02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

79. mál, skipun læknishéraða

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. það, sem fyrir liggur um læknaskipun í Blönduóshéraði og Höfðahéraði, kom fram á síðasta Alþingi. Var það þá flutt í Nd. af heilbr.og félmn. og að tilhlutan landlæknis. Náði það samþykki í Nd., en féll í Ed.

Margt mælir með því, að sérstakt læknishérað skuli stofnað í Höfðakaupstað, og hafa viðkomandi hreppsnefndir sýnt mikinn áhuga fyrir málinu, m. a. með því að ráða lækni, sem starfað hefur þar á þeirra kostnað. Bréf hefur nýlega borizt frá kvenfélaginu Einingu í Höfðakaupstað, er fjallar um þetta mál, og vil ég lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur kvenfélagsins Eining í Höfðakaupstað, haldinn 2½ samþ. eftirfarandi ályktun: „Með því að hér í Höfðakaupstað hefur verið starfandi læknir s. l. ár, sem hefur reynzt mjög vel, og í ljós hefur komið, að fyllsta þörf er fyrir lækni hér, skorar fundurinn á hreppsnefnd Höfðahrepps og alþm. sýslunnar að vinna af alhug og kappi að því, að hér verði sem fyrst ákveðið sjálfstætt læknishérað og læknir búsettur hér á staðnum.“

Í framhaldi af ályktun þessari vill fundurinn benda á, að kvenfélagið hefur nú á þessu ári keypt gegnumlýsingartæki og sjúkrakörfur, sem það hefur ákveðið að gefa væntanlegu læknishéraði hér. En tæki þessi yrðu að mestu ónotuð, ef hér væri ekki læknir búsettur.“

Frv. var samþ. einróma við 3. umr. í Nd. Nál. á þskj. 561 mælir eindregið með því, að frv. nái samþykki. Að aflokinni þessari umr. óska ég eftir venju, að því verði vísað til 3. umr.