03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Út af niðurlagsorðum hv. frsm. fjhn. vil ég segja það, að ég mun að sjálfsögðu eftir þessi óbeinu tilmæli hans taka brtt. aftur til 3. umr. og væri honum þakklátur fyrir, ef hann héldi nefndarfund, þannig að afstaða n. til þeirra fengist, áður en þær koma til afgreiðslu síðar hér í d. Ég mun þá geyma mér alveg að tala um efni þeirra frekar en ég hef gert þangað til við 3. umr., eftir að n. hefur athugað tillögurnar.

Hv. frsm. gerði mikið úr því, að söluskatturinn hefði ekki eingöngu verið á lagður til þess að greiða uppbætur á útflutningsvörur, heldur jafnframt til þess að greiða niður verðlag á vörum hér innanlands og þar með halda dýrtíðinni niðri. Nokkuð er til í þessu, en það er þó ekki nema bara svolitið brot af sannleikanum, sem hv. þm. þar segir. Vörur höfðu verið greiddar niður hér innanlands um alllangt árabil, áður en söluskatturinn var lögtekinn, og tilefnið til þess, að hann var lögtekinn, var fyrst og fremst það, að ástandið var þannig í sjávarútveginum, sérstaklega vélbátaflotanum, að talið var, að eitt af tvennu þyrfti að gera: að tryggja ákveðið verð á útflutningsvörunum, nokkru hærra en sýnt þótti, að mundi fást fyrir þær í markaðslöndunum, eða lækka gengið og fá fram krónuhækkun í gegnum það á verðlagi varanna.

Sú leiðin, sem ég nefndi fyrst, varð ofan á á þingi 1948, og söluskatturinn var lögtekinn beinlínis til þess, eins og 19. gr. þeirra l. ber með sér, að standa undir þeim uppbótargreiðslum, sem þurfti til þess að tryggja, að útgerðin fengi það verð, sem Alþ. hafði ábyrgzt á því ári. Tilgangurinn með álagningu söluskattsins var því sá fyrst og fremst og nærfellt eingöngu að standa undir þessum greiðslum. Hitt skipti svo ekki máli, hvernig framkvæmdin hefur farið úr höndum þeirrar hæstv. ríkisstj., sem þá fór með völd, hvort hún hefur haft algert „pokasystem“, eins og það var kallað, og gætt þess vandlega, að enginn eyrir af skattinum yrði notaður til annars en í þessar niðurgreiðslur, eða hvort þessu er blandað saman við aðrar greiðslur ríkissjóðsins. En fram hjá því verður ekki komizt, að skatturinn var á lagður í þessu skyni, og þess vegna voru ástæðurnar fyrir honum burt fallnar, um leið og niðurgreiðslurnar voru felldar niður.

Ég skal ekki taka upp neinar kappræður við hv. frsm. um gengislækkunina, það er búið að ræða hana svo oft. Hann sagði hér sem sína skoðun, að gengislækkunin hefði verið með öllu óhjákvæmileg, þegar hún var gerð, en hún hefði bara ekki verið nægilega mikil, og því þyrftum við í viðbót við gengislækkunina nú að hafa bátagjaldeyrisfyrirkomulagið og nota — held ég hann hafi sagt — fast að helmingi af söluskattinum til að greiða niður verð á vörum hér innanlands. Ég sé nú ekki betur en að þessar yfirlýsingar hv. frsm. séu þó áfellisdómur á einmitt gengislækkunaraðgerðir hæstv. ríkisstj. og hans flokks í þessum málum, því að það er sannað augljóslega, að gengislækkunin hefur alls ekki náð þeim tilgangi, sem yfir var lýst, þegar hún var samþ., og að sjálfsögðu var tilætlun þeirra, sem knúðu hana fram.

