07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

164. mál, brúargerðir

Frsm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það, er hér liggur fyrir á þskj. 606, um brúargerðir, er samið af vegamálastjóra og flutt af samgmn. hv. Nd. Áður en frv. þetta var lagt fyrir hv. Alþ., var það til athugunar í samvn. samgmn., þ. e. í samgöngumálanefndum beggja deilda.

Hefur sá háttur verið hafður á, þegar um hefur verið að ræða verulegar breytingar á vega- eða brúalögum o. fl. Hefur þá verið reynt að samræma sjónarmið og vilja hv. þm., sem verið hafa með brtt. viðvíkjandi kjördæmum sínum, sem þeir hafa óskað að koma fram, og nefndirnar þá gert tillögurnar að sínum, eftir því sem möguleikar hafa verið á. Annars hefur í þessu tilfelli að mestu verið farið að tillögum vegamálastjóra um þetta frv.

Brúalög voru fyrst sett árið 1919 og 1932. Gilda þau enn með nokkrum breytingum frá 1943 og 1947. Það eru því 7 ár síðan þeim var síðast breytt. Er því ekki óeðlilegt, að lögin séu nú endurskoðuð, felldar úr lögunum brýr, sem þegar hafa verið byggðar, en bætt inn í óbyggðum brúm á þjóðvegum og víðar. Óbyggðum brúm á þjóðvegum hefur fjölgað, m. a. vegna þess, að nýir vegir hafa verið teknir inn í þjóðvegatölu, nú síðast 1951, og við það bætzt allmargar óbrúaðar ár á þjóðvegina.

Í frv., eins og það liggur nú fyrir, eftir að hafa fengið afgreiðslu í hv. Nd., eru í 2. gr. taldar upp allar óbrúaðar ár á þjóðvegum, þær sem þurfa 10 m langar brýr og lengri, og eru þær 115 að tölu; auk þess brýr, sem þarf að endurbyggja, 20 talsins. Eru þetta samtals 135 brýr. — Þá eru einnig taldar upp aðrar brýr í þessari gr., sem ríkissjóði ber að kosta ýmist að öllu leyti eða að nokkru leyti, þ. e. brýr á fjallvegum og sýsluvegum. Það má gera þessar brýr að öllu fyrir fé úr ríkissjóði, og brýr á öðrum vegum má kosta að helmingi af ríkissjóði gegn því, að það fé, sem á vantar, komi annars staðar frá. — Þá eru taldar upp í b-lið 2. gr. brýr, sem eru 4 m og allt að 10 m, og kostar ríkissjóður þessar brýr að öllu leyti á þjóðvegum og fjallvegum, og á öðrum vegum má greiða allt að helmingi kostnaðar úr ríkissjóði gegn framlagi frá hlutaðeigendum að öðru leyti.

Samtals eru nú 467 brýr, sem eru 10 m og lengri. Þessar brýr hafa verið byggðar á árunum 1890–1953, og við þessa tölu bætast allmargar bráðabirgðabrýr, sem einnig hafa verið byggðar.

Vegamálastjóri segir um þetta í grg. fyrir frv., að vegna mikilla breytinga, sem hafa orðið á þessum lögum, og vegna fram kominna brtt. við brúalögin á yfirstandandi þingi hafi þótt rétt að semja ný brúalög, þar sem þetta var sameinað, teknar upp í lögin nýjar brýr, sem breyttar aðstæður gerðu nauðsynlegt, og aðrar felldar af, sem búið var að byggja.

Samkvæmt aths. vegamálastjóra, sem fylgja frv., eru nú óbyggðar 135 brýr á þjóðvegum, 50 brýr á sýsluvegum og 4, sem hann telur hér á fjallvegum. Þetta eru samtals 189 brýr. — Það er einnig farið nokkuð í grg. út í kostnaðinn við byggingu á þessum brúm, en ég ætla að sleppa því núna og álít ekki vera ástæðu til þess að fjölyrða um þá hlið málsins á þessu stigi.

Eins og nál. á þskj. 698 ber sér, þá hefur samgmn. þessarar hv. d. haft frv. á ný til athugunar og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Einn nm., 4. þm. Reykv. (HG), var ekki á fundi, þegar málið var tekið fyrir, og hefur hann því ekki skrifað undir nál.