04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði nú ekki ætlað mér að taka til máls við þessar umræður, enda treysti ég að sjálfsögðu fyllilega hv. frsm. til að halda hér uppi svörum, en vegna ræðu hv. þm. Vestm. þykir mér þó óhjákvæmilegt að segja hér nokkur orð. Ég vil ekki, að sú ræða sé skoðuð sem höfuðsjónarmið Sjálfstfl. í afgreiðslu þessa máls, og þar sem hv. þm. Vestm. er eini þm. Sjálfstfl., sem hefur rætt um þetta mál, og ég hins vegar á sæti sem fulltrúi flokksins í hv. fjhn., þar sem þetta mál er afgr., þá finnst mér óhjákvæmilegt að gera nokkra athugasemd við ræðu hv. þm. Vestm.

Ég skal ekki hér á þessu stigi málsins ræða um stefnubreytingar Framsfl. eða annarra þm. svo mjög, það geta aðrir gert hér, en ég get þó ekki stillt mig um að benda hv. þm. Vestm. á þá staðreynd, að það er ekkert óeðillegt, þó að sjónarmið manna og flokka breytist nokkuð við breyttar aðstæður á Alþ. og í þjóðfélaginu eða jafnvel við það, að menn taka að sér önnur hlutverk eða önnur verkefni en þeir hafa haft á þeim tímum. Í því sambandi vil ég benda hv. þm. á það, sem hann sjálfsagt man eftir frá þeim tíma, sem bann sjálfur sat í sæti hæstv. sjútvmrh. og hæstv. fjmrh. á sínum tíma, að þá hafði hann þau orð út af alveg sérstökum málum, sem var verið að sækja undir hann þá sem ráðh., að þeir töluðu aldrei saman, sjútvmrh. og fjmrh. Þetta var viturlega mælt, eins og hans var von og vísa, og það var líka ákaflega skiljanlegt. Sjútvmrh. í persónu hv. þm. Vestm. hafði þá þá skyldu að sækja eins örugglega og fast og drengilega sjávarútvegsmálin og honum var unnt sem slíkur, en hins vegar hafði þáverandi hæstv. fjmrh., einnig í persónu hv. þm. Vestm., sömu skyldu til þess að standa á móti öllum kröfum, sem íþyngdu um of fjármálum ríkisins, svo framarlega sem ekki væri hægt að finna eðlilega gjaldstofna á móti. Ég sé ekki, að það komi fram í þessu neitt ósamræmi. Þótti þetta á þeim tíma viturlega og drengilega mælt, en það sannar þá líka, að aðrir menn geta breytt einnig um skoðun á sérstökum málum eftir því, hvaða hagsmuna þeir eiga að gæta á hverjum tíma við sín störf.

Mér þótti mjög vænt um, að hv. þm. las upp stóran kafla úr minni ræðu frá 1948 um dýrtíðarmálin. Ég sé, að ég hef verið þar forspárri en ýmsir af mínum hv. samþingsmönnum hafa viljað trúa á þeim tíma. Þegar sá kafli er lesinn, þá sýnist mér, að allt hafi þar gengið eftir, sem ég sagði um þau mál, og er það mér náttúrlega til mjög mikillar ánægju að geta séð svo langt fram ítímann.

