04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það er sannast mála, að sá skattur, sem hér er um að ræða, hefur aldrei átt neinni hylli að fagna á hv. Alþ., þó að hann hafi verið misjafnlega mikið fordæmdur. Margt bendir til þess, að æskilegt væri, úr því að honum þarf enn að viðhalda, að unnt væri að stiga spor í þá átt, sem brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 238 marka, og er í rauninni ákaflega erfitt fyrir fulltrúa hér á Alþ., sem eru fyrir sveitar- eða bæjarfélög, sem erfitt eiga orðið uppdráttar undir oki dýrtíðarinnar og annars, sem að steðjar, að þurfa að ganga á móti till. slíkum sem þessum í sambandi við framlengingu laganna um söluskattinn. Það er mjög erfitt vegna þess, að það bólar ekki á neinum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að létta byrði sveitarfélaganna, heldur þvert á móti. En um leið er aðkallandi þörf ríkissjóðsins um það, að honum sé séð fyrir sómasamlegum tekjum til þess að geta staðið við þær skuldbindingar, sem Alþ. leggur fjármálastjórninni á herðar að bera. Það hefur verið misjafnlega vel að þessu gætt á undanförnum árum, og ég skal sízt lasta það, að að þeim hlutum sé búið eins traustlega og unnt er af hálfu Alþ., því að ég hef séð þá tíma og upplifað þá, að Alþ. hefur brugðið nokkuð frá þessari skyldu sinni, og ég óska engum þess, sem við þessi mál fæst, að hann þurfi að standa í slíkum sporum.

Söluskatturinn var eitt af þeim úrræðum, sem varð að gripa til á árinu 1948, þegar l. eru sett í sambandi við dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, og var hann valinn ásamt öðru, eftir að miklum tíma var búið að eyða í alls konar bollaleggingar og sérfræðingasamanburð á leiðum til þess að firra þjóðina sem lengst afleiðingum verðbólgunnar og dýrtíðarinnar þar af leiðandi, því að það þótti þá og — geri ég ráð fyrir — þykir enn muna mestu, að unnt sé að halda atvinnulífinu nokkurn veginn í lagi og sporna við því, að atvinnuvegirnir og þá sérstaklega framleiðslustarfið í landinu þurfi að stöðvast sökum óviðráðanlegrar dýrtíðar. Ég var þá fjmrh., og um ríkisstj. var samstarf þriggja flokka. Ég gerði það með engri ánægju að vera með í að flytja það mál hér á þingi að leggja þennan skatt á, en hitt var þá eins og nú nauðsyn, að afla ríkissjóði tekna til þess að standa undir skuldbindingum sínum eins og ávallt hefur verið. Hæstv. núverandi fjmrh. átti þá sæti í ríkisstj. og lét þá svo um mælt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég vil taka það fram, að þeir, sem að ríkisstj. standa, hafa auðvitað ekki verið á einu máli um samningu þessa frv., og það er vitanlega ekki að efni til eins og það hefði orðið, ef hver flokkur um sig hefði einn haft aðstöðu til að móta það. Framsfl. fyrir sitt leyti hefði álitið, að skynsamlegra hefði verið að stíga spor í verðhjöðnunarátt, en þar sem ekki fékkst samkomulag um slíkt, er ekki um annað að ræða en að halda áfram á bráðabirgðabrautinni og afla tekna til þess að halda áfram niðurgreiðslunum og ábyrgðarverðinu.“