Þá sagði hv. þm. einnig, að innlendur kostnaður við framleiðsluna væri nú orðinn svo mikill, að það torveldaði sölu útflutningsafurða okkar í markaðslöndunum. Ég er honum alveg fullkomlega sammála um þetta. En meginástæðunnar til þess, hvað framleiðslukostnaðurinn er orðinn mikill, er að leita einmitt í tollapólitík hæstv. ríkisstj. Ég hélt nú ekki, að verkalýðsfélögin væru sérstaklega sterk hér innan stjórnarflokkanna eða hefðu verið frá því 1950, að gengislækkunin var samþ. Það er viðurkennt af hv. frsm. sjálfum, að söluskatturinn hljóti að koma fram í hækkuðu verði varanna. Hann hefur ekki hreyft neinum mótmælum eða athugasemdum við áætlun mína um, hvað þetta nemur mikilli upphæð. Ég hef áætlað, að það næmi nú allt að 100 millj. kr., sem vörurnar hækkuðu vegna söluskattsins, og að sjálfsögðu kemur það fram í aukinni dýrtíð, kemur fram í hækkuðu kaupi, kemur fram í auknum framleiðslukostnaði á þeim vörum, sem við flytjum út og seljum þar í samkeppni við aðra. Þetta sér hv. frsm. mætavel og viðurkennir. Þegar svo til viðbótar við þetta er tekinn bátagjaldeyririnn og sú verðhækkun, sem af honum stafar, vísitöluhækkun og kauphækkun, þá er augljóst, að þessir tveir liðir eiga sinn ríka þátt í því, hversu framleiðslukostnaðurinn hefur aukizt og þar með nauðsynin á því að fá hækkað verð fyrir útflutningsafurðirnar.

Ég þykist vita, að hv. frsm. muni svara því til, að þetta sé því að kenna, að verkalýðssamtökin í landinu hafi knúið fram kauphækkanir og þar með íþyngt atvinnuvegunum, eins og það heitir. Ég hygg, að ef með sanngirni er litið á þessi mál, þá verði menn að játa það, því miður, að raunverulegt kaupgjald verkamanna í landinu nú, miðað við klst. eða dag, er sízt hærra, heldur lægra en það var fyrir gengislækkunina. Það, sem verkalýðurinn hefur áunnið með sínum samtökum í þessu efni, er ekki einu sinni nægilegt til þess að mæta þeirri dýrtíðaraukningu, sem orðið hefur á þessum tíma. Ég hygg, að ef hv. frsm., sem er sanngjarn maður, kynnti sér þessi mál, þá hlyti hann að játa, að svo er. Þó var látið í veðri vaka, þegar gengislækkunarlögin voru sett, að svo væri um hnútana búið, að byrðar ættu ekki að lenda í formi kauplækkunar á almenning og verkalýðinn í landinn af þeim sökum.

Hv. þm. spyr enn um það, á hvern hátt ég vilji sjá ríkissjóði fyrir tekjum, ef þessi liður sé niður felldur. Ég vil alls ekki fallast á, að það sé skylda einstakra þingmanna, sem andstæðir eru stjórninni, í hvert skipti sem þeir hreyfa andmælum um hennar tekjuöflunarleiðir, að hafa á takteinum till. um það, hversu fjárins skuli afla í staðinn, vegna þess, eins og ég áður sagði, að það er tvennt, sem kemur til athugunar þar: annars vegar matið á þörfum ríkissjóðs og hvernig skuli verja því fé, sem ríkissjóður tekur til sín, og hins vegar, eftir hvaða leiðum þess skuli aflað. Því er alveg óeðlilegt að taka einn einstakan tekjulið eða gjaldalið og heimta, að það séu gerðar ráðstafanir til að mæta honum alveg sérstaklega. Þetta er samhangandi kerfi, eins og hv. þm. viðurkenndi, og það er einmitt verkefni þeirrar nefndar, sem nú situr, að finna réttlátari og skynsamlegri leiðir til þess að afla ríkissjóði þeirra tekna, sem nauðsyn krefur á hverjum tíma, og því eðlilegt, að hún vinni það verk í heild, og ég verð að vænta þess, að till. komi frá henni í þessu efni.

