04.12.1953
Efri deild: 28. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

4. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal víkja fyrst með nokkrum orðum að brtt. á þskj. 228 og þeim athugasemdum, sem fram hafa komið í sambandi við þær.

Ýmsir hv. þm., eins og t.d. hv. N-M., hafa sagt ótvírætt, að þeir hafi mikla tilhneigingu til þess að fylgja þessum till., væru í andanum þeim meðmæltir, en sú vonda veröld og harði veruleiki mundi nú knýja þá að þessu sinni til þess að víkja af brautum dyggðarinnar og styðja heilsusamlega afgreiðslu fjárl., að mér skildist. Önnur röksemd hv. þm. N-M. var sú, að það væri að taka fram fyrir hendur mþn. að sjá sveitarfélögunum fyrir nokkrum tekjustofnum. Hv. þm. Barð. benti nú á, að n. hefði haft þetta mál til meðferðar í full tvö ár, svo að ég hygg, að það væri ekki úr vegi, að Alþ. sýndi n. vilja sinn, þótt ekki væri til annars en að ýta á eftir, að hún tæki þennan þátt af sínu verkefni til athugunar, sem ég hygg að hingað til hafi legið lítt athugaður í hv. n.

Að því er snertir fjárhagshlið málsins, skal ég geta þess, að ég hef nú athugað ríkisreikninginn frá 1952 og fjárlagafrv. fyrir 1954, og í reikningi ársins 1952 er það hvorkí meira né minna en 8.2 millj. kr., sem ríkissjóður hefur greitt vegna vanskila á vöxtum og afborgunum af lánum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir. Og sú upphæð hefur farið vaxandi ár frá ári. Ég hygg, að þetta sé mjög alvarleg vísbending til hv. Alþ. Ég tel enga ástæðu til að ætla, að hæstv. fjmrh. borgi þetta af öðrum ástæðum en brýnni nauðsyn. Þessi upphæð, eins og ég sagði áðan, fer hækkandi ár frá ári, sem stafar af þeim fjárhagsörðugleikum, sem þorri bæjar- og sveitarfélaganna á nú við að stríða. Og ef það er nokkuð, sem sannar áþreifanlega þörf sveitarfélaganna fyrir skjótar ráðstafanir til þess að bæta úr fjárhagsörðugleikunum, þá er það einmitt þessi greiðsla úr ríkissjóði. Í fjárlagafrv. er söluskatturinn áætlaður 91.5 millj. kr. Fjórði hluti hans er þess vegna tæplega 23 millj. kr., en fullvíst er, að útgjöld ríkissjóðs mundu af þeim sökum lækka minnst um 8 millj. kr. og sennilega nokkru meira, þannig að það, sem í raun og veru tekjur ríkissjóðs skerðast við þetta, er ekki nema rétt í kringum 14 millj. kr. og líklega ekki einu sinni það. Ég held því, að það væri hið mesta óráð að láta reka á reiðanum í þessu efni og bíða eftir allsherjar bjargráði frá hv. mþn. í skattamálum, þingið verði nú þegar að gera sínar ráðstafanir til að leysa þessi atriði.

Á bæjarstjórafundinum, sem haldinn var í fyrra, var samþ. ályktun í þessa átt, af fundarmönnum öllum, ætla ég. Var talið þar, að ekki mundi nægja minna en helmingur söluskattsins, eða allt að 50 millj. kr., til þess að leysa vandræði sveitarfélaganna í þessum efnum. Hér er því ekki farið fram á nema nokkurt brot af því, sem bæjarstjórafundurinn taldi að nauðsynlegt væri. Hef ég stuðzt í þessu efni við till. borgarstjórans í Reykjavík, sem hann bar fram með stuðningi margra flokksmanna sinna á síðasta Alþ., eins og kunnugt er, og færði fyrir, að ég hygg, þau hin sömu rök sem hér eru fram borin, en því einu bætt við, sem reikningar ríkissjóðs hafa síðan sýnt um greiðslur vegna vanskila á lánum, sem ríkissjóður er í ábyrgð fyrir fyrir sveitarfélögin.

Ég skal láta þetta nægja um brtt. að sinni, en get ekki látið hjá líða að víkja nokkrum orðum að söluskattinum almennt vegna þeirra miklu umr., sem nú við 3. umr. hafa orðið um eðli hans og áhrif.

