07.12.1953
Efri deild: 29. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1799)

63. mál, síldarleit

Ingólfur Flygenring:

Herra forseti. Þar sem ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara, vil ég gjarnan skýra frá því, af hverju það er.

Það kom til af því, að ég hafði einmitt heyrt þetta, svipað og hv. þm. Seyðf. gat um áðan, að það hefði komið mjög hart niður á einn fyrirtæki, síldarverksmiðjunni á Seyðisfirði, að greiða óeðlilega hátt gjald. Til þess að upplýsa þetta dálítið betur, þá átti ég símtal í morgun um þetta við Svein Benediktsson forstjóra, sem er allra manna kunnugastur þessu máli, og sagði hann rétt vera, að það hefði verið mjög hátt gjald á þessu ári, — 1952, minnir mig, frekar en 1951, — og kom það óvanalega hart niður. Og það var af því, að svo fáir tóku þátt í kostnaðinum. En til þess að kostnaðurinn yrði jafnari og lægri og yrði ekki neitt verulegur fyrir hvern einn, ef eitthvað fiskaðist af síld, þá væru þessi lög því til styrktar. En meðan menn voru sjálfráðir um, hvort þeir lögðu fram til þessa eða ekki, þá vildi það verða svo breytilegt.

Ég er með því, að þetta sé athugað á milli 2. og 3. umr., ef það þykir þörf á því að setja eitthvert hámark, eins og bent hefur verið á, og um leið til að fá þá enn þá frekari upplýsingar í málinu, þá finnst mér þetta æskilegt.