03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (179)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. greindi frá, gat ég ekki átt samleið með öðrum hv. nm. í fjhn. um að mæla með þessu frv., sem hér liggur fyrir um framlengingu söluskattsins.

Söluskatturinn var, eins og hv. dm. er í fersku minni, á lagður með lögum 1948 og þá ákveðið, að hann ásamt nokkrum smærri tekjuliðum skyldi renna í svonefndan dýrtíðarsjóð. Meginverkefni þessa dýrtíðarsjóðs skyldi vera það eftir l. að greiða uppbætur á verð útfluttrar vöru og að nokkru leyti að greiða niður verð hér innanlands. Þegar svo hæstv. fyrrv. ríkisstj., fyrsta ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl., tók við völdum árið 1950, var það hennar fyrsta verk að fella gengi íslenzkrar krónu, að því er ríkisstj. hélt fram, í því skyni að komast hjá að greiða verðlagsuppbætur á útfluttar vörur og þar með losa þjóðina við þá skatta, sem á hana hefðu verið lagðir til þess að standa straum af þessum útflutningsuppbótum, en útflutningsuppbæturnar voru greiddar, og það kom greinilega fram í þeim umr., sem um þau mál urðu hér á Alþ., að þær voru greiddar í þeim tilgangi að koma í veg fyrir, að lækka þyrfti gengi á íslenzkri krónu. Um leið og gengið var lækkað og úlflutningsuppbætur felldar niður, var sú ástæða niður fallin, sem borin var fram sem réttlæting á því að leggja söluskattinn á. Það sýndi sig nú, eins og kunnugt er, að þrátt fyrir þá verðhækkun í íslenzkum krónum, sem fékkst á útflutningsafurðunum með því að lækka gengið, þá fór því þó fjarri, að það nægði til þess, að útvegurinn bátaútvegurinn sérstaklega — gæti haldið áfram rekstri án stuðnings, þannig að þegar næsta árið á eftir varð að taka upp bátagjaldeyrisfyrirkomulagið til þess að hækka verð á útflutningsafurðum bátaflotans og greiða þannig fyrir sjávarútveginum eða vélbátaútveginum. Þessar upphæðir, sem styrkurinn til bátaútvegsins gegnum bátagjaldeyrisfyrirkomulagið hefur numið, munu vera rétt í kringum 60 millj. kr. á ári eða mjög nálægt þeirri upphæð, sem söluskatturinn gaf til að byrja með annað og þriðja árið, sem hann var í gildi, en sú upphæð, sem landsmenn greiða til þess, að þessi styrkur til útflytjendanna, 60 millj., fáist, er að sjálfsögðu miklu hærri, vegna þess að ofan á bátagjaldeyrisálagið bætist að sjálfsögðu álag milliliðanna, heildsalanna og smásalanna, sem þessar vörur selja, svo að allar líkur benda til, að það sé ekki minna en 90–100 þús. kr., sem á landsmenn er lagt með bátagjaldeyrisfyrirkomulaginu einn til þess að styrkja þennan atvinnuveg okkar, sem þá kemur í staðinn fyrir þær útflutningsuppbætur, sem áður voru greiddar, í fyrsta lagi gengislækkunina, sem hækkaði verð útlenda gjaldeyrisins um 72%, og síðan bátagjaldeyrisálagið, sem sjálfsagt nemur ekki minnu í hækkuðu vöruverði á landsmenn en eitthvað í kringum 100 millj. kr. á ári.

Nú væntu menn, eftir að gengislækkunin hafði verið framkvæmd og bátagjaldeyrisskipulagið komið upp, að þá væri unnt að fella niður söluskattinn, þar sem hann var beinlínis á lagður í því skyni að standa undir útflutningsuppbótunum, sem voru niður felldar, eins og ég áðan sagði. Þetta hefur þó ekki orðið. Á öðru ári eftir að stjórnin tók við, þá var í stað lækkunar söluskattsins grunnskatturinn sjálfur á innflytjendum hækkaður úr 6% upp í 7% og hefur haldizt svo síðan, þó að sú upprunalega ástæða, sem var höfð í frammi fyrir söluskattinum, væri algerlega burtu fallin. Nú leitar hæstv. ríkisstj. enn eftir framlengingu á söluskattinum og með þeirri hækkun, sem nú fyrir nokkru hefur verið á honum gerð.