Þetta mælti hæstv. núverandi fjmrh. þá, og vil ég að öðru leyti geta þess, að hann fylgdi fram persónulega þessu máli ásamt öðrum þeim, sem ábyrgð báru á ríkisstj., þrátt fyrir það að hann teldi, að hann væri ekki að fullu leyti samþykkur þessari leið. Ég fyrir mitt leyti lýsti því yfir þá strax, að ég teldi þetta bráðabirgðaleið til þess að reyna að hamla upp á móti erfiðleikunum. Það var alla stjórnartið stjórnar Stefáns Jóhanns reynt að spyrna við afleiðingum dýrtíðarinnar eftir mætti, þótt það tækist ekki nema að litlu leyti, — það skal viðurkennt. Það tókst þó svo, að engin stöðnun varð neins staðar á atvinnuvegunum á þessu tímabili af þeim ástæðum, að ekki væri hægt að halda sæmilega arðberandi atvinnurekstri áfram. Þeir, sem áttu hér þá sæti, minnast þess, að þetta kom oft til umræðu, og jafnvel af þeim, sem ekki var nú sérstaklega annt um ráðuneyti Stefáns Jóhanns, var það viðurkennt. T.d. man ég, að í þingræðu hjá hv. 1. þm. N-M. á þessu tímabili segir, að stjórninni hafi ekki tekizt að ráða að öllu við dýrtíðina, þó að það hafi verið stefna hennar, en þó hafi hún getað seinkað fyrir því versta, sem af dýrtíðinni leiddi, — eða eitthvað á þá leið voru þau ummæli hans.

En yfirleitt var það ekki nein einróma rödd, þegar hæstv. núverandi fjmrh. taldi á þessu tímabili, að verðhjöðnunarleiðin væri eiginlega að dómi Framsfl. heppilegasta leiðin til þess að ráða við dýrtíðardrauginn. Það gengur nokkuð eins og rauður þráður í gegnum þær ræður, sem flokksbræður hans fluttu á þinginu, svipað álit, þ. á m. hv. þm. Str., sem á ýmsan hátt talaði um þetta alllangt mál. Hann virðist frekar vera á þeirri skoðun, en viðurkennir þó, að það sé ekki fært að ná samkomulagi um þetta. Þær leiðir, sem um var þá rætt og uppi voru til úrbóta á þessu geysilega vandamáli þjóðarinnar, sem búið er að vera alla tíð síðan um síðasta ófrið eða lok hans, eru taldar upp hér í umr. um þetta mál á Alþ. þá af hv. þm. Barð., sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta, í umr. um þetta mál:

„Ég er sammála þeim hluta ríkisstj., sem ekki vildi fallast á, að tekið verði upp svonefnt tvöfalt gengi. Það atriði eða sú leið var gaumgæfilega athuguð, er málið var rætt í fjhn. Nd., og var talin leiða út í hreina ófæru. Það mundi hafa leitt af sér mjög fljótlega algera gengisbreytingu og þá eðlilegra að fara hreinlega þá leið nú þegar.“

Þá lýsir hann leiðum, sem ræddar hafi verið. Í fyrsta lagi verðstöðnun, og segir um hana: „Hún hefur ekki tekizt og mun vart takast, nema gerðar verði sérstakar ráðstafanir fram yfir það, sem hér er gert í þessu frv.“ Annað er verðhjöðnun. Um hana segir hann: „Sú aðferð mundi hafa í för með sér svo stórkostlegt fjárhagslegt hrun, að allt fjármálakerfi þjóðarinnar mundi fara úr skorðum, svo framarlega sem verðhjöðnunin yrði það mikil, að hún ein dygði til þess, að atvinnuvegirnir gætu stuðningslaust staðið undir kostnaðinum.“ Þriðja leiðin er svo gengisfall. „Ríkisstjórnin og þjóðin“, segir hv. þm. Barð., „kallar yfir sig gengisfall, ef ekki verður snúið við á þessari braut, sem farin hefur verið undanfarið. Þegar dýrtíðarlögin voru til umræðu 1946“, bætir hann við, „benti ég á, að ríkissjóður hefði enga aðra möguleika en gengisfall til þess að komast hjá að greiða ábyrgðarverðið, ef varan seldist ekki á því verði. Enn þá hefur verið farin sú leið að taka mismuninn af þjóðinni í sköttum, en þessi leið er nú að lokast, og stendur þá gengisfallið fyrir dyrum, ef ekkert er aðhafzt, enda flýtir það hröðum skrefum fyrir því að lögfesta tvenns konar gengi í landinu, eins og ætlazt er til með þessu frv.“

