26.11.1953
Efri deild: 24. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að láta það koma fram nú þegar við þessa umr., að Alþfl. er algerlega andvígur þessu frv. Söluskatturinn var, eins og kunnugt er, álagður til þess beinlínis að afstýra gengisfalli íslenzkrar krónu með því að borga útflutningsuppbætur og gera aðrar ráðstafanir útflutningsatvinnuvegunum til styrktar. Síðan hann var á lagður, hefur svo gengi krónunnar verið fellt fyrst með opinberri skráningu og síðan með bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu, eins og kunnugt er. Þrátt fyrir það er haldið áfram innheimtu söluskattsins í sívaxandi mæli, þannig að hann er nú orðinn einn þyngsti skatturinn og óréttlátasti skatturinn, sem á landsmenn er lagður.

Ég taldi rétt að láta þetta koma fram nú þegar við 1. umr., en mun að öðru leyti gera grein fyrir afstöðu Alþfl. til málsins undir framhaldi umr. En það, sem alveg sérstaklega vekur athygli í sambandi við enn eina framlengingu á þessum tolli, er það, að á siðasta Alþingi, ætla ég, var skipuð mþn., sem ætlað var að gera till. um gagngerðar breytingar og endurbætur á skatta- og tollakerfi ríkisins og ekki ríkisins eins, heldur einnig tekjuöflun sveitar- og bæjarfélaga.

Ég hefði talið, að eitt af því fyrsta, sem þessi mþn. yrði að snúa sér að, væri m.a. athugun söluskattsins, sem á var lagður í því skyni, sem ég áðan sagði, en er hafður enn þrátt fyrir breyttar aðstæður. Ég verð að vænta þess, að hæstv. ríkisstj., sem hefur ráðið skipun þessarar mþn. og segir henni fyrir verkum, hafi enn nægan tíma til að hlutast til um, að tillögur komi fram um aðrar leiðir ti1 fjáröflunar fyrir ríkissjóð heldur en þær, sem felast í þessu frv.