Ég skal þó, rétt til þess að vekja athygli hv. þm. á þessu, sem ekki ætti að vera þörf á, benda á einn tekjustofn, sem er — mér liggur við að segja — ónotaður sem slíkur. Það er sú gífurlega verðhækkun á fasteignum, sem fallið hefur í skaut einstakra manna í landinu og félaga á gengislækkunarárunum eða verðhækkunarárunum. Það er enginn vafi á því, að sú eignaaukning, sem fram hefur komið í gegnum verðhækkun fasteigna og fasteignatgilda á landi hér, er svo stórkostleg, að einmitt þar væri sjálfsagður tekjustofn fyrir hendi. (Fjmrh.: Ætli það gæti ekki þvælzt fyrir þingmanninum að innheimta hann.) Það er ekki ótrúlegt, en hæstv. fjmrh. hefur nú ýmis ráð, sem þingmaður hefur ekki, til að innheimta það. En fyrsta tilraunin er þó sú að setja um þetta skynsamlega löggjöf og síðan að fá öfluga og góða innheimtumenn til að sjá um framkvæmd hennar, og í því hefur nú fjmrh. nokkra æfingu, og ég efast ekki um, að hann mundi leggja sig í lima, — en ég vil ekki gera þetta að neinu gamanmáli. Það er alveg augljóst mál og viðurkennt af öllum, sem ekki loka augunum fyrir staðreyndum, að það eru hópar manna hér í þessu landi, sem hafa grætt hundruð þúsunda og milljónir á því, sem fasteignirnar hafa hækkað í verði, gersamlega án eigin aðgerða, og þessi verðhækkun kemur að sama og engu leyti fram til skatts. Ég skal bara minna á eitt dæmi hér, sem hv. frsm. ætti að vera í fersku minni. Það er sala Kveldúlfseignanna, um 12 millj. kr. Flokkur hans og blað hafa fullyrt, að kaup þessi séu ámælisverð af hálfu kaupandans, þetta sé svo háu verði keypt. Ég þori engan dóm á það að leggja. Ég er ekki viss um, að það sé hærri sala á þessum eignum heldur en ýmsum öðrum eignum, sem hafa verið seldar hér í bænum um svipað leyti, en hitt er víst, að þessi eign hefur ekki kostað seljandann nema nokkur hundruð þúsunda króna, langmestur hlutinn af þessum 12 milljónum er hreinn gróði, sem aldrei kemur til skatts og enginn eyrir hefur verið tekinn af til skatts. Ég nefni þetta dæmi bara af því, að það hefur verið umrætt hér mjög í blöðunum og einmitt orðið nokkurt umræðuefni milli stjórnarflokkanna.

Það er talið, að húseignirnar eingöngu hér í Reykjavík séu að brunabótamati nokkuð á fjórða þúsund milljóna króna. Meginhlutinn af þessari upphæð, þessu verðmæti, liggur í hækkuðu verði á fasteignum og húsum, sem voru byggð áður en til féþurrðar útgerðarinnar kom, enda er það vitað, að slíkar eignir hafa tífaldazt í verði og jafnvel meira núna á síðustu 10–11 árum. Ekki milljónir, ekki tugir milljóna, heldur hundruð milljóna hafa á þennan hátt skapazt sem verðmæti í eigu einstakra manna á gengislækkunarárum og dýrtíðaraukningarárum, sem ekki er tekinn neinn skattur af og enginn skattstofn verður að óbreyttu. Ég fæ ekki annað séð en einmitt meginverkefni slíkrar mþn. sem mþn. í tolla- og skattamálum væri að sjálfsögðu að finna leiðir til þess að fá eitthvað af þessu fé aftur í ríkissjóðinn. Það er ekki nóg að hrista höfuðið og segja, að það sé torvelt að innheimta þetta. Ég veit, að innheimta með sama hætti eins og á stóreignaskattinum getur kannske orðið leiðigjörn, en ég get vel skilið það, að hæstv. fjmrh. andvarpi, þegar minnzt er á slíka innheimtu, en það ætti að mega búa svo um hnútana í löggjöfinni, að til slíks greiðslufyrirkomulags ætti nú ekki að þurfa að koma. — En þetta er nú alls ekki verkefni mitt. Þetta er bara ábending til hv. þm., af því að hann sér engar leiðir aðrar en söluskattinn til þess að afla þessa fjár, og þarna er þó leið, sem mætti athuga í því sambandi.