Ég hélt ekki, að hér mundu verða teknar upp mjög miklar umræður um söluskattinn sjálfan. Það hefði verið eðlilegra, að það hefði verið gert á fyrra stigi málsins, en úr því að þessu er hreyft, þá vil ég þó benda á, að það er ekki sagður nema hálfur sannleikurinn í sambandi við þær upplýsingar, sem hv. þm. Vestm. gaf í sambandi við þessi mál. Það er að vísu rétt, að söluskatturinn var á sínum tíma tekinn til þess að standa undir dýrtiðinni,en hins vegar er það ekki rétt, að þetta verkefni sé ekki jafnt fyrir höndum í dag eins og það var þá. Að vísu hefur verið tekið upp í stærri stíl en þá það, sem hv. þm. kallaði nokkurs konar tvöfalt gengi, þ.e.a.s. bátagjaldeyririnn. Hann er nú tekinn upp í stærri stíl en þá. Þá hafði þessi aðferð verið tekin upp, en í minni stíl, eins og hv. þm. er vel kunnugt um, og það var einmitt þáverandi hæstv. viðskmrh., núverandi hv. 5. landsk., sem einmitt tók upp þessa stefnu í viðskiptamálunum í sambandi við hrognapeningana og gotupeningana, sem þá gáfust svo vel, að þeir gátu leyst þann vanda, sem þá steðjaði að. Og það má segja við þá menn, sem aldrei sjá annað en illt í bátagjaldeyrinum og því kerfi, sem honum hefur fylgt, að asninn hafi verið leiddur í herbúðirnar af Alþfl., því að það var hann, sem fann upp á þessu fyrirkomulagi um bátagjaldeyri í smærri og annarri mynd. En það verður ekki heldur hægt að neita því, að með því að taka upp bátagjaldeyrisfyrirkomulagið hefur verið leystur annar vandi hér í þessu þjóðfélagi, sem ekki er lítils virði, og það eru verslunarhöftin. Hvernig er verzlunin í landinu nú? Hvernig var hún áður en þetta kerfi var tekið upp, þ.e.a.s. bátagjaldeyriskerfið annars vegar og gengisfellingin hins vegar? Nú kemur fram í langflestum tilfellum, að hækkunin á vörunum gengur inn í kauplagsvísitöluna og kemur fólkinu til góða í launahækkun. Áður var það svo, að fólk varð að borga miklu hærri upphæðir í svartamarkaðsverði, sem aldrei kom fram í hækkuðu kaupgjaldi. Og þetta er hreint ekkert lítið atriði einmitt fyrir fólkið í landinu og þó einkum fyrir fátækasta fólkið í landinu. Hins vegar hefur það verið skipulagt þannig í sambandi við bátagjaldeyrinn, að hann hefur verið lagður langsamlega mest á þær vörur, sem fátækasta fólkið þurfti ekki að kaupa mest af, svo að ekki sé meira sagt, og sneitt einmitt fram hjá hinum vörunum, sem lægst launuðu mennirnir þurftu að kaupa sér til daglegs framfæris. Auk þess er söluskatturinn ekkert sérstakt fyrirbrigði hér á Íslandi. Honum er haldið í margfalt stærri stíl í flestum öðrum löndum, m.a. í Englandi og Ameríku er hann allt upp í 50% álag á vöruna eftir því, um hvaða vörutegund er að ræða.