Það kemur sem sé glöggt fram í þessum ræðum, að menn höfðu það á tilfinningunni, eins og raunar hæstv. þáverandi menntmrh. lýsti hreinlega yfir, að frv. eða tekjuöflunin væri til þess, þar sem um annað hefði ekki orðið samkomulag, að halda áfram á bráðabirgðabrautinni og afla tekna til þess að halda áfram niðurgreiðslum og ábyrgðarverði á fiski. Um niðurgreiðslurnar vitum við. að það eru niðurgreiðslur á margs konar afurðum, sérstaklega landbúnaðarafurðum, og svo þetta ábyrgðarverð, sem tekið var í l. á árinu 1946 og einhverja leið varð að finna til þess að mæta, enda var þetta gert og menn fengu á þessum tíma sitt ábyrgðarverð, eins og samningar stóðu til, útborgað. Ég drep á þetta aðeins til þess að sýna fram á, að það er sannleikur, sem sagt hefur verið, að söluskatturinn er lagður á í upphafi vega sinna til þess að geta haldið áfram niðurgreiðslunum til að mæta dýrtíðinni að einhverju leyti og til þess að standa við ábyrgðarverðið.

Ræða hv. þm. Str. á þessum tíma er í rauninni ákaflega mikilsverðar athugasemdir og bollaleggingar um það ástand, sem ríkti og ríkir raunar enn, og líka um það, hvað þingið hafi í sjálfu sér ekki gert til þess að vinna bug á dýrtíðinni. Hann segir berum orðum, að á Íslandi sé farið allt öðruvísi að en í öðrum löndum, því að þar sé unnið að þessum málum á þann veg að lækka dýrtíðina, en hér séu önnur vinnubrögð viðhöfð, og það ber að því, sem ég lýsti áðan og kom fram í ræðu hæstv. þáverandi menntmrh., að Framsfl. áleit, að verðhjöðnunin væri leiðin.

Nú hefur margt skeð á þessu tímabili og mikið vatn runnið til sjávar, síðan þessi l. voru sett, og m.a. hefur það skeð, að margur getur í dag sagt, að „það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann“. En verðhjöðnunarleiðinni, sem Framsfl. taldi æskilegustu leiðina 1948, veit ég ekki til að neinn flokkur sérstaklega, ekki heldur Framsfl., hafi á þessum árum, hvorki undir forsæti fyrrv. hæstv. forsrh. né í núverandi ráðuneyti, barizt fyrir eða berjist fyrir, svo að sjáanlegt sé þann dag í dag, að sú leið verði farin. Það vill oft vera svo í stjórnmálum, og þeir standa kannske mest undir því áfalli, sem lengst eru búnir að vera á þingi, að eftir því sem tímarnir líða, þá kemur það fyrir okkur, að við verðum að endurskoða okkar fyrri afstöðu, og það er bezt bæði fyrir mig og aðra að taka sem minnst upp í sig af fullyrðingum um það, hvernig hægt sé að ráða við ástandið. Það var þá fundið að því af þeim, sem voru andstæðingar stjórnarinnar, að hún væri ekki með heildarráðstafanir, heldur væri hún með bráðabirgðaleiðir og það yrði ekki til halds eða langframa.

Hv. þm. Barð. sagði þá, að það að hafa tvöfalt gengi væri auðvitað leið, sem færi algerlega út í ófæru. Ég veit nú ekki betur en að það megi segja bæði um mig og fjölda af mínum flokksbræðrum, þ. á m. hann núna, að við höfum léð því máli lið í þinginu, að það væri nokkurs konar tvöfalt gengi á vissum hluta verðmætis útflutningsafurðanna. Með bátagjaldeyrinum má segja, að á vissu sviði og því hreint ekki litlu sé nokkurs konar tvöfalt gengi á ferðinni.

