31.03.1954
Efri deild: 74. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

172. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vildi hreyfa því hér og beina því til hv. flm. þessa frv., sem mig minnir að hafi verið hv. 4. þm. Reykv. (HG), að í nokkrum tilfellum hafa orðið örðugleikar út úr því, þegar starfsmaður Reykjavíkurbæjar, sem hefur goldið þar — eða fengið þar goldið, réttara sagt — framlag í lífeyrissjóð bæjarins og mundi hafa öðlazt greiðslurétt, ef hann hyrfi úr starfi samkvæmt þeim skilyrðum, sem sett eru í þeim reglum, — þegar slíkur maður hverfur t. d. á miðjum aldri yfir í ríkisþjónustu, þá vantar fyrirmæli um það, hvernig fara skuli, þannig að hann geti áfram notið þeirra hlunninda, sem hann var búinn að öðlast með greiðslunum, sem hans vegna voru inntar af hálfu Reykjavíkurbæjar. Þetta hefur átt sér stað í nokkrum tilfellum, sem ég veit beint um, og ekki enn fengizt lausn á. Ég vildi hreyfa því, að við þá endurskoðun l., sem á að fara fram, verði þetta atriði sérstaklega haft í huga. Það hlýtur að vera hægt að finna þá lausn t. d., að greiðslurnar hjá Reykjavíkurbæ renni yfir til lífeyrissjóðsins. Það kunna að vera fleiri möguleikar fyrir hendi, en þarna er um að ræða raunverulegt vandamál, sem ég hygg að stjórn sjóðanna, hvors um sig, hafi ekki enn þá fundið lausn á, en ef svo er, þá er það alveg nýlega. (Gripið fram í.) Já, það er mjög trúlegt, að það gildi um fleiri slíka sjóði, og þeim mun meira er verkefnið til lausnar og því meira áríðandi, að það verði reynt að finna viðhlítandi lausn fyrir þessa aðila. Það er vissulega hart, hafi maður t. d. verið í annarra þjónustu og þar verið borgað af launum hans fram til 50 eða 55 ára aldurs og hann þá fyrst verði ríkisstarfsmaður, ef hann á að lokum ekki að njóta greiðslna úr lífeyrissjóðnum nema fyrir þann stutta tíma, sem hann hefur verið í ríkisþjónustu, og ekki fá neitt úr lífeyrissjóði bæjarins eða þeirrar stofnunar, sem hann vann við, eins og hv. 1. þm. N-M. (PZ) hér hreyfði.