Söluskatturinn stendur einmitt í dag ákaflega mikið undir dýrtíðarmálunum. Það af vöru, sem greitt er niður í dag af ríkissjóði, er enn þá greitt niður með hluta af söluskattinum. Og hann stendur auk þess í dag undir fjöldamörgum nýjum verkefnum, sem hv. Alþ. og hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð sér fært að víkja frá eða neita að styðja. Það hafa m.a. verið aukin stórkosilega framlög til rafvirkjunar. Það hafa verið byggð stórkostleg raforkuver og bætt við línum um landið og þó ekki verið hægt að mæta nema broti af því, sem þjóðin þarfnast í þeim málum, og nokkuð af söluskattinum er notað til þessara framkvæmda. Það er enn haldið áfram að nota nokkuð af söluskattinum í sambandi við sauðfjárveikivarnirnar. Það var notað allmikið af söluskattinum til þess að greiða með stórar upphæðir í samhandi við kaup á 10 togurum, sem keyptir voru, einnig með samþykki hv. þm. Vestm., í stjórnartið Stefáns Jóh. Stefánssonar. Það hafa farið allinargar milljónir til þess að standa undir því fyrirtæki, og það hefur verið notaður allmikill hluti af söluskattinum til þess að aðstoða hin ýmsu sveitarfélög og hina ýmsu menn og ýmis atvinnufyrirtæki í landinu til þess að halda uppi almennri atvinnu, svo að fólkið væri ekki atvinnulaust. Til þessa hefur söluskatturinn verið notaður, og framlög til þessara mála fara síhækkandi með ári hverju. Söluskatturinn hefur verið notaður til þess að standa undir síhækkandi gjöldum til almannatrygginganna, sem ekki stafa öll frá dýrtíðarhækkun. Hækkun þessi stafar, eins og kunnugt er, frá ýmsu öðru, m.a. frá fjölgun bótaþega, eins og hefur komið fram hér í öðrum málum. Hækkun þessara gjalda stafar m.a. af því, að starfsemi Tryggingastofnunarinnar var blandað inn í dýrtíðarmál á síðasta þingi, svo að þær i6 millj. kr., sem varð að greiða úr tryggingunum til þeirra mála, eru hreint dýrtíðarmál, svo að söluskatturinn stendur þar að nokkru leyti enn þá undir dýrtíðarmálunum, eins og hann gerði á sínum tíma. Söluskatturinn var þá, eins og hv. þm. sagði, einn steinninn í tekjubyggingunni fyrir ríkissjóð, og hann er það enn. Hann er einn aðalþátturinn í því, að hægt sé að halda áfram þeim störfum, sem hafin hafa verið í sambandi við atvinnumálin, og halda áfram að mæta þeim verkefnum, sem þarf að mæta á hverjum tíma.

Hv. þm. sagði einnig, — og var að heyra, áð hann hefði verið andvígur þeirri stefnu, — að við hefðum orðið að leggja tvær þungar byrðar á þjóðina, gengisfallið og bátagjaldeyrinn. Ég verð að segja, að það hefði alveg eins mátt snúa þessum orðum við, að Alþ. hafi með því létt þyngstu byrðinni af þjóðinni, atvinnuleysinu. Ég blikna ekkert eða blána fyrir því nú þremur árum síðar en þetta var gert, að hafa verið með í þeirri ráðstöfun. Mér var það alveg ljóst þá, og mér er það alveg ljóst enn, að það var til þess að víkja burt frá dyrum almennings í landinu þeirri þyngstu byrði, sem hægt er að leggja á eina þjóð, þ.e. atvinnuleysinu og hungurvofunni. Og það er það, sem söluskatturinn er notaður til enn í dag, að halda þeim ófögnuði frá landsmönnum.

Hv. þm. sagði einnig, að það hefði ekki verið hægt að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar þrátt fyrir þessar þungu fórnir. Það er alveg rétt.