Það hefur sem sagt komið fyrir, síðan þetta var, að genginu hefur verið breytt til þess að losna við byrðar ríkissjóðs af ábyrgðargreiðslunum, og þeir, sem eins og hv. þm. Str. töldu söluskattinn óhollan vegna þess, að hann eyddi verðmæti sparifjárins í landinu, eins og kemur fram í ræðu hans um þetta leyti, geta þá horft á sjálfa sig hafa átt þátt í eins og hann að lögfesta breytt og fallið gengi á peningunum, og varla er hægt að segja, að það hafi hækkað verðmæti sparifjárinneigna, því að a.m.k. hefur Alþ. séð sig tilknúið að gera lítils háttar yfirbót gagnvart vissum hluta sparifjáreigendanna í landinu, og rekum við okkur þar enn á hið sama, að það, sem er fullyrt í dag, er samþykkt á morgun og látið gott heita.

Við gengisfallið breyttist náttúrlega aðstaða ríkissjóðsins ákaflega mikið, þar sem aukinn krónufjöldi gerði það að verkum, að tekjur ríkissjóðs þutu óðfluga upp, og er það út af fyrir sig góðu heilli, að hann gat þar rétt sinn hlut. Svo hefur og fleira til komið, að innflutningurinn vegna bátagjaldeyrisins jókst og tolltekjur ríkisins hafa margfaldazt af þeim orsökum, að ógleymdum þeim stuðningi við hið opinbera, sem Marshallféð í hvorum tveggja myndum sínum, bæði framlagsmyndinni og lánamyndinni, hefur veitt þjóðinni eða réttara sagt hefur veitt ríkissjóði í þessu falli til að styrkja hans gjaldgetu. Má þar á það minna, að ríkissjóði munu hafa fallið til um 50 millj. kr. í aðflutningsgjöld ýmiss konar á þeim varningi til stóriðjunnar, sem hefur verið keyptur fyrir Marshallfé.

Allan þennan tíma, með þessum stórkostlegu breytingum á ástandinu, niðurskurði krónunnar, margföldun tollteknanna, stórauknum innflutningi vegna bátagjaldeyris og Marshallgjöfum og Marshalllánum, hef ég ekki séð votta fyrir því, að Framsfl. hafi reynt sína uppáhaldsleið, sem hann taldi 1947 til að vinna bug á dýrtiðinni, verðhjöðnunina. Ég held þvert á móti, að það geti flestir verið sammála um það, því miður, að dýrtíðin er enn þá óyfirbuguð í þessu landi. Við reynum enn þá eftir mætti að greiða niður nauðsynlegustu neyzluvörur til fólksins til þess að berjast á móti dýrtíðinni á svipaðan hátt og gert var í stjórnartíð þeirra manna, sem með völdin fóru, þegar söluskatturinn var innleiddur. Það er ekki bara á einum stað, það er á svo mörgum stöðum, og sannast oft hér á Alþ., að menn geta komizt í þá aðstöðu að verða að ganga ofan í skoðanir þær, sem þeir á vissum tíma álitu góðar og gildar, og ganga jafnvel beint á móti þeim. Það er eins og sagt var hér í pólitískri baráttu fyrir eina tíð og átti við sérstaka viðureign manna norður í Þingeyjarsýslunni annarri hvorri, að það, sem væri góð og gild vara niðri á Vopnafirði, gæti verið orðið forskemmt og óseljanlegt, þegar upp fyrir Smjörvatnsheiði kæmi. Verðhjöðnunin virtist vera bezta vara í augum Framsfl. 1947, en nú er þing eftir þing einmitt söluskatturinn, hin óvinsæla leið, látinn vera einn tekjumesti liður fjárl. Ég sé á fjárlfrv., að söluskatturinn er af fjmrh., eins og hann lagði það fyrir, áætlaður að gefa rösklega 91 millj. kr., og má þá ætla, að þar sé frekar van í lagt heldur en of í lagt.

Við stöndum í þessu máli og raunar í mörgum fleirum, að því er snertir viðureignina við dýrtíðina og verðbólguna í landinu, oft og tíðum í þeim sporum, að steinninn, sem byggingarmeistararnir á sínum tíma forsmáðu, er svo þegar þar að kemur notaður í hyrningarstein, og söluskatturinn er orðinn einn af hyrningarsteinum fjármálakerfisins undir fjármálastjórn Framsfl., sem áleit og lýsti yfir því á þingi 1948, að verðhjöðnunarleiðin væri betri leið og réttari í þessum málum heldur en innleiðsla söluskattsins.