Hv. þm. sagði, að hvað sem maður nú ætlaðist til af mþn., þá væri það ljóst, að hún gæti ekki skilað till. um þetta efni svo snemma, að þær yrðu afgr. fyrir lok þessa þings; það mesta, sem hún gæti klárað, væri það, ef hún gæti lokið við breytingar á tekju- og eignarskattslögunum. Þetta er mér ekkert kunnugt um. Ég vil ekki vefengja orð þm. í þessu efni, en mér hefur fundizt, að n. hefði getað sinnt öðrum störfum jafnframt, og mætti við því búast eftir hálfs annars árs starf, að hún gæti nú lagt einhverjar fleiri till. fram heldur en þetta. En sannleikurinn mun vera sá í þessu efni, að hæstv. ráðh. og stjórnarflokkarnir una mjög sæmilega þessu fyrirkomulagi, sem nú er, og sjá því ekki ýkja mikla ástæðu til að leita að öðrum leiðum til að afla fjár fyrir ríkissjóð. Ef eindreginn vilji kæmi fram á Alþingi um það, að það telji þessar leiðir ekki lengur færar, efast ég ekki um, að hæstv. ráðh. og mþn. mundu óðar taka til starfa af meira kappi en gert hefur verið til þessa til þess að finna aðrar leiðir til að afla fjárins. Ég held sannarlega, eftir að búið er að framlengja söluskattinn nú ár eftir ár, eins og kunnugt er, undanfarin fjögur ár, þá sé ekki vanþörf á því að láta hæstv. ríkisstj. og þá mþn. líka hafa nokkurt aðhald í þessu efni.

Ég skal nú ekki ræða mikið um áfengisverðið eða „afturför“ drykkjuskaparins, gefst sjálfsagt tilefni til þess seinna, en það vil ég nú segja, að ég hef enga trú á því, að þó að brennivínið yrði hækkað eitthvað lítillega, t.d. til þess að mæta því, sem þyrfti þá að leggjast sem aukaframlag til trygginganna, — það mundi nema hér um bil 10 kr. á flösku, — þá mundi það nú gera verulegan mun á því, hvort menn brugguðu meira eða minna af þeim sökum. Sú markalína liggur ekki svo glöggt, að slík verðhækkun mundi hafa nein veruleg áhrif í þeim efnum. Ég veit ekki heldur, hvort áfengið er svo mjög dýrt, samanborið við annað. Ég gat um það áðan, að húseignir hafi tí- eða tólffaldazt í verði, og ég efast um, að brennivínið, „svarti dauðinn“, hafi gert betur en að fylgjast með verðhækkun fasteignanna og kannske tæplega það. Og ekki get ég nú sagt, að það væri nein bein áníðsla á þjóðfélaginu, þó að hækkunin á „svarta dauða“ væri eitthvað í líkingu við hækkunina á almennu húsnæði til almenningsþarfa, — það væri nein sérstök ástæða til að kvarta yfir því, að þeir, sem hann kaupa, væru svo illa meðfarnir af þeim sökum.

Ég get látið þetta nægja að sinni. Ég mun, eins og ég tók fram í upphafi máls míns, taka brtt. aftur til 3. umr. og er að sjálfsögðu formanni n. þakklátur fyrir, ef hann kallar saman fund til þess að ræða þær, og mundi sérstaklega verða honum þakklátur, ef hann féllist á að mæla með till.