Ég álít — og Alþfl. er sömu skoðunar, að af — mér liggur við að segja — öllum þeim tollum, sem á eru lagðir hjá okkur, sé söluskatturinn ranglátastur og óskynsamlegastur. Hann er ranglátastur af því, að hann lendir langþyngst á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur langþyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili, og það þarf ekki orðum að því að eyða, hversu ranglátt slíkt fyrirkomulag er til innheimtu opinberra gjalda. Aðrir tollar ýmsir — ég vil nú ekki segja flestir — eru þó álagðir með það sjónarmið fyrir augum, að þeir séu mismunandi þungir, eins og t.d. verðtollurinn, eftir því, hvaða vörur eiga í hlut, hvort hægt er að komast af án þeirra eða ekki, en til þessa sjónarmiðs er engan veginn tekið tillit við álagningu söluskattsins, heldur þvert á móti. Í öðru lagi liggur í augum uppi, að söluskattur hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina a.m.k. sem skattinum nemur og þeirri álagningu, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma á hann í öllum viðskiptum. Sú aukna dýrtíð, sem af þessu stafar, kemur svo fram í hækkuðum framleiðslukostnaði. Af því leiðir aftur, að útflutningsvörur okkar, sem framleiddar eru með þessum háa framleiðslukostnaði, verða torseldari og standa þess vegna lakar að vígi í samkeppninni við hliðstæðar vörur á heimsmarkaðinum. Tollur þessi og skattur er því hvort tveggja í senn ranglátur gagnvart þeim, sem greiða hann, og mjög óskynsamlegur frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar. Við leggjum því til, Alþfl.-menn, að þessi skattur verði felldur niður.

Hv. frsm. meiri hl. hefur eitthvað dálítið ruglazt í ríminu og flokkaskipun hér á Alþ., að því er mér virtist eftir framsöguræðu hans. Hann krafði mig sagna um það, hvernig ég mundi semja fjárlög, ef söluskatturinn væri felldur niður. Hv. þm. getur ekki meint þetta í alvöru. Hann veit, að það er ekki hægt að heimta af neinum einstökum þm. og sízt þeim, sem er í stjórnarandstöðu, að hann sé reiðubúinn undir umr. máls að skýra frá því, hvernig hann mundi steypa um jafnvíðtækum og fjölþættum lögum eins og fjárlögin eru, sem eru að miklu leyti bundin af ákveðnum, sérstökum lögum, sem þyrfti að breyta í ýmsum atriðum, sumum hverjum, í sambandi við afgreiðslu fjárl., ef gerð væri þessi breyting á þessu. Það get ég þó fullvissað hann um, að ef ég skyldi verða fjmrh. með öflugan meiri hluta á bak við mig, þá mundi ég í mjög veigamiklum atriðum breyta fjárl. í heild sinni, og það mundi að sjálfsögðu hafa áhrif til lækkunar á útgjöldum ríkissjóðs og á einstökum liðum til hækkunar. En þó að ég sé ekki viðbúinn að svara hv. þm. með því, á hvern hátt eigi að sjá ríkissjóði fyrir þessum 90 millj. tekna, sem í fjárl. er áætlað að söluskatturinn gefi nú, þá skal ég benda honum á, að hæstv. fjmrh., sem fyllir flokk þessa hv. þm., hefur einmitt viðurkennt nauðsynina á því að taka til athugunar skattakerfi og skattalög, heildartekjuöflunarkerfi ríkissjóðs, og það nú hið allra bráðasta. Það hefur sérstök mþn. samkvæmt þál. frá stjórnarflokkunum unnið að þessu verki nú að ég ætla töluvert á annað ár, og eftir því sem mér skilst á blöðum stjórnarflokkanna, þá er að vænta tillagna frá þessari mþn. nú hið allra bráðasta, ef þær eru ekki þegar komnar í hendur ríkisstj. A.m.k. er enginn vafi talinn á því, að þær komi það snemma, að unnt sé að taka þær til afgreiðslu hér á Alþ., áður en þingið lýkur störfum, og ég veit ekki, hvaða verkefni hefði legið nær og verið sjálfsagðara fyrir slíka n. sem þessa heldur en að gera ráðstafanir til þess að afla fjár í stað söluskattsins, að svo miklu leyti sem það skyldi teljast nauðsynlegt, þar sem viðurkennt er af öllum, sem um hann tala, að hann sé, eins og ég áðan sagði, ranglátasti og óskynsamlegasti tollurinn, sem á þjóðina er lagður.

