19.02.1954
Neðri deild: 50. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1502 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

63. mál, síldarleit

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Mér skilst, að það hefi komið mótmæli frá ýmsum einkaverksmiðjum gegn þessu frv. eins og það liggur fyrir. Mér var tjáð þetta, og fór ég þess vegna nýverið fram á, að málið væri tekið út af dagskrá. Við þeirri beiðni var orðið. Ég ætlaðist til, að n. ræddi við mig um málið, og tjáði það flm. frv. Þær viðræður hafa enn ekki farið fram, en málið er þó hér á dagskrá. Ég hef enn ekki séð rök þessara einkaverksmiðja, sem hafa farið fram á breytingar á frv., og veit ekki, hvort ég vil fallast á þau fyrir mitt leyti. En mér þætti betra að mega líta á þau og bera mig saman við nefndina, þannig að mér væri ekki legið á hálsi fyrir, að ég hafi ekki virt þessa aðila svo mikils að líta á þeirra tilmæli. Það er þess vegna mín ósk, að málið verði tekið út af dagskrá, þar til mér gefst færi á að sjá þessi rök, sem þarna eru fram borin. Ég endurtek, að ég veit ekki einu sinni, hvers eðlis þau eru, og geri þetta fremur til að fría mig ámæli um það, að ég virði þessa menn ekki svo mikils að hlusta á rök þeirra, heldur en ég á þessu stigi málsins vilji gera þeirra mál að mínu máli.