29.03.1954
Neðri deild: 72. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (1738)

144. mál, orkuver Vestfjarða

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er í sambandi við þær brtt., sem hérna liggja fyrir, og þann fyrirvara, sem að nokkru leyti er þar gerður af tveimur hv. þm. fjhn., að ég gjarnan vildi nota þetta tækifæri til þess að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessa virkjun, sem hérna er lagt til að samþykkja og ég er algerlega fylgjandi fyrir mitt leyti, og í sambandi við þá virkjun, sem nokkuð hefur borið á góma hér, um Fossá í Bolungavík. Þegar rætt er um það, í hvaða röð svona stórvirki skuli gerð, þá getur það náttúrlega legið á valdi Alþ. að taka ákvarðanir um það, þó að hitt sé hins vegar sá eðlilegi hlutur og sú eðlilega aðferð, að láta hæstv. ríkisstj. um slíkt. Lögin um virkjun Fossár í Bolungavík voru samþ. 1951, og því er nú lýst yfir af tveimur hv. fjhn.-mönnum, að þeir álíti, að þetta frv. eigi ekki að neinu leyti að tefja þær sérvirkjanir, sem þarna hafa verið undirbúnar á Vestfjörðum, svo sem Bolungavíkurvirkjunina, og enn fremur hafa af hv. 3. landsk. (HV) verið færð fram ýmis rök fyrir því, að heppilegt væri að leggja í þessa virkjun jafnvel á undan Dynjandisvirkjuninni. Nú er ástandið þannig hjá okkur í þinginu, að hæstv. ríkisstj. hefur enn þá ekki komið fram með neitt viðvíkjandi rafmagnsmálunum og engin yfirlýsing liggur fyrir frá henni um, hvernig gengur með lánsfjárútvegun til þeirra, og komið samt þetta langt fram á þing. Nú vildi ég leyfa mér að spyrja hæstv. ríkisstj.: Hvernig stendur þetta mál viðvíkjandi Fossá og Dynjanda? Er það fyrirætlun ríkisstj. að leggja í Fossárvirkjunina á undan, eins og margt virðist mæla með og eins og virðist vera vilji fyrir hjá ýmsum þm.? Ég álít, að sú ríkisstj., sem gert hefur rafmagnsmálin að sínu höfuðmáli, hljóti að vera búin að skapa sér nokkurn veginn hugmyndir um, hvernig hún ætlar að fara að í þessum efnum, og ætti þess vegna að geta gefið okkur núna svör um, hvað hún ætlar sér þarna og í hvaða röð eigi að taka þetta fyrir. Þau þætti mér mjög vænt um að fá. Hins vegar vil ég geta þess, að ef það er ekki hægt, þá er náttúrlega enn alveg fullur möguleiki fyrir þessa hv. d. að setja við 3. umr. málsins ákvæði inn í þetta lagafrv. um þessa aðferð eða hvaða aðferð skuli viðhöfð um þessa virkjun, og að sumu leyti væri það eðlilegt, svo framarlega sem allt er enn þá óákveðið frá hálfu hæstv. ríkisstjórnar.

Þessu vildi ég aðeins skjóta hér fram, ef hægt væri að fá þetta upplýst frá hæstv. ríkisstj., en mundi þá annars, ef það ekki fengist, athuga betur undir 3. umr., hvort hægt væri að tryggja þarna nokkra breytingu á.