Það hefur ekki verið ráðið niðurlögum dýrtíðarinnar, en það hefur þó verið spyrnt við fæti, og það, sem er mest um vert, allar þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið af núverandi ríkisstjórn, hafa miðað að því að tryggja atvinnumálin í landinu, og það hefur tekizt svo vel, að það mun vera einsdæmi í sögunni, að menn hafi haft slíkar tekjur á Íslandi almennt eins og nú er. Það er vitanlegt, að svo og svo mikill hluti af þeim tekjum fer aftur til ríkisins og til bæjarsjóða, eins og það hefur alltaf gert, en hvenær hefur það skeð í jafnríkum mæli og nú, að erfitt sé m.a. að fá menn til að starfa að aðalatvinnuvegi þjóðarinnar eins og togaraveiðum og veiðum á bátum yfir vertíðina, þrátt fyrir það að þessir menn hafi ekki einungis góðar tekjur, heldur margir hverjir mjög miklar tekjur? Ég minnist ekki þess á minni ævi, að það hafi verið jafnerfitt að fá menn til þess að starfa að slíkum störfum eins og nú, einmitt vegna þess, að aðrir atvinnuvegir í landinu eru svo blómlegir, að þeir bjóða enn betri kjör, og það er m.a. vegna þeirrar stjórnarstefnu, sem hér hefur verið í landinu undanfarin ár. Það er þess vegna einmitt, sem þessi stofn, söluskatturinn, vex frá ári til árs, að hann er skýrasta tákn þess, hversu mikil gróska er í atvinnumálunum á Íslandi, því að prósentan hefur ekki verið hækkuð. Viðskiptin hafa aukizt og blómgazt vegna þeirra ráðstafana, sem ríkisstjórnirnar hafa gert á þessum undanförnum árum. Og það er hlægilegt, þegar menn svo rísa upp og tala um, að þetta sé erfiðasta byrðin á þjóðinni, sem er skýrasta tákn þess, að þjóðinni líður vel undir þessu formi, enda hefði ég ekki tekið mér tíma til þess að mótmæla þessu, ef þetta hefði ekki komið frá hv. þm. Vestm. og getað verið skoðað sem ummæli frá Sjálfstfl. í sambandi við umr. um þetta mál. Ef það hefði komið frá þeim mönnum, sem telja sér skylt að mæla á móti öllu, sem hæstv. ríkisstj. gerir, þá hefði ég sannarlega ekki tekið þetta svo alvarlega, en þegar um það er að ræða, að einn af þeim mönnum, sem á þátt í þessari uppbyggingu, snýst þannig í þessu máli eins og hann hefur snúizt hér, þá get ég ekki annað en mælt á móti þeim ummælum.

Ég vil í sambandi við þetta einnig leyfa mér að benda á, að ekki fá af þeim nýju verkefnum, sem hæstv. ríkisstjórn hefur stutt að, svo sem að auka atvinnutæki hvar sem vera skal á landinu, hafa beinlínis orðið til þess að torvelda, að hægt væri að spyrna á móti dýrtiðinni í landinu eins og æskilegt væri, af því að ný verkefni, sem gefa nýjar tekjur til mannanna, krefjast nýrra og fleiri verkamanna, meiri starfskrafta, eftirspurnin verður meiri, og þar af leiðandi verður kaupgetan meiri og því erfiðara að vinna á móti sjálfri dýrtíðinni í landinu. Þetta er augljóst mál. Það er vitað m.a., að 53 millj. kr. verktakasamningur, sem gerður var í Keflavík í fyrra um þetta leyti, hlaut að skapa ákaflega mikla erfiðleika í sambandi við þetta mál. Og hann skapaði strax á fyrsta stigi svo mikla erfiðleika, að það var vegna hans og hans eins, að ekki var hægt að víkja frá Tryggingastofnuninni þeim kaleik, að hún greiddi tugi milljóna króna til þess að sætta vinnudeilur í landinu. Þetta getur hver maður séð, sem vill yfirleitt líta nokkuð inn í þjóðmálin.

Þetta vildi ég hafa sagt um söluskattinn sjálfan, en ég get ekki látið vera að segja nokkur orð um þá brtt., sem er hér á þskj. 228, úr því að ég tók hér til máls á annað borð.

