04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Hér virðast nú ætla að verða meiri umræður en ég bjóst við í fyrstu við þessa umræðu, en ekkert er við því að segja.

Hv. þm. Vestm. hélt hér alllanga ræðu, og virtist aðaltilgangur hennar vera sá að gefa eins konar sögulegt yfirlit yfir dýrtíðarmál og fjárhagsmál hinna síðustu ára. Hann gat þess, sem öllum eldri mönnum er kunnugt, að margir verði fyrir því að verða að endurskoða sína fyrri afstöðu, hvað hann taldi sig og verða að gera, og það er nú vel, að svo er. Ef menn væru svo einstrengingslegir, að þeir gætu aldrei sætt sig við breytta afstöðu, hvernig sem tímarnir breytast, þá mundi ekki fara vel. Það var einn ágætur maður, sem ég þekkti í æsku, mjög virðulegur maður, borgari í bæ, — hann átti tún og á því hey, og það átti að fara að binda heyið, og hann sagði við þann, sem átti að binda heyið fyrir hann: „Ja, bólstrarnir eru sjö á túninu.“ Hinn sagði, að þeir væru nú ekki nema sex. Eigandinn sagði: „Þeir voru sjö í fyrra, og þeir hljóta að vera sjö.“ „Teljið þér þá bólstrana,“ sagði hinn. Og þessi ágæti maður fór að telja bólstrana og telur þá alla: 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, og benti þá á þann fyrsta. Það er vitanlega ekki gott að binda sig svo fast við fyrri skoðanir eða það, sem var í fyrra, að á því geti engin breyting orðið. Og af því að mér fannst nú kenna þess í ræðu hv. þm. Vestm., að hann vildi helzt beina því til Framsfl., að hann hefði breytt um afstöðu í ýmsum þessum málum, þá vil ég nú minna á, þar sem Sjálfstfl. hefur oft talið það úrræðið í öllum þessum málum að viðhafa sparnað, sparnað á ríkisfé og viðar, hvort það hefði orðið öllu meira úr sparnaðarstefnu Sjálfstfl. heldur en verðhjöðnunarstefnu Framsfl., sem ég kannast nú ekki beinlínis við að nokkurn tíma hafi verið stefna Framsfl., hvað sem einstökum ræðum líður. Hitt kannast ég við, að Framsfl. hefur á ýmsum tímum reynt að beita sér, stundum einn út af fyrir sig og stundum í samvinnu við aðra flokka og þá aðallega Sjálfstfl., fyrir því, að reynt væri að spyrna við fótum og festa verðlagið þannig, að ekki væri sífellt aukin dýrtíð. Í því sambandi minnist ég frumvarps, sem þáverandi fjmrh., Eysteinn Jónsson, flutti á aukaþingi 1941, og einnig gerðardómsins svo kallaða, sem bæði Sjálfstfl. og Framsfl. stóðu að, og fleiri ráðstafana, sem reyndar hafa verið til þess að festa verðlagið. En þetta hefur mistekizt, og úrræðið varð svo gengisfall. Og það, að enn þá er þörf á söluskatti og enn þá er þörf á ýmsum ráðstöfunum, bátagjaldeyri, niðurgreiðslum o.fl., sem menn bjuggust við að tækju enda með gengisbreytingunni, er að mínu áliti sökum þess, að ekki hefur verið hægt að framfylgja gengislögunum eins og þau voru, en til þess liggja tvær ástæður. Önnur er verðfall í útlöndum á afurðum okkar, sem kom rétt eftir gengisfellinguna, og hin er, eins og við vitum, að hér er ríki í ríkinu, það eru kannske mörg ríki í ríkinu, en hér er einkum eitt ríki í ríkinu, sem er það voldugt, að það gerir að engu og hefur gert að engu ýmsar ráðstafanir ríkisvaldsins. Þetta ríki í ríkinu hugsar sér að rétta við hlut hins fátækari hluta þjóðarinnar með sínum aðgerðum, en guð má vita, hvort það verður ekki á endanum öfugt, ef öllu er siglt hreint og beint í strand. Það er kröfupólitíkin, sem búin er að grafa um sig í öllu þjóðlífinu, sem er orsök þessa, kröfupólitík, sem menn svigna undan, ríkisstjórnir ýmsar og Alþingi. Ef svo fer fram, að alltaf er látið undan hvers konar kröfum, sem fram eru bornar til Alþ. og ríkisstj., þá skal ég játa, að ég er ekki bjartsýnn á framtíðina, ef menn læra aldrei að spyrna fótum við og láta hart mæta hörðu, ef illa fer. Og uppfylling krafanna verður fyrirsjáanlega til þess, að annaðhvort fara þær með fjárhag ríkis og þjóðar ellegar þá að ríkið er neytt til að afla fjár eftir miður heppilegum leiðum til þess að standa enn um stund, án þess að allt fari í öngþveiti.