Hv. frsm. hreyfði engum andmælum gegn því, að eðli söluskattsins og áhrif væru þau, sem ég gerði grein fyrir áðan, enda orkar það ekki tvímælis. Hann bar það aðeins fram, að nauðsyn ríkissjóðs til tekna væri svo rík, að af þeirri ástæðu einni væri ekki fært að fella skattinn niður. Ef hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar eru þeirrar skoðunar, að engin leið sé önnur til að afla fjár í ríkissjóðinn heldur en að framlengja sí og æ hina gömlu tolla og skatta, þá er þýðingarlaust og meiningarlaust og ekkert annað en eyðsla á ríkisfé að vera með braki og bramli að skipa mþn. til að endurskoða þessa löggjöf. Að sjálfsögðu er tilætlun með þeirri endurskoðun að finna réttlátari og skynsamlegri leiðir til þess að ná tekjum í ríkissjóðinn heldur en þessa, sem hér er farin.

Ég get þó, hv. þm. til nokkurs hugarléttis, bent honum á eitt og annað til athugunar í því efni. Ég skal í fyrsta lagi benda honum á það, að söluskatturinn er með þeim endemum, að á hverju ári, sem hann er framlengdur, eru gerðar á honum ýmsar breytingar, vegna þess að það sýnir sig æ og ávallt, að þetta er slík vandræðalöggjöf, að tæplega er hægt við hana að una, og því er verið að reyna að liðka til í hvert skipti, sem löggjöfinni er breytt, á einu sviði nú og á öðru næst, eins og kemur fram í þeim till., sem samþ. voru í Nd. nú að þessu sinni. Þar sem söluskattur er annars staðar á lagður, er mér ekki kunnugt um, að hann sé lagður á nema einu sinni, og þá er hann lagður á vöruna, þegar hún kemur til landsins. Hér er söluskatturinn lagður á þrisvar sinnum og getur í sumum tilfellum verið oftar. Einmitt á algengustu vörurnar, nauðsynlegustu vörurnar eins og brauð er söluskatturinn a.m.k. lagður á þrisvar sinnum, fyrst þegar efnið er flutt inn, síðan þegar það er selt til brauðgerðarhúsa eða verksmiðjunnar, sem býr til brauðin, og loks, þegar selt er út úr búðinni. Í sumum tilfellum er mér sagt að geti komið fyrir, að söluskatturinn falli á fjórum sinnum. Ég man ekki betur en að samtök iðnaðarmanna hafi birt útreikninga, sem sýna, að söluskatturinn á ýmsum vörum, sem fóru um þeirra hendur, gat komizt upp í milli 12 og 13%. Ég skal benda hv. þm. á ýmsar aðrar leiðir til þess að afla fjár. Það er enginu vafi á því, að það má með hækkuðu verði á einkasöluvörum, sérstaklega áfengi, fá nokkurn tekjuauka til ríkissjóðs. Loks er svo það að athuga, hvort ekki er hægt að losna við eða lækka eitthvað af þeim gjöldum, sem í fjárl. eru bundin nú, annað heldur en það, sem hv. þm. nefnir hér sýknt og heilagt, í tíma og ótíma, framlagið til Tryggingastofnunar ríkisins. Það er von manna, að nú sé búið að vinna bug á mæðiveikinni, sem hefur kostað tugi milljóna árlega undanfarið, það var a.m.k. látið í veðri vaka, að það væri sérstök neyðarráðstöfun að leggja þetta fé fram til styrktar bændastéttinni í landinu til að afstýra beinum voða. En það var þá líka sagt, að um leið og unninn væri bugur á þessum mikla vágesti með þessum miklu framlögum, sem ríkissjóður hefur lagt á sig í þessu skyni, yrði þeim miklu sköttum, sem á hann voru lagðir til þessa, auðvitað létt af. Mér er sagt, að vonir standi til, eftir þær miklu aðgerðir, sem framkvæmdar hafa verið í þessu efni, að þessi liður muni geta þurrkazt út úr fjárl. mjög bráðlega. Ýmislegt fleira mætti til tina, ef menn færu að semja fjárl. að nýju, sem mér virðist hv. frsm. ætlast til að ég fari að gera nú í sambandi við þetta eina mál. Það gefst kannske tækifæri til þess að ræða þetta atriði nánar. En meginrök mín fyrir því, að elnmitt nú sé rétt að synja um framlengingu á söluskattinum, eru þau, að það er sérstök n. skipuð af hæstv. ríkisstj. að tilhlutun stuðningsflokka hennar beggja, sem hefur það verkefni með höndum og er að vinna að því að leiðrétta ranglæti skattalaganna, finna sanngjarnari og skynsamlegri leiðir til þess að afla ríkissjóði fjár heldur en þær, sem nú eru farnar, t.d. með innheimtu söluskattsins, sem á var lagður í allt öðrum tilgangi en þeim að standa undir daglegum og almennum þörfum ríkissjóðsins.

