30.03.1954
Neðri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

164. mál, brúargerðir

Emil Jónsson:

Herra forseti. Frsm. samvn. samgmn., hv. þm. N-Ísf. (SB), skýrði frá því hér áðan og réttilega, að n. hefði ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu brtt. á þskj. 497, um brú á Ölfusá hjá Óseyrarnesi, og þess vegna: hefðu nm. allir óbundið atkv. um afgreiðslu þess máls.

Mér þykir þess vegna rétt að skýra með örfáum orðum frá því, hvers vegna ég hef ákveðið að greiða till. atkv. Svo hagar til á ströndinni þarna, að eini staðurinn, þar sem til mála kemur að gera höfn, sem það nafn getur verðskuldað, er Þorlákshöfn, en á milli Þorlákshafnar, sem er að heita má óbyggður staður eða lítt byggður a. m. k. enn þá, og sjávarplássanna Eyrarbakka og Stokkseyrar er þessi mikli þröskuldur, Ölfusá, sem ekki er hægt að komast yfir nema með því móti að fara upp að Selfossi og yfir núverandi brú þar og síðan niður til Eyrarbakka og Stokkseyrar. Þessi leið er, eftir því sem ég veit bezt, hátt í 50 km löng, en leiðin frá Þorlákshöfn og ti1 Eyrarbakka mun ekki vera nema rétt rúmir 10 km. Sjá allir þess vegna, hversu mikil óþægindi það eru fyrir þá, sem hygðust nota Þorlákshöfn sem útgerðarstað, en eiga þó heimili sín á Stokkseyri og Eyrarbakka, að fara þessa löngu leið til að komast þarna á milli.

Það, sem þess vegna í stuttu máli er ástæðan til þess, að ég hef ákveðið að vera till. fylgjandi, er það, að ég tel brúna svo afar nauðsynlega fyrir sjávarplássin austan Ölfusár og sambandið þaðan við Þorlákshöfn. Hinu er ekki heldur að neita, að á síðari árum hafa verið uppi raddir bæði á Stokkseyri og Eyrarbakka um endurbætur á höfnunum þar, eða lendingunum, sem er kannske réttara að kalla það þar, vegna þess að þeim sárnar mjög að horfa á það dag eftir dag og kannske víku eftir viku að geta ekki róið til fiskjar frá Eyrarbakka og Stokkseyri, þó að vel fært sé frá Þorlákshöfn. En ef þeir mundu eygja þann möguleika, að brú kæmi á Ölfusá, þá hygg ég, að allt tal um hafnargerð á þessum tveim stöðum — svo að nokkru næmi a. m. k. — mundi niður falla.

Ég tel þess vegna, að það sé nauðsynlegt þegar á þessu stigi málsins, að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum að byggja brúna, sé öruggt brúarstæði á ánni þarna og komi í ljós, að brúargerðin geti orðið til þess að tryggja ibúum Stokkseyrar og Eyrarbakka þá afkomu, sem þeir óska eftir að fá, með beinu sambandi við Þorlákshöfn, og þá sé með þessari viljayfirlýsingu Alþingis fenginn grundvöllur fyrir því, að hafnargerðir á þessu svæði verði að mestu eða öllu látnar á einn stað, þ. e. a. s. Þorlákshöfn, og ekki hugsað um það á hinum stöðunum, enda tel ég, að það mundi ekki verða, a. m. k. fyrir þær upphæðir sem eygjanlegar eru, nema kák eitt. En hins vegar er ég nærri viss um það, að ef viljayfirlýsing eins og þessi væri ekki gefin af Alþ., þá mundu báðir þessir staðir reyna að bæta úr lendingum sínum, eftir því sem þeir mögulega gætu, vegna þess að þeir sæju fram á það, að brúin kæmi ekki.

Hafnargerð í Þorlákshöfn hefur miðað allvel áfram síðustu árin, og lenda þar nú til afgreiðslu allstór millilandaskip, sem bæði geta látið þar í land vörur og tekið þar aftur fisk og fiskafurðir til útflutnings. Það, sem mest bagar þar, er öruggt legusvæði fyrir róðrarbáta, en einnig það stendur til bóta, og verður væntanlega hægt að bæta úr í náinni framtíð, svo að sækja megi sjó þaðan frá öllum þessum plássum á einum stað, ef tengiliðurinn yfir Ölfusá er fyrir hendi.

Nú er mér að vísu ljóst, að þessi brúargerð á Ölfusá er dýr, þó að ekki liggi fyrir um hana neinar kostnaðaráætlanir, en undir hana renna svo margar stoðir, að ég tel, að það ætti þrátt fyrir það að geta orðið viðráðanlegt.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég vildi aðeins gera grein fyrir því, hvers vegna ég og nokkrir aðrir nm. í samgmn. hafa ákveðið að fylgja þessari till., þó að ekki hafi náðst samkomulag um hana í nefndinni.