30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1459 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

164. mál, brúargerðir

Björn F. Björnsson:

Herra forseti. Við þm. Rang. fluttum allmargar brtt. við frv. til l. um brúargerðir, sem liggur fyrir hv. d. frá samgmn. Þessar till. okkar voru felldar við 2. umr. málsins að undanskilinni einni, sem fjallaði um endurbyggingu á brú yfir Ytri-Rangá við Hellu og samgmn. tók upp í sínar till.

Í frv., eins og 1. flm. till. á þskj. 537, hv. 1. þm. Rang. (IngJ), gat um, er gert ráð fyrir nýrri brú yfir Hólsá hjá Ártúnum í Rangárvallahreppi eða efst við þessa á, en á þessum stað mun fáum eða engum heimamanna hafa dottið í hug brúarstæði á Hólsá. Áður og allt til þessa tíma hefur verið gert ráð fyrir því, að brú kæmi á Hólsá á allt öðrum stað og miklu neðar við þetta mikla vatnsfall, sem þrjár stórár falla í, þ. e. Eystri- og Ytri-Rangá ásamt Þverá úr Fljótshlíð. Brúarstæðið við Ártún, eins og frv. gerir ráð fyrir, veldur því nokkurri undrun kunnugra manna.

Með því að þetta mál er stórfellt hagsmunamál héraðsins, vil ég leyfa mér að fara um það nokkrum orðum frekar til viðbótar því, sem hv. 1. þm. Rang. hefur fram tekið varðandi brtt. okkar á þskj. 537 og fjallar um það að ákveða brúnni stað neðar við Hólsá, eða í Landeyjum, eins og orðað er í till. okkar, og þannig stefnt í rétta átt miðað við hagsmuni héraðsbúa og fyrri hugmyndir manna um brúarstæði við þessa á. Skal vikið hér fáeinum orðum að samanburði á brúarstæði við Ártún og svo brúarstæði samkvæmt tillögu okkar þm. Rang.

Það var fyrst á árunum 1938–41, að hugmyndin um ákveðið brúarstæði við Hólsá varð skýr og fyllilega afmörkuð. Þáverandi þm. Rang. báru fram á hv. Alþ., í sambandi við breyt. á vegal., till. um framlengingu Ásvegar, sem liggur frá Suðurlandsbraut móts við Meiritungu um Þykkvabæ að Brú á Hólsá við Unhól í Þykkvabæ. Þessi till. þm. var fram komin fyrir beiðni flestra þeirra mörgu bænda, sem hagsmuna áttu að gæta um, að samgönguerfiðleikar þeirra leystust á viðunandi hátt, og ekki er vitað, að neinn aðili máls hafi við þessa lausn haft nokkuð að athuga, heldur hafi þeir verið mjög einhuga um þessa till. sem hina þörfustu og vafalausa. Áttu þáverandi þm. Rang. tal um þetta samgöngumál við vegamálastjóra, og hafði hann talið líklegra, að brúin yrði sett nokkru ofar, eða móts við Ytri-Hól í Vestur-Landeyjum, og er í till. okkar þm. Rang. einmitt svigrúm fyrir brúna á þessum stað.

Einmitt á þessum slóðum er fjölbýlast, og þarna eru einhverjar blómlegustu byggðir héraðsins, bæði vestan og austan árinnar. Hið myndarlega og vaxandi sveitaþorp í Þykkvabæ er annars vegar árinnar, og með brú í Vestur-Landeyjum kemst byggðin í báðum Landeyjum í hið beinasta samband við neðri byggðir héraðsins að vestanverðu, en að brú yrði reist við Ártún í Rangárvallahreppi kom engum þá til hugar, og svo mun vera enn í dag að því er varðar heimamenn velflesta.