Nú vildi ég aðeins drepa á þetta og skal ekki þreyta um það lengri ræðu. Ég veit það og viðurkenni, að það er þörf fyrir þessar tekjur núna, það er þörf fyrir þær á fleirum en einum stað í landinu. Það væri sannarlega þörf fyrir það hjá bæjarfélögunum að fá 1/4 af þessum tekjum í sína sjóði, og að því leyti til er hv. 4. þm. Reykv. með sanngjarna till. Annað verður ekki sagt. Hitt er svo annað mál, að þeir, sem styðja núverandi stjórn og vilja standa að því saman með flokk hæstv. fjmrh. að afgreiða forsvaranleg fjárl. á þessu þingi, geta ekki sóma sins vegna hlaupizt frá því og tekið stóran hluta af áætluðum tekjustofni svona í miðjum kliðum og sent til sveitarfélaganna í stað ríkissjóðs. Og þess vegna treysti ég mér ekki til að fylgja till. hv. 4. þm. Reykv., þótt hvort tveggja sé, að ég telji þær eftir atvikum sanngjarnar í eðli sínu og ég viti, að sveitarfélögin og bæjarfélögin og ekki hvað sízt mitt bæjarfélag, Vestmannaeyjar, hefðu þess stóra þörf, að einhver tekjustofn af þessu tagi væri lagður til þarfa bæjarfélagsins. En jafnilla og það gengur hér á Alþ. að glíma við þá eiginlegu meinsemd, dýrtíðina og verðbólguna, sem ég sé ekki, að við séum eiginlega nokkru nær í baráttunni við þann dag í dag heldur en um það bil, sem söluskatturinn var fyrst innleiddur, þó að við höfum orðið að leggja tvo afar þungbæra skatta á þjóðina, þar sem er gengisfellingin og bátagjaldeyririnn, þá virðumst við ekki vera nær því takmarki heldur en þá að ráða niðurlögum verðbólgu eða dýrtíðar. Og það er annað, að þingið, og ekki einasta þingið, heldur þau stjórnarvöld, sem setið hafa, hafa ekki haft tóm til þess. Það var náttúrlega ekki von, að stjórn Stefáns Jóhanns hefði það, því að hún átti fullt í fangi, undir því ástandi, sem þá var, að reyna, elns og hv. 1. þm. N-M. viðurkenndi, að seinka fyrir fallinu niður í fenið, sem hann orðaði svo. En þau ráðuneyti, sem setið hafa síðan, hafa, að því er ég veit bezt um, ekki séð bæjarfélögunum fyrir neinum tekjustofnum, og ég veit ekki, hvort hægt er að segja, að það hafi verið gerð tilraun til þess af ráðandi mönnum í landinu. Ég vil þó ekki taka fyrir, að það eigi að felast í störfum mþn. í skattamálum á sínum tíma að gera það, en ljóst er, að af henni verður a.m.k. ekki allt heimtað í einu. Hún er núna, eins og vitað er, að glíma við að framkvæma yfirlýst loforð núverandi ríkisstj. um lækkun á tekju- og eignarskatti, og a.m.k. meðan hún er að því, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að hún afgreiði tekjustofna fyrir bæjarfélögin mjög bráðlega. En Alþ. sem heild þarf nauðsynlega undir forustu ríkisstj. að reyna meira á sig í því að leysa vandræði sveitarfélaganna á þessu sviði, fjármálasviðinu, heldur en gert hefur verið. Ég er hér ekki með ásakanir í garð neins sérstaks manns eða sérstaks stjórnmálaflokks, en ég bendi bara á það, að þetta málefni er óleyst. Það er jafnvel ekki farið að gera tilraun til að leysa það, en skyldan til að veita sveitarfélögunum aðstoð í þessu skyni hvílir fyrst og fremst á Alþ., sem ákveður árlega, hvað há gjöld skuli goldin í ríkissjóðinn, og að öðru leyti ber ábyrgð á allri löggjöf, sem snertir bæjarfélög jafnt og ríkið sjálft.