeim kröfum, sem gerðar eru um styrkleika brúa á þessum árum. Sérstaklega er brúin allt of veik fyrir þá bíla sem fara yfir hana, bæði á leið til Stykkishólms og Ólafsvíkur og vestur hreppana, og er það því almennt álit manna, að það þurfi nauðsynlega að styrkja hana mjög og helzt af öllu, eins og vegamálastjórnin gerði till. um, að endurbyggja hana algerlega að nýju. Ég vil því mjög eindregið mælast til þess við hv. samgmn., að hún taki upp í till. sínar brú á Haffjarðará eða heimild til þess, að hún verði endurbyggð ásamt fleiri brúm, sem þar er rætt um.