24.03.1954
Neðri deild: 65. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1688)

164. mál, brúargerðir

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki ítreka neitt þau rök, sem ég flutti hér áðan varðandi brýr á sýsluvegum, en ég heyrði það hjá hv. frsm., að n. muni ekki ætlast til þess að taka neitt af þeim brúm inn á brúalögin, og þykir mér það leitt, en þar með er náttúrlega ekki sagt, að aðrir hv. þm. séu bundnir við það að greiða atkv. eftir fyrirskipun þeirrar n. En varðandi þetta litla atriði um leiðréttingu, sem ég tel bara hreina leiðréttingu varðandi Sléttá, þá er það þar eins og annars staðar, að það dettur auðvitað engum manni í hug að færa veginn, því að brúin verður að koma þar, sem vegurinn liggur að, og það er rétt við Auðkúlurétt. Sú á, sem þarna er um að ræða, er lítil spræna, og veltur ekkert ákaflega á miklu um, hvort brúin er 20–100 metrunum ofar eða neðar, en aðalatriðið, sem réð því, að ég flutti þessa brtt., er það, að Sléttá er alls ekki í Svínadal, heldur í Sléttárdal, og þess vegna getur það ekki staðizt að láta þetta nafn standa óbreytt eins og það er í frv. hv. nefndar.