02.04.1954
Efri deild: 76. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

121. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 565, hefur minni hl. í heilbr.- og félmn. ekki getað fallizt á að leggja til, að frv. það, sem hér um ræðir, verði samþ. á þessu þingi. Mál þetta hefur tvívegis áður legið fyrir Alþ. og þessi hv. d. hefur í bæði skiptin vísað því frá með fullum rökum, vegna þess að meiri hl. hennar hefur ekki talið, að læknisþjónustunni væri betur fyrir komið í þessu héraði, þó að þessi háttur yrði tekinn upp, sem hér um ræðir og hér er gert ráð fyrir. Málið hefur margsinnis verið borið undir landlækni, sem einnig hefur verið þessarar skoðunar, og er skoðun hans á því máli óbreytt enn í dag.

Eins og nú er skipað málum í héraðinu, situr þar héraðslæknir, sem er kominn að aldurstakmarki eða a. m. k. vitað er að muni láta af störfum á yfirstandandi ári, og það er m. a. vegna þess, að héraðið hefur ekki talið, að það fengi nægilega örugga læknisþjónustu á meðan sá læknir sæti í héraði, að sótt hefur verið um það undanfarin ár að skipta héraðinu í tvennt, eins og farið er fram á einnig í þessu frv. Nú er það vitað, eins og ég sagði áðan, að þessi ágæti maður mun sækja um lausn frá embætti á þessu ári, og þá standa vonir til þess, að Egilsstaðahérað geti valið um hina ágætustu lækna, ef héraðinu er ekki skipt og haldið er áfram sama hætti og verið hefur hingað til, að hafa einn héraðslækni í héraðinu og þess utan aðstoðarlækni til þess að vinna með honum, bæði að heilbrigðismálunum í sambandi við sjúkrahúsið eða sjúkraskýlið, sem þar er rekið, og í sambandi við læknisferðir um héraðið, eftir því sem á þarf að halda. Þetta eru ein rökin fyrir því, að við í minni hl. teljum, að það beri ekki að samþ. frv. eins og það liggur fyrir. Við teljum, að það sé bjarnargreiði við sjálfa héraðsbúa að verða við þessum óskum, sem af öðrum ástæðum hafa verið knúðar fram en ég hér hef rætt um.

En þó að litið sé frá þessu meginatriði frv., kemur og fleira til greina. Nú hefur verið byggður á Egilsstöðum læknisbústaður, sem kostaði upp undir 1 millj. kr., eftir því sem mér hefur verið tjáð, og í þeim læknisbústað eru 2 íbúðir, önnur fyrir héraðslækninn, hin fyrir aðstoðarlækninn. Þessar íbúðir eru ekki jafnar að stærð eða að gæðum og það hefur verið eitt ágreiningsatriðið, eða hefur verið notað sem ágreiningsatriði í þessu máli, að ekki sé hægt að bjóða aðstoðarlækninum jafngóða íbúð og héraðslækninum sjálfum. Það er því alveg sýnilegt, að ef þetta frv. er samþ., þá er næsta sporið að byggja nýjan læknisbústað fyrir hinn nýja lækni einnig á Egilsstöðum, og það kostar ríkið a. m. k. 600 þús. kr. Þetta eru útgjöld, sem minni hl. telur að hægt sé að komast hjá og það sé engin nauðsyn á því að baka ríkissjóði þessi útgjöld og það á þeim tímum, sem vitað er að ýmis héruð geta ekki fengið nægilegt fé til að byggja sína læknisbústaði eða til þess að verja til sjúkrahúsbygginga. Það segir sig sjálft, að eftir að þessi lög eru staðfest, verður ekki undir neinum kringumstæðum látið hjá líða frá viðkomandi aðilum að gera kröfu um þessar framkvæmdir, sem ég þegar hef lýst.

Þriðja ástæða fyrir því, að minni hl. vill ekki samþ. þetta frv., er einmitt sú ástæða, sem hv. frsm. meiri hl. færði fyrir því, að ekki ætti að samþ. þær brtt., sem bornar eru fram á þskj. 552. Hann sagði, að sér fyndist, að það væri ekkert aðkallandi mál að stofna þetta embætti þar nú, m. a. vegna þess, að nú lægi fyrir frv. um heildarskipun þessara mála, og þó að ekki standi vonir til þess, að það ef til vill nái fram að ganga á þessu þingi, þá sé full vissa fyrir því, eins og hv. frsm. tók fram, að hæstv. ríkisstjórn leggi fram stjfrv. á næsta Alþ., sem hún þá tryggir fullan framgang á því þingi, og þar verði teknar upp þær reglur í heilbrigðismálunum, sem gilda skulu a. m. k. einhvern óákveðinn tíma. Af þessum sömu ástæðum tel ég enga nauðsyn bera til að hlaupa nú til þess að stofna hér nýtt læknishérað, með þeim kostnaði og þeim erfiðleikum, sem ég þegar hef tekið fram hér í minni ræðu.

