09.04.1954
Efri deild: 83. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1533 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

171. mál, íbúðarhúsabyggingar í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég gat þess sem frsm. fjhn. við 2. umr., að verið gæti, að n. legði fram till. við 3. umr., og nú liggur það fyrir. Hæstv. ríkisstj. hefur óskað þess, að fjhn. flytti till. um það, að heimilt væri að lána úr lánadeild smáíbúða sveitarfélögum, sem vildu byggja yfir fátæka menn og útrýma heilsuspillandi íbúðum. Þannig getur á staðið, að í sveitarfélögum, sem l. þessi snerta, séu menn, sem eru þess ekki efnalega umkomnir að reisa sér hús með aðstoð lánadeildarinnar, eins og hún hefur starfað, og að sveitarfélög þurfi þá að byggja yfir þá. Till. miðar við það ástand, og hún er á þessa leið: „Á eftir 4. gr. kemur ný gr., svolátandi: Á eftir 42. gr. l. kemur ný grein svo hljóðandi: Heimilt er einnig að lána bæjar- og sveitarfélögum úr lánadeildinni til þess að byggja smáar íbúðir í því skyni að útrýma lélegum og heilsuspillandi íbúðum. Lán til sveitarfélags fari þó aldrei yfir fjórða hluta af heildarupphæð þeirri, sem samkvæmt starfsreglum lánadeildarinnar er metin hæfileg lánsfjárveiting í hlutaðeigandi kaupstað eða kauptún á því ári.“

Það er ætlunin, að þó að ekki sé sótt um lán af einstökum mönnum úr einhverjum kaupstað eða kauptúni, þá geti komið til greina að lána sveitarfélaginn allt að því ¼ af þeirri upphæð, sem lánað mundi vera, ef umsóknir lægju fyrir tæmandi, og er þá gert ráð fyrir því, þegar þetta ákvæði yrði orðið að l., að lánadeildin styddi þá, sem eru aumastir allra, til að komast yfir íbúðir eða komast í íbúðir með aðstoð sveitarfélaganna.

Fjhn. leggur þessa till. fram að beiðni ríkisstj. eins og ég hef lýst yfir, en hv. 4. þm. Reykv. (HG) hefur ekki haft tóm til að athuga till,, svo að ég get ekki fullyrt, að hann sem fjhn.-maður styðji till.