Með brú við Ártún eru augljósir hagsmunir Landeyinga og Þykkbæinga að þarflausu fyrir borð bornir, en gömul áform og ákvarðanir um lausn geysimikils hagsmunamáls fjölda Rangæinga að engu haft. Leiðir Landeyinga hafa að fornu og nýju legið til Þykkvabæjar um Hólsá neðanverða, en víðs fjarri Ártúnum, sem sýnir ljóslega, hvar þeir, Landeyingarnir, fyrr og síðar töldu sér hentast að fara yfir þessa miklu á. Öllum Þykkbæingum mundi, eins og fyrr er á drepið, verða til hinnar mestu gagnsemdar á ýmsa lund, að brúin kæmi nær þeim. Staðháttaathugun staðfestir þetta álit.

Í þessu sambandi má geta þess, að fá sveitarfélög hafa lagt meira á sig en einmitt Þykkbæingar til þess að gera sveit sína byggilegri, og við bættar samgöngur munu framtíðarmöguleikar þar vera nær ótæmandi.

Þess má hér geta, að hjá Ártúnum er geysimikil flóðhætta, eins og hv. 1. þm. Rang. drap á, og þegar þar væri búið að þrengja farveginn að miklum mun vegna brúargerðar, mætti sannarlega við því búast, að af gæti hlotizt hið mesta tjón. Áveitukerfi Safamýra er einmitt á þessum slóðum og væri við þrengingu árinnar við Ártún í stórlegri hættu, sérstaklega flóðgarðarnir, auk þess sem þjóðvegurinn, sem liggur þarna að vestanverðu niður árbakkann, mundi fara í vatn yfir lengri eða skemmri tíma, a. m. k. síðla vetrar og fram eftir í vorleysingum.

Af framansögðu verður það ljóst, að alveg að nauðsynjalausu hefur verið breytt um stefnu í þessu máli, eftir því sem fram kemur í frv., og að mínu áliti alveg gersamlega öndvert hagsmunum þeirra, sem við eiga að búa, brotið í bága við æskilegt og fyrirhugað vegakerfi, sem leiða mundi til mikilla bóta í samgöngumálum þéttbýls og þýðingarmikils landssvæðis. Auk þess er eigi séð né gert sannanlegt á neinn hátt, að brúarstæði við Ártún í Rangárvallahreppi væri að neinu leyti ódýrara eða tryggara en á þeim stað, sem við flm. gerum ráð fyrir, þ. e. a. s. á hentugum stað í Vestur-Landeyjum, en hins vegar miklar líkur til þess, að brúargerð við Ártún mundi verða til ófyrirsjáanlegs tjóns bæði á þjóðvegi og stórfelldum ræktunarmannvirkjum,..sem þar í grennd hafa verið reist á undanförnum árum og áratugum.

Við þm. Rang. fluttum sem fyrr segir till. um brúarstæði á Hólsá við Þykkvabæ, sem var fullkomlega inn í því „plani“, sem var uppsett fyrir nærfellt áratug og enginn hefur áður hreyft mótmælum gegn, en þessi till. okkar var við 2. umr. málsins felld, illu heilli tel ég, en eins og komið er máli, er ekki um að sakast. Og til þess nú að bjarga því, sem bjargað verður, — og allajafna er hálfur skaði skárri en allur, — þá flytjum við þessa till. á þskj. 537, þ. e., að brúnni á Hólsá verði ákveðinn staður í Vestur-Landeyjum, en ekki við Ártún, eins og fram kemur í frv., og þannig er að mínu áliti með nokkrum hætti og sæmilega góðum stefnt að hinu rétta og upphaflega setta marki.

Vænti ég þess, að hv. þm. sjái sér fært að greiða þessari till. okkar atkv. sitt. Og þá fer svo, að framtíðinni er ætlað að skera úr um nánara val á brúarstæðinu.

Þá vil ég að lyktum þakka hv. samgmn. d. mjög vel fyrir það, hversu skörulega og vel hún hefur tekið þessari till. okkar, svo sem ljósast mátti verða af ræðu hv. frsm.