Það er alveg fullkomlega rétt, sem hv. þm. Vestm. sagði hér í upphafi ræðu sinnar, að söluskatturinn var á lagður sem hrein og bein bráðabirgðaráðstöfun til þess að koma í veg fyrir stöðvun sjávarútvegsins eða vélbátaflotans, með því að tryggja á þann hátt vélbátaeigendum ákveðið lágmarksverð fyrir sínar afurðir, sem talið var að gerði þeim fært að halda bátunum úti. Til þess að ríkissjóður gæti fullnægt skuldbindingum sínum um að tryggja ábyrgðarverðið var svo söluskatturinn á lagður til að greiða þær uppbætur, sem þyrfti hverju sinni að greiða, til þess að ábyrgðarverðið fengist. Þessi var tilgangur söluskattsins. Í þessu skyni var hann á lagður og innheimtur. Ég álít, að það hafi verið alveg rangt og óhyggilegt að hverfa frá þeirri stefnu, sem stjórn Stefáns Jóhanns tók upp á árunum 1947–1949 og fylgdi á því tímabili. Það er eina raunverulega alvarlega viðleitnin, sem sýnd hefur verið hér á landi, frá því að stríðið hófst, til þess að stöðva dýrtíðina og mynda sæmilega fastan grundvöll undir atvinnulifið í landinu. Einn meginþátturinn í þeim aðgerðum var ábyrgðarverðið fasta á útflutningsafurðunum og að nokkru leyti framhald á fyrri niðurgreiðslum á vöruverði hér innanlands, enda sýndi það sig, að á þeim tveim árum, sem sú stjórn fór með völd, frá 1947 til haustsins 1949, þegar hún leystist upp eftir kosningarnar, þá hafði dýrtíðin ekki aukizt nema um örfá stig. Hún lækkaði fyrst úr 328 og niður í 315 stig og var, ætla ég, komin eitthvað upp fyrir 330 stig, þegar stjórnarsamstarfið gliðnaði á haustinu 1949. Það er eina tímabilið, síðan stríðið hófst, sem tekizt hefur að halda nokkurn veginn föstu verðlagi í landinu og veita atvinnuvegunum nokkra tryggingu fyrir því, hvað þeir fengju fyrir sína framleiðslu. Ég tek alveg undir það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að þeir ósvífnu palladómar, sem kveðnir hafa verið upp um störf þessarar stjórnar, eru hinir furðulegustu. En hvað um það, meiri hluti Alþ. valdi þá leið að hverfa frá þeirri stefnu að tryggja ákveðið útflutningsverð og greiða uppbætur til að ná því, en ætlaði sér að leysa málin með því að lækka gengi krónunnar og fá þar með hækkað krónuverð á útflutningnum. Hv. þm. Barð. sagði hér áðan, að með þessum ráðstöfunum hefði tekizt að afstýra ægilegasta bölinu, sem hefði vofað yfir þjóðinni, atvinnuleysinu, vegna þessara ráðstafana væri nú svo komið, að allir hefðu nóga vinnu, það væri reglulega erfitt að fá menn í vinnu og allir hefðu nóga peninga. Ja, mikil er trú þin, kona! ef ég mætti svo orða það. Gleymir hv. þm. því, að það vinna milli 3 og 4 þús. manns suður á Keflavíkurflugvelli og launagreiðslur til þessa fólks nema eitthvað yfir hálfa milljón hvern einasta dag? Man hv. þm. ekki, hvernig ástandið var hér 1951 og 1952, þann vetur, eftir blessun gengislækkunarinnar og eftir bátagjaldeyrinn? Þá voru yfir 2 þús. manns atvinnulausir í Reykjavík. Sannleikurinn er sá, að það, að allir hafa hér nóga atvinnu nú, er engan veginn afleiðing gengislækkunarlaganna og ekki heldur bátagjaldeyrisins, heldur bein afleiðing af þeim miklu framkvæmdum, sem varnarliðið hefur með höndum suður í Keflavík, og þeirri atvinnu, sem þessi sérstæði tekjuliður skapar öðru fólki í landinu en því, sem beinlínis vinnur þar, því að það fé, sem fólk vinnur sér inn á Keflavíkurflugvelli, verður ekki allt eyðslueyrir. Ýmist er það fé lagt í gagnlegar framkvæmdir, eins og t.d. að byggja hús yfir sig, rækta jörð og annað slíkt.