Það mætti vel segja, að það nákvæmlega sama gilti um það frv., sem var samþ. hér til 3. umr. fyrr á þessum fundi í sambandi við stofnun nýs læknishéraðs á Skagaströnd. Því hefur verið vikið frá hér í þessari hv. d. undanfarin tvö ár með nákvæmlega sömu rökum. En eina ástæðan fyrir því, að það mál hefur verið samþ. til 3. umr., er sú, að landlæknir hefur talið það sjálfsagt og óhjákvæmilegt að gera þá skipun í því héraði, alveg gagnstætt því, sem hann álítur um það hérað, sem hér um ræðir, og að einmitt sú skipun er tekin upp í því frv., sem lagt hefur verið fram til umr. í læknaskipunarmálunum og á að vera heildaruppistaðan í frv. ríkisstj. á næsta þingi.

Ég vil leyfa mér einnig að benda á, að jafnvel þótt það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 454, verði samþ., tel ég þó, að það verði að breyta eða fella niður 2. gr. frv. Hér er nú gengið inn á alveg nýja braut, þ. e. að fyrirskipa með lögum, að læknishéruð skuli starfrækja sjúkrahús, en mér er ekki kunnugt um, að það hafi verið gert áður. Mér er kunnugt um, að ríkissjóður hefur lagt til sjúkrahúsa ákveðin hlutföll af byggingarkostnaði. Sums staðar er það 75%, annars staðar aðeins 40%, en mér er ekki kunnugt um, að það hafi nokkru sinni fyrr verið fyrirskipað, að ákveðin læknishéruð skuli starfrækja sjúkrahús, eins og gert er hér í þessu frv. Hér er beinlínis fyrirskipað, að bæði læknishéruðin skuli starfrækja sjúkrahús á Egilsstöðum. Í þessu sambandi vil ég leyfa mér að spyrja, hver á að bera þann kostnað, ef læknishéruðin, þessi tvö sem hér um ræðir, komast í greiðsluþrot og geta ekki staðið undir þeim kostnaði. Er þá ætlazt til þess, að ríkissjóður taki á sig þann kostnað? Og ef það er meiningin með þessari lagasetningu hér, þá er ég alveg andvígur þeirri stefnu, því að það drægi að sjálfsögðu ýmsa aðra dilka á eftir sér. Auk þess er mjög vafasamt, hvort héraðið sjálft mundi ekki skapa sér hér mjög mikla ábyrgð gagnvart sjúklingum, ef það léti niður falla rekstur sjúkrahússins á einhverju tímabili eftir að þessi lagasetning væri gerð, jafnvel þótt það væri ekki nema um stundarsakir og viðkomandi sjúklingur yrði þá að leita til annarra staða á eftir.

Þá vil ég einnig benda á í sambandi við það, sem hér er sagt einnig í þessari gr., að sá læknir, sem á hverjum tíma hafi verið lengur starfandi héraðslæknir á Egilsstöðum, skuli vera þar yfirlæknir við sjúkrahúsið. Sér ekki hv. meiri hl. þá hættu, sem gæti legið í þessu? Ef sá maður vildi beita því valdi að ýta í burtu hinum lækninum, þá gæti samstarfið orðið þannig, að þar vildu ekki margir læknar vera, og þá hefur sá læknirinn, sem eftir situr, fjárhagslegan gróða af því að sitja þar einn, hafa ýtt hinum í burtu og taka sjálfur hálf önnur laun í héraðinu samkvæmt gildandi l., svo að ég hygg, að það sé ýmislegt fleira, sem kemur hér til greina, heldur en það eitt að skipta læknishéraðinu, eins og ætlazt er til að gert sé með þessum lögum. Og það væri sannarlegur bjarnargreiði fyrir héraðið, ef það skyldi svo verða ofan á, að viðkomandi læknir notaði sér þetta til launahækkunar í héraðinu.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að benda á, að mjög vafasamt er, að 4. gr. frv. geti verið svo sem hér segir, og gildir það raunverulega alveg eins og um 4. gr. í því frv., sem var vísað hér til 3. umr. fyrr á þessum fundi. Ég tel, að það sé ákaflega óheppilegt, að læknishéraði sé skipt þann dag, sem lög þessi öðlast gildi, kannske í miðjum mánuði eða á fyrsta degi mánaðarins, og að það sé sjálfsagt að binda þetta a. m. k. við áramót. Ég tel það vera mjög óheppilegt allra hluta vegna, að nokkur annar tími sé valinn en áramót til skiptingar á læknishéraði. Kemur þar ýmislegt til greina. En ef nú á að draga það til loka þessa árs, að lög þessi öðlist gildi, sem er vitanlega alveg sjálfsagður hlutur, þá verð ég nú að segja, að það fer að verða mjótt á mununum, hvort þessi löggjöf er samþ. hér á þessu þingi eða hvort beðið er eftir því, að heildarlöggjöfin komi í þingbyrjun, enda þá líklegt, að búið verði að samþ. hana fyrir áramótin næstkomandi.

Þetta vildi ég að kæmi fram hér við þessa umr. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð lengri, en með tilvísun til þess, sem ég hef sagt, leggur minni hl. til, að frv. verði fellt.