29.03.1954
Neðri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

144. mál, orkuver Vestfjarða

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Út af ummælum hv. 3. landsk. (HV) í upphafi ræðu, sem hann flutti nú áðan, vil ég aðeins geta þess, að það var áreiðanlega öllum nm. í fjhn. ljóst, að með samþykkt þessa frv. var ekki verið að hrófla á neinn hátt við eldri lögum um heimildir til framkvæmda á þessu sviði í þessum landshluta, og verði þetta frv. samþ., þá er þarna aðeins um viðbótarheimild að ræða og víðtækari en áður var í lögum. Hitt nefndi ég, að ég teldi, að það væri ekki hægt fyrir n., enda ekki til þess ætlazt af henni, að segja neitt til um það, hvernig framkvæmdinni yrði hagað, í hvaða röð þær heimildir yrðu notaðar, sem fyrir hendi eru, eða hverjar af þeim yrðu notaðar. Það er vitanlega framkvæmdavaldið, sem ákveður það að fullrannsökuðu máli.