09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1529 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

92. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. dómsmrh. um þetta atriði, en ég vil benda honum á, að í reglugerðinni frá 18. febr. 1953, reglugerð nr. 21, í 10. gr., stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokinni árlegri skoðun, hafi engar athugasemdir verið gerðar við öryggisbúnað eða hollustuhætti, eða að lokinni eftirskoðun, þegar búið er að framkvæma umbætur þær, sem kunna að hafa verið fyrirskipaðar við aðalskoðun, gefur eftirlitsmaður út skoðunarvottorð ásamt reikningi fyrir eftirlitsgjaldi fyrirtækisins, sem hann afhendir viðkomandi lögreglustjóra (tollstjóranum í Rvík) til innheimtu, er hann kvittar fyrir móttöku reikningsins.“

Þetta eru fyrirmæli frá hinu háa ráðuneyti, sjálfsagt ekki menntmrn., en það er orðalag frá hinu háa ráðuneyti og ekki frá n. Og n. gat þó ekki betur mætt óskum hins háa ráðuneytis en að taka þetta alveg orðrétt upp. Þetta er svar mitt við aths. hæstv. ráðherra.

Ég sem formaður n. hefði helzt óskað, að frv. hefði jafnvel ekki verið afgr., en hæstv. iðnmrh., sem þessi mál heyra undir, hefur mjög óskað eftir því, að þetta mál fengi efnislega afgreiðslu hér í hv. þingi. Þá gátum við ekki mætt betur hans óskum en að hafa orðalag sjálfrar stofnunarinnar, eins og það hefur verið orðað í samráði við hæstv. ríkisstj., og taka hér upp þann þáttinn, sem við gátum þó verið sammála um. Hitt vildum við ekki fallast á, að breytt yrði um innheimtuaðferðina.

Mér þykir rétt í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði, að hér væri um allt annað efni að ræða, að lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, hvernig 45. gr. l. kemur til þess að hljóða, ef greinin verður samþ. Þá kemur hún til þess að hljóða þannig:

„Til að standast kostnað af framkvæmd laga þessara skulu eigendur þeirra fyrirtækja, er lög þessi ná til, greiða árlega í ríkissjóð eftirlitsgjald, samkv. gjaldskrá, er ráðh. setur í samráði við öryggismálastjóra.“ — Þetta stendur óbreytt áfram í gr. Síðan kemur: „Að lokinni árlegri skoðun, hafi engar athugasemdir verið gerðar við öryggisbúnað eða hollustuhætti, eða að lokinni eftirskoðun, þegar búið er að framkvæma umbætur þær, sem kunna að hafa verið fyrirskipaðar við aðalskoðun, gefur eftirlitsmaður út skoðunarvottorð ásamt reikningi fyrir eftirlitsgjaldið.“ — Svo kemur enn: „Skal eigandi þá jafnframt greiða allt skoðunargjaldið. Getur starfsmaður eftirlitsins stöðvað rekstur fyrirtækisins, sé gjaldið eigi greitt, enda afhendi hann þá eigi skoðunarskírteini.“

Efnislega er því þetta rétt byggt upp. Um það verður ekki deilt. Hitt má deila um, hvort málið sé svo sem skyldi, en eins og ég segi, þar höfum við fyrirmyndina frá sjálfri stofnuninni og frá ráðuneytinu, en hins vegar er þó nú hér um nokkuð tæknileg atriði að ræða, og kann það að ráða nokkru um, að hæstv. ráðherra finnst málið ekki vera eins smekklegt og væri um lögfræðileg atriði að ræða.