30.03.1954
Efri deild: 73. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

172. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og fram er tekið í nál. á þskj. 571, þá hef ég fyrirvara um eina af brtt. n. eða meiri hl. nefndarinnar.

Ég tel ekki, að ástæða sé til þess að fella 1. gr. niður úr frv. Eins og hv. frsm. gerði grein fyrir, þá eru reglurnar um rétt manna til greiðslu fulls lífeyris úr sjóðnum þær, að til þess þarf í fyrsta lagi hlutaðeigandi meðlimur sjóðsins að hafa greitt iðgjöld í full 30 ár. Þá fær hann rétt til lífeyris að því tilskildu, að hann sé orðinn 65 ára eða að samanlagður starfsaldur og aldur nemi 95 árum samtals.

Nú er það svo, eins og hv. frsm. réttilega tók fram, að þessi ákvæði í lögunum eru frá þeim tíma, þegar svið sjóðsins var miklu þrengra en nú er, meðan lögin voru aðeins um lífeyrissjóð embættismanna, sem menn fóru venjulega ekki að greiða til, fyrr en þeir höfðu lokið embættisprófi og fengið fast starf, og þá var meðalaldurinn gjarnan 25–30 ár, þegar menn byrjuðu störf. Við það, að tryggingarsvið sjóðsins hefur verið fært út, hefur sú breyting á orðið, að miklu yngri menn byrja að greiða gjöld til sjóðsins, og þá sýnir sig, að menn geta innan við sextugt öðlazt rétt til fulls lífeyris samkvæmt þessum ákvæðum um samanlagðan starfsaldur og aldur.

Ég er því alveg sammála brtt., sem um þetta fjallar, þ. e. a. s. brtt. 2. b. á þskj. 571, sem fjallar um, að lögin skuli endurskoðuð með það fyrir augum að taka þetta atriði sérstaklega til athugunar.

Hins vegar fæ ég ekki séð, að af því leiði, að eðlilegt sé að fella niður 1. gr. í frv., sem segir, að þegar menn hafa greitt í 30 ár iðgjöld til sjóðsins, þá skuli greiðslur iðgjalda falla niður. Ég hygg, að allir séu sammála um það, að þó að breyting yrði gerð á þessu ákvæði laganna og t. d. þetta aldursmark hækkað, þá mundi sú breyting engan veginn verða látin ná til þeirra manna, sem nú eru um það bil að fylla þrjátíu ára starfsaldur. Og ég hygg, að það sé álit a. m. k. sjóðsstjórnarinnar og án efa margra fleiri. að erfitt sé að gera þessa breytingu á aldursmarkinu, ef ekki ótækt, þannig að hún taki til þeirra, sem hafa tekið við starfi hjá ríkissjóði og greitt í sjóðinn undir þessum ákvæðum laganna, því að það mætti skoða sem breytingu á þeirra ráðningarkjörum. Hins vegar veldur það miklum erfiðleikum við afgreiðslustörf hjá sjóðnum að koma mönnum í skilning um, að þeim beri að greiða lengur en þau 30 ár, sem til þess þarf að fullnægja skilyrðum til þess að eiga rétt á fullum lífeyri.

Ég mun því greiða atkvæði gegn brtt. 1 á þskj. 571, þar sem ég tel, að í fyrsta lagi sé ekki eðlilegt að beita þessu ákvæði gagnvart mönnum, sem hafa náð þessum aldri, og í öðru lagi, að þó að breyting verði gerð á aldursmarkinu samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu, þá tel ég útilokað, að það verði látið ná til nokkurra þeirra manna, sem nú eru að nálgast þetta aldursstig, og jafnvel ekki til þeirra, sem hafa ráðizt til starfs hjá ríkinu undir þeim ákvæðum, sem nú eru í lögunum að því er þetta varðar.