Það hafa komið fram raddir frá a.m.k. tveim hv. þm., hv. þm. N-M. og hv. þm. Vestm., að þeir væru nokkurn veginn efnislega samþykkir þeirri stefnu, sem væri farið inn á, ef till. yrðu samþ. (Gripið fram í.), eða hefðu tilhneigingu til þess, en hvorugur treysti sér til þess að gera það nú á þessari stundu, vegna þess að það mundi hafa slík áhrif á afgreiðslu fjárl. Ég er hins vegar alls ekki samþykkur þessu. Ég er alveg mótfallinn því, og það vildi ég gjarnan að kæmi hér fram. Ég er alveg mótfallinn því, að það sé farið inn á þá leið að leggja á skatta af Alþingi eða ríkisins hálfu í ríkissjóðinn til þess að láta aftur hluta af þeim ganga til sveitarfélaganna. Ég tel það vera ranga stefnu og fer ekki dult með það. Ef sveitarfélögin þurfa að halda á meira fé og ekki er hægt að ná því fé á neinn annan hátt en að taka það af ríkistekjunum, þá á fyrst að mínu áliti að endurskoða þær kvaðir, sem hafa verið lagðar á sveitarfélögin, og létta af þeim kvöðum, en ekki láta kvaðirnar hvíla á sveitarfélögunum og síðar að koma til ríkisins og heimta fé úr ríkissjóði til þess að greiða kostnað við þær kvaðir, sem ríkið leggur á þau. Hér er verið að fara í kringum málið, og því er ég mótfallinn. Það þarf að athugast gaumgæfilega og það á að vera m.a. verkefni þeirrar mþn., sem hv. 1. þm. N-M. minntist á, að sjá um, hvort það sé eðlilegt og hvort það sé fært að létta eitthvað af þeim kvöðum, sem Alþ. hefur lagt á sjálf sveitarfélögin í sambandi við ýmis mál, svo sem tryggingarnar, skólana, löggæzlu o.fl. í landinn. Þetta hefur verið til umr. í n. og er til umr. í n. enn, og það er sú leið, sem ber að fara, ef Alþ. kemst að þeirri niðurstöðu, að það verði að hjálpa sveitarfélögunum um nýja tekjustofna, — þá ber fyrst og fremst að létta þessum kvöðum af. Ég tel vera fjarstæðu að fara að leggja þetta á sem tolla eða skatta til ríkisins og greiða það síðan aftur út annaðhvort í jöfnunarsjóð eða eitthvað annað. Þess vegna er ég mótfallinn þessu. Þegar svo væri komið, mundu vitanlega kröfurnar halda áfram, það yrði ekki heimtaður 10. hluti eða 20. hluti í dag, heldur yrði haldið áfram að færa sig upp á skaftið, þar til heimtað væri, að allur kostnaður væri greiddur af ríkissjóði, þar til svo væri komið, að einn sameiginlegur sjóður yrði fyrir sveitarfélög, bæjarfélög og ríkissjóð. Um það má ræða, en þá erum við komnir aftur inn á það, að að sjálfsögðu yrðu fjárhagsáætlanir sveitarfélaganna þá einnig að vera afgreiddar á Alþ., alveg eins og hvert einasta atriði, sem hér er gert í sambandi við fjárl.

Það er af þeim ástæðum, sem ég hef nú lýst, að ég mun greiða atkvæði á móti till. á þskj. 228, og lýsti ég því fullkomlega í n., þegar málið var afgreitt. Hv. 1. þm. N-M. sagði, að hann vildi nú ekki gera þetta af því, að hann vildi ekki taka fram fyrir hendurnar á þeirri n., sem í tvö ár hefði haft þetta til athugunar. Ég get alveg fullvissað hann um það án þess að segja mikið, að það er mjög vafasamt, að sú von hans rætist, að þessar till. í sambandi við tekjur til sveitarfélaganna verði lagðar fram fyrir Alþ. núna strax eftir nýárið. Það mega þá verða einhver önnur vinnubrögð í nefndinni en hefur verið hingað til, ef það á að geta skeð. Annað meira skal ég ekki segja um það starf. Hins vegar er hlutverk n. að gera það, og ég geri ráð fyrir því, að hún geri það að minnsta kosti áður en hið reglulega Alþ. kemur saman í okt. Ég tel, að hún hafi ekki leyst að fullu sitt verkefni, nema því aðeins að hún brjóti það til mergjar, hvaða umbætur megi gera hér á, og það hafa þegar, a.m.k. síðan ég kom í n., verið ræddir ýmsir möguleikar til þess að leysa þennan vanda og margir hverjir þeir möguleikar eru líklegir til þess að mæta þeim óskum og kröfum, sem hér eru bornar fram. Þetta þótti mér rétt að láta koma fram í sambandi við þetta mál.