Þó að ég nú hafi lýst yfir andstöðu minni við söluskattinn og muni greiða atkvæði gegn því, að hann verði samþykktur, þá er mér það vel kunnugt um afstöðuna hér á þ., að ég tel ekki miklar líkur til, að minar till. í því efni verði teknar til greina. Ég leyfi mér því til vara við þá aðaltill. mína, að 1. gr. og þar með frv. verði fellt, að bera fram brtt. á þskj. 228, sem ég vænti, að hæstv. forseti láti koma til atkvæða, ef 1. gr. og 2. gr. frv. verða samþ. Þær till. eru þess efnis, að ef söluskattinum er haldið á annað borð, hann á lagður, þá skuli fjórði hlutinn af þeirri upphæð, sem hann gefur, ekki

renna í ríkissjóð, heldur til sveitarsjóða í heild á landinu öllu. Það er lagt til í l. brtt. á þskj. 228 undir a-lið, að 3/4 hlutar skattsins skuli renna í ríkissjóðinn, en 1/4 skuli renna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þeim hluta, sem rennur til jöfnunarsjóðsins, skal síðan skipta á milli sveitarfélaganna í hlutfalli við fólksfjölda, þó þannig, að sá söluskattshluti, sem rennur í sjóð hvers einstaks sveitarfélags, megi aldrei nema meiru en 50% eða helmingi af álögðum útsvörum næsta árs á undan í því bæjar- eða hreppsfélagi. Tekjur af skattinum renna allar til ríkissjóðs, en hann greiðir síðan hlutann til jöfnunarsjóðs, sem skiptir honum svo á milli sveitarfélaganna, eins og áður er sagt.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fjárhagur ýmissa sveitarfélaganna er mjög erfiður og að þeim gengur illa mörgum hverjum með þeim tekjustofnum, sem þau hafa yfir að ráða, að mæta þeim kröfum, að því er snertir rekstur bæjarfélagsins og sérstaklega að því er snertir nýjar framkvæmdir, sem metið er óhjákvæmilegt á hverjum tíma. Þetta hefur leitt til þess, að farið hefur í vöxt meir og meir með hverju ári, sem hefur liðið, að framkvæmdir bæjarfélaganna, t.d. til rafvirkjana, til vatnsveitna, til hafnargerða og annarra slíkra óhjákvæmilegra framkvæmda, hafa verið studdar með því, að ríkissjóður hefur gengið í ábyrgð fyrir öllu eða miklum hluta af þeim lánum, sem til þessa hafa verið tekin. Síðan hefur það komið í ljós, að talsvert mikið af þessum ábyrgðum hefur fallið á ríkissjóð sem sjálfskuldarábyrgðarmann vegna bæjarfélaganna, og ég ætla, að það skipti milljónum í fjárl. nú, jafnvei 7 eða 8 millj., sem hæstv. ráðh. gerir ráð fyrir að ríkissjóður þurfi að leggja út af þeim sökum. Því er það ákvæði sett hér inn í c-lið eða væntanlega 6. gr., að ef ábyrgðarskuldbindingar falla á ríkissjóð vegna sveitarfélags, þá sé ráðherra heimilt að ákveða, að hluti sveitarfélags af söluskatti skuli ganga til greiðslu á þessum vanskilum. Ég álít, að þetta sé sjálfsagt ákvæði og mikil trygging í því fyrir ríkissjóðinn gagnvart sveitarfélögunum, að hann verði ekki fyrir skelli vegna þessara ábyrgða, og einmitt slíkt ákvæði sem þetta inni í lögum, meðan söluskatturinn á annað borð er innheimtur, mundi að sjálfsögðu gera ríkissjóði að verulegu leyti auðveldara að styðja bæjarstjórnir til slíkra framkvæmda sem ég áðan nefndi, sem oft og einatt er hér um bil ókleift að koma fram nema með ábyrgð og stuðningi ríkissjóðs, eins og kunnugt er.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, hæstv. forseli. Mín aðaltillaga er sú, sem kemur fram við atkvgr. um 1. gr., að frv. verði fellt, en ef söluskatturinn verður framlengdur enn að ósk hæstv. ríkisstj., þá er það tillaga mín, að fjórða hluta hans verði varið eins og þær brtt., sem greinir á þskj. 228, segja til um.

Ég skal geta þess, að eins og kunnugt er voru þessar brtt. frammi á síðasta þingi í hv. Nd. og fluttar þá af sjálfstæðismönnum í d., og virtist það benda til þess, að a.m.k. Sjálfstfl. væri þessum tillögum í heild sinni fylgjandi, þótt af einhverjum ástæðum hafi annað orðið ofan á við afgreiðslu málsins, eins og kunnugt er.