30.10.1953
Neðri deild: 14. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

79. mál, skipun læknishéraða

Flm. (Jón Pálmason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 108, er gamall kunningi hér í hv. Alþ., því að það er búið að flytja það tvisvar áður. Á næstsíðasta Alþ. var það flutt af heilbr.- og félmn. og að tilhlutun heilbrigðismálastjórnarinnar og náði þá samþykki gegnum þessa hv. d., en var ekki afgr. frá Ed., aðallega vegna breyt., sem á því voru gerðar. Á síðasta þingi var einnig samþykkt þessi skipun, sem hér er farið fram á, hér í hv. Nd., en féll með jöfnum atkv. í hv. Ed. En það mikil nauðsyn er á því talin að stofna læknishérað í Höfðakaupstað og þeim sveitum, sem þar eru fyrir norðan, að eftir að Alþ. lauk störfum síðast, þá fengu hreppsnefndirnar þar til sín lækni, sem hefur starfað þar síðan og starfar enn við góðan orðstír. Nú vil ég mega vænta þess, að þetta frv. nái framgangi á þessu yfirstandandi þingi, þannig að þessi skipun, sem þegar er komin á, verði gerð lögformleg, og ég teldi mjög sanngjarnt og eðlilegt, að ríkissjóður greiddi laun þeim lækni. sem nú er þarna starfandi, frá þeim tíma, að hann tók við starfi, enda þótt ég hafi ekki sett það inn í þetta frv.

Ég vil svo að lokinni þessari umr. leggja til, að þessu frv. verði vísað til hv. heilbr- og félmn.