22.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1454 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

164. mál, brúargerðir

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfáar aths. í tilefni af nokkrum atriðum, sem komið hafa fram í ræðum þeirra hv. þm., sem til máls hafa tekið.

Hv. 1. þm. Árn. (JörB) fannst nokkuð skorta á röggsemi hjá samgmn. að hafa ekki tekið afstöðu til Óseyrarnesbrúarinnar. Ég skil hv. þm. vel, að hann hefur mikinn áhuga fyrir því að koma þessu máli fram. En ég vil, að hann og hv. þd. viti það, að afstaða samgmn. byggist að mestu leyti á því, að vegamálastjóri hefur lagzt á móti því, að þessi brú yrði að svo stöddu tekin upp í brúalög. N. hefur samt ekki viljað ganga endanlega inn á það að hafa þann hátt á, og þess vegna er það, sem ég óskaði þess, að hv. 1. þm. Árn. tæki till. sína aftur til 3. umr. Ég þakka honum fyrir það, að hann hefur orðið við þeirri ósk.

En varðandi hitt, að hann þurfi að harma það, að sér hafi yfirsézt að gera fyrr en nú grein fyrir höfuðatriðum þessa máls, vil ég aðeins segja það, að í samgmn. komu mörg af hans mjög glöggu rökum fram. Bæði átti þar sæti hv. samþm. hans, hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ), og eins dró vitamálastjóri, hv. 5. landsk. (EmJ), sem einnig á sæti í n., fram ýmis þessara raka, sérstaklega þau, sem snerta þýðingu slíkrar brúar fyrir sjávarútveginn á Stokkseyri og Eyrarbakka í sambandi við hafnarskilyrði á þessum stöðum annars vegar og hins vegar í Þorlákshöfn.

Ég fullvissa hv. þm. um það, að samgmn. vill lita á þetta af sanngirni. En hins vegar hlýtur hún auðvitað að hlýða einnig á rök þess embættismanns, sem fyrst og fremst hefur verið falið að fjalla um þessi mál, vegamálastjórans. En sem sagt, n. mun taka þessa brtt. hans til endanlegrar athugunar fyrir 3. umr.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) kvartaði undan því, að ekki væri kveðið á um það í frv., hvar brú skyldi byggð yfir Sléttá. Hann hefur flutt brtt. um það, að hún skuli byggð við Auðkúlurétt. Vegamálastjóri taldi ekki rétt að ákveða það í frv., hvar yfir ána brúin skull byggð, og afstaða n. byggist á því.

Um ósk hv. þm. Snæf. (SÁ) um það, að endurbygging brúar á Haffjarðará verði tekin inn í frv., vil ég aðeins segja það, að það eru náttúrlega ýmsar brýr fleiri en þær, sem nefndar eru í frv., sem þörf er á að endurbyggja á næstunni. En þeirri stefnu hefur verið fylgt að taka aðeins fáar þeirra, helzt þær, sem eru á fjölförnustu leiðum og brýnust nauðsyn ber til að verði endurbyggðar. Ég held nú, að það geti ekki verið neitt úrslitaatriði fyrir hv. þm. að fá þessa brú tekna inn í frv. Það verður snúizt við því að endurbyggja hana eins fljótt og auðið er og ekki líklegt, að það ráði úrslitum, hvort hún verður tekin inn í frv. nú eða ekki.

Ég vil svo aðeins segja það, að það hefur orðið misprentun í brtt. samgmn. Þrír síðustu stafliðirnir í 3. brtt. eiga að berast upp sem brtt. við II., þar sem þar er um endurbyggingu á brúm að ræða. Ég held, að vegna þessarar misprentunar sé rétt að láta ekki atkvgr. fara fram um málið nú, og vil beina því til hæstv. forseta, en að sjálfsögðu verður svo séð um, að brtt. n. verði prentaðar upp og liggi réttar fyrir hv. þm. er til atkvgr. kemur. Ég vil svo endurtaka það, að n. mælir gegn samþykkt allra annarra brtt. en þeirra, sem hún flytur sjálf, og brtt. hv. 1. þm. Árn. um brúna á Óseyrarnesi, sem hún hefur óskað eftir að hann taki aftur til 3. umr., og hann hefur orðið við.