07.04.1954
Efri deild: 79. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1492 í B-deild Alþingistíðinda. (1748)

144. mál, orkuver Vestfjarða

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 669 ber með sér, hefur hv. iðnn. haft mál þetta til meðferðar og leggur til, að frv. þetta verði afgr. með mjög lítilli breyt., eins og fram kemur á þskj. Hv. 10. landsk. (GÍG) var ekki á fundinum og tók því ekki þátt í afgreiðslu málsins og kann því að gera grein fyrir afstöðu sinni hér á þessum fundi.

Breyting sú, sem hv. n. leggur til að gerð verði, er sú, að á eftir 5. gr. komi ný grein, er orðist svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimild sú, sem veitt er í lögum þessum, skal þó ekki tefja byggingu þeirra orkuvera á Vestfjörðum, sem þegar eru tekin upp í heimildarlög, ef þær virkjanir þættu hagkvæmari, enda verði teknar um það ákvarðanir á yfirstandandi ári.“

En síðan ber meiri hl. n. fram brtt. á þskj. 715 um, að í stað orðanna „á yfirstandandi ári“ í lok nýju málsgr. komi: svo fljótt sem verða má.

Þegar nefndin hafði athugað þetta nánar og allar þær aðstæður, sem eru fyrir hendi, þá þótti ekki rétt að ákveða svo skamman tíma að takmarka þetta við yfirstandandi ár, þó að það sé ósk og von bæði hv. flutningsmanna og nefndarmanna, að það takist á þessu ári að ljúka athugun, og þótti því rétt að gefa hæstv. ríkisstjórn nokkru frjálsari hendur, en n. væntir þess, að þetta verði ákveðið svo fljótt sem mögulegt er.

Mál þetta var fyrst borið fram á Alþingi 1944 af þáverandi hv. þm. V-Ísf. og öðrum þm. fyrir Vestfirði, síðan var það borið fram 1948 og 1950, en hafði ekki náð fram að ganga á þeim árum, en árið 1948 höfðu verið gerð sérlög um virkjun Hólsár. Síðan voru samþ. lög 1951 um tvö ný raforkuver og nýjar orkuveitur í Barðastrandarsýslu, vegna þess að það þótti ef til vill hagkvæmara að virkja þessar smáár í staðinn fyrir Dynjandaárnar.

Brtt. miðar að því, að það sé gengið úr skugga um það svo fljótt sem verða má, hvort hentugra sé fyrir íbúa á Vestfjörðum, að horfið sé að því að láta koma til framkvæmda það orkuver, sem hér um ræðir í frv. á þskj. 582, eða að virkja fyrr hinar smærri virkjanir, sem þá gætu einnig orðið varastöðvar fyrir aðalvirkjunina í framtíðinni.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð lengri, en vænti þess f. h. nefndarinnar, að frv. verði samþ. með þeim tveim breyt., sem fyrir liggja og ég þegar hef lýst.