07.04.1954
Neðri deild: 80. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

63. mál, síldarleit

Frsm. (Sigurður Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér fyrir hönd sjútvn. að taka aftur brtt. n. á þskj. 364. N. hefur nú borið fram aðra brtt. á þskj. 714, sem innifelur m. a. þær breytingar á frv., sem brtt. n. á þskj. 364 bar með sér.

Breytingar þær, sem n. hefur gert á frv. eftir 3. umr. þess í hv. Ed., eru þessar:

Gert er ráð fyrir, að í sambandi við 2/3 hluta heildarkostnaðarins við síldarleitina, sem síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjurnar norðan- og austanlands eiga að standa undir, verði skiptingin þessi: 1 tunna saltsíldar til útflutnings skal jafngilda 1½ máli síldar til bræðslu. Áður var í frv. gert ráð fyrir því, að 1 tunna saltsíldar til útflutnings skyldi jafngilda 1 máli síldar til bræðslu. Virðist þessi breyting í frv. vera til bóta, þar sem hráefni í einni tunnu saltsíldar er stórum verðmeira en eitt mál bræðslusíldar.

Í öðru lagi hefur n. numið burt úr frv. það ákvæði, sem hv. Ed. setti í 2. málsgr. 4. gr. á þskj. 355, að kostnaður síldarútvegsnefndar og síldarverksmiðjanna mætti aldrei nema meiru en 2 kr. á mál eða tunnu.

Einnig hefur n. fellt burt 4. málsgr. sömu gr., þar sem ákveðið var, að ríkissjóður tæki á sig að greiða það, sem á vantaði, að tveggja krónu greiðslan á mál og tunnu frá síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjunum hrykki til að standa undir 2/3 hlutum síldarleitarkostnaðarins. Sjútvn. var sammála um, að ástæðulaust væri að íþyngja ríkissjóði með útgjöld hvað þetta snerti.

Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að bera hér fram skriflega brtt., svo hljóðandi: Það er brtt. við brtt. á þskj. 714, sem er flutt af sjútvn. Fyrir orðin „saltaðrar síldar“ í 2. málsl. a-liðar kemur: herpinótasíldar.

Í frv. upphaflega var þetta orðað svona, en í meðferð hv. Ed. hefur þetta orðalag í frv. breytzt, þannig að það stendur aðeins „saltaðrar síldar“. Það er engin sanngirni að gera ráð fyrir, að sú síld, sem veiðist í reknet, standi einnig undir síldarleitinni, og þess vegna er það, að við flytjum þessa brtt., að þetta gildi aðeins um herpinótasíld.