11.03.1954
Neðri deild: 60. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

121. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Með lögum, sem sett voru 1944, voru tvö læknishéruð á Fljótsdalshéraði sameinuð í eitt, en það var gert með því skilyrði, að aðstoðarlæknir yrði þar til staðar og gegndi störfum á þessu svæði jafnframt héraðslækninum. Ýmsir, sem búsetu eiga í þessum landshluta, voru þegar í stað óánægðir með þessa breytingu og bentu á það, að aukalæknirinn eða aðstoðarlæknirinn mundi ekki starfa þarna að staðaldri, þar sem um sífelld mannaskipti yrði að ræða. Þetta hefur orðið svo í reyndinni, að suma tíma árs hefur aðstoðarlæknir ekki verið til staðar á Egilsstöðum og þar af leiðandi aðeins einn læknir, sem hefur verið þar til læknisstarfa á mjög stóru svæði. Út af þessu hafa fundir oddvita í Múlasýslum gert áskoranir um það, að á þessu yrði ráðin bót á þann hátt, að læknishéraðinu yrði skipt, eins og lagt er til í frv. því, sem hér liggur fyrir.

Heilbr.- og félmn. hefur fjallað um þetta frv., og meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. með lítils háttar breyt. við 4. gr. frv., sem er eðlileg og sjálfsögð vegna þess, hve lengi hefur dregizt að afgr. þetta frv. hér á þingi. En minni hl. n. hefur skilað sérstöku áliti og leggur til, að málið verði afgr. með rökst. dagskrá, eins og prentað er á þskj. 435.