Því miður verðum við að horfast í augu við þá sorglegu staðreynd, að allar ráðstafanir hæstv. ríkisstj. til þess að tryggja atvinnulifið í landinu hafa gersamlega mislánazt. Hv. þm. Vestm. orðaði þetta ákaflega skemmtilega áðan. Hann sagði, að hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar hefðu alla tíð átt í stöðugri baráttu við dýrtíðina og hefðu reynt öll möguleg, hugsanleg ráð til þess að ráða hennar niðurlögum. En þetta hefur verið fjandans erfiður draugur við að eiga, minnir á Fróðárundrin helzt. Fyrst er gengið lækkað og útlendi gjaldeyririnn hækkaður um 75% til þess að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar. Síðan er bátagjaldeyrisfyrirkomulagið tekið upp, og þar var hækkaður um 60% mikill hluti af innflutningi þjóðarinnar af ýmiss konar varningi. Og enn er lagður á söluskattur, sem í flestum tilfellum nemur samanlagt hjá heildsölu og smásölu ekki minna en 10% og oft meiru. Er það ekki furðulegt fyrirbæri, að þrátt fyrir allar þessar „stórfenglegu ráðstafanir til þess að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar“, í gæsalöppum, eins og mér skildist hv. þm. meina, skuli ekki hafa tekizt að ná tilætluðum árangri? Það er alveg augljóst hverjum heilskyggnum manni, að þær ráðstafanir, sem hér eru nefndar, hvað sem annars má um þær segja, þær hljóta að verða til þess að auka dýrtíðina í landinu, til þess að skapa erfiðari lífskjör, til þess að fólk verður að heimta fleiri krónur til að geta fullnægt sínum þörfum. Af því leiðir aftur, að þær vörur, sem við framleiðum í landinu, verða dýrari en ella og erfiðara þess vegna að standast samkeppni við sams konar vörur annars staðar að, eins og ég benti hér á fyrst í máli mínu.

Ég held, að við ættum að gera okkur grein fyrir því, að hvað sem segja má um þessar ráðstafanir annars, þá er það náttúrlega hreint og beint fjarstæða að halda því fram, að þær miði að því að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar í landinu. Það er svo gersamlega fráleitt, þegar tillit er tekið til þess til viðbótar, að samhliða því, sem þessar ráðstafanir eru gerðar, er gróðaöflunum í þjóðfélaginu bókstaflega gefinn taumurinn laus. Verðlagseftirlitið er sumpart afnumið og sumpart að engu gert. Eftirlit með húsaleigu er ekkert. Hver og einn getur lagt á sína þjónustu, vöruna, sem hann selur, húsnæðið, sem hann leigir, svo að segja eins og hann sjálfur girnist, án þess að hið opinbera hafi þar afskipti af. Sannleikurinn er sá, að með þessum hliðarráðstöfunum hefur verið, eins og reyndar hv. þm. Eyf. orðaði það, þó að hann ætti nú við annað, skapaður möguleiki fyrir hópa manna og fjölda einstaklinga í þjóðfélaginu til þess að skapa sér alveg gersamlega óréttmætan og óeðlilegan gróða, og sá gróði verður ekki annars staðar tekinn en af hinu fólkinu í landinu og hlýtur að koma fram sem aukinn kostnaður við að halda í því lífinu, að svo miklu leyti sem það fæst bætt í gegnum kauphækkanir, og þá sem aukinn framleiðslukostnaður á vörum og varningi í landinu, hvort sem það er til neyzlu hér eða til útflutnings. Þetta er sú svikamylla, sem búið er að byggja upp og við nú súpum seyðíð af.

Ég skal ekki lengja þessar umræður að sinni. Mér þótti yfirleitt gott og vel við eigandi, að þessar almennu hugleiðingar komu hér um ráðstafanir hæstv. ríkisstj. í þessu efni og eðli og tilgang söluskattsins, og vildi mega vænta þess, að þess verði nú ekki langt að bíða úr þessu, að almenningur knýi fram afnám eða breytingu á þessum lögum um söluskatt, og get að því leyti tekið undir frómar óskir hv. þm. N-M. um störf mþn., þótt ég hins vegar sé þeirrar skoðunar, eins og ég sagði fyrst, að það væri mjög heppilegt, skynsamlegt og fyllsta ástæða til að gefa henni nokkrar ábendingar um að hraða störfum sínum í þessu efni, t.d. með því að samþ. þessar brtt. mínar, sem hér liggja fyrir og mundu gera það nokkru meira aðkallandi en nú er, þótt ekki sé um stórt að ræða, að n. ljúki störfum og leggi sínar till. um þetta atriði fyrir hv. Alþ.