Hv. þm. Vestm. talaði allmikið um stjórn Stefáns Jóh. Stefánssonar og taldi hana hafa orðið fyrir ósanngjörnum dómum og það væri að ýmsu leyti gert það sama og hún hefði gert. Ég get tekið undir sumt af þessu. Ég var stuðningsmaður þessarar stjórnar, eins og ég er stuðningsmaður núverandi stjórnar og þeirrar, sem var næst áður, og viðurkenni það fúslega, að í ýmsum efnum var sú stjórn of hart dæmd. Það má segja, að hún fann ekki nein sérstök úrræði önnur en þau að leggja á skatta og tolla og reyna svo að borga niður og halda þannig á floti. Næsta eða næstnæsta stjórn, sem á eftir henni kom, gekkst fyrir því, að samþykkt voru gengislögin, sem óneitanlega réttu við atvinnulíf þjóðarinnar, a.m.k. til sjávarins, í bili, þó að það dygði ekki til langframa af þeim ástæðum, sem ég nefndi áðan.

Hv. þm. Vestm. var að tala um það, að tekjurnar hefðu sífellt aukizt, bæði vegna aukins innflutnings og af öðrum ástæðum. Þetta er rétt. Tekjurnar hafa sífellt aukizt í krónutali, en kröfurnar til ríkissjóðs og útgjöldin hafa einnig sífellt aukizt og ekki hvað sízt frá hendi þeirra manna, sem nú standa gegn því, að þessi tekjustofn ríkissjóðs verði framlengdur. Ef látið er undan kröfum um aukin útgjöld, þá verður einnig að krefjast nýrra tekna. Öðruvísi er ekki hægt að reka ríkið.

Hv. þm. Vestm. minntist á það, að bæjarfélögum og þá auðvitað sveitarfélögum einnig hefði ekki verið séð fyrir neinum tekjum af ríkisvaldinu. Að sjálfsögðu hafa sveitarfélögin sinn rétt til útsvarsálagningar, eins og alltaf hefur verið, og óneitanlegt er það, að þó að alimikill hluti af kostnaði við tryggingarnar sé lagður á sveitarfélögin, þá fá þau þó enn meira með því, að fátækraframfærinu hefur verið svo að segja algerlega af þeim létt, eða að miklu leyti, og kostnaði við skólahald og annað slíkt, og þetta, a.m.k. það síðasta, tekið meira en áður á herðar ríkisins. En svo vil ég minna á það, að í fyrra var sveitarfélögum séð fyrir nýjum tekjustofni, ef þau vilja nota hann, þar sem er fasteignaskattur, sem samþykkt voru lög um á síðasta þingi, að mig minnir. — Annars ætla ég ekki frekar út í þetta mál. Það mætti náttúrlega tala langt mál um liðinn tíma. Við gætum gert það okkur til skemmtunar, við hv. þm. Vestm., að rifja upp s.l. 30 ár og ýmislegt, sem skeð hefur á Alþ. á þeim tíma, því að við komum nú samtímis hingað í þessa virðulegu samkomu og höfum séð þar ýmislegt og lifað súrt og sætt í pólitískum skilningi, ef svo má að orði kveða. En ég held það greiði ekki beint fyrir afgreiðslu þessa máls, þó að við færum að gera það. En það gladdi mig þó, og auðvitað bjóst ég ekki við öðru af honum, að hann telur ekki annað fært en að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir til umræðu.

Að endingu vil ég undirstrika það, sem hv. 1. þm. N-M. sagði og ég vék að líka við 2. umr. þessa máls, að þessi l. stendur ekki til að framlengja nema til eins árs, og áður en það er úti, má telja alveg víst, að þær mþn., tvær eru þær, sem starfa nú að endurskoðun skattalaga og útsvarslaga annars vegar og endurskoðun á tolllögum og tolltekjum ríkisins hins vegar, verði búnar að skila áliti. Þá kann að vera, alveg eins og hv. 1. þm. N-M. sagði, að fyrir liggi till. um aðra tilhögun þessara mála, sem geri söluskattinn óþarfan í þeirri mynd a.m.k., sem hann er nú, og þá er tími til að reyna framtíðarlausn þessara mála. En núna, þegar fjvn. er víst þegar búin að afgreiða fjárlagafrv. til 2. umr. og hnitmiða þar tekjur og gjöld, og ef að vanda lætur mun þó gjaldaliðurinn sízt lækka í meðferð þingsins, þá kemur auðvitað ekki til mála að fara nú, undir árslok, að afnema einn af stærri tekjupóstum ríkissjóðs.