04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Það er af því að ég hef mikla tilhneigingu til þess að vera með tillögunum á þskj. 228, að ég vil gera grein fyrir því, hvers vegna ég kem þó til með að greiða atkv. móti þeim.

Það hefur verið skipuð mþn. í skattamálum, sem á, þegar við komum saman eftir áramótin, að skila frv. um ný tekjuskattslög eða breytingar á núgildandi tekjuskatts- og eignarskattslögum, breytingar á núverandi útsvarslögum og væntanlega breytingar yfirleitt á fjárhagsmálum ríkisins, og þegar þetta liggur fyrir, þá vil ég ekki vera að gripa fram fyrir hendurnar á n. og fara núna að ákveða, að viss hluti af einum gjaldstofni ríkisins skuli renna til sveitarfélaganna. Ég vil bíða og sjá, að hvaða niðurstöðu nefnd, sem búin er að starfa tvö ár, kemst, áður en ég fer að greiða atkv. um þessar till. Þess vegna kem ég til með að vera á móti þessum till., enda þótt ég sé í andanum með þeim og vel geti verið, ef það kæmi frá n. á sínum tíma eitthvað svipað, að þá yrði ég alveg með því. En þegar maður er búinn að láta n. sitja tvö ár til að finna lausn út úr vandamálum og þetta er eitt þeirra, þá finnst mér ekki ná neinni átt að fara að rjúka til og afgreiða það nokkrum dögum eða mánuðum áður en maður býst við að sjá, hvað frá n. kemur. Ég bíð þess vegna rólegur eftir að sjá, hvað kemur frá n., og mun greiða atkvæði á móti þessum till., enda þótt ég annars sé í anda mínum með þeim.