25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1989)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur Reykjavíkurkaupstaður haft þá sérstöðu meðal bæjar- og sveitarfélaga landsins að hafa heimild til þess að geta ráðstafað brunatryggingum á húseignum í umdæmi sinn á þann hátt, sem bæjarstjórnin hefur talið hagkvæmast á hverjum tíma. Önnur bæjarfélög landsins og sveitarfélög hafa ekki haft rétt til þessa, þau hafa með lögum verið bundin við það að brunatryggja allar húseignir sínar hjá Brunabótafélagi Íslands. Þetta hafa verið í augum margra fulltrúa bæjarfélaga úti á landi allmikil fríðindi fyrir Reykjavíkurbæ, og það hefur augljóslega komið fram í því, að Reykjavík hefur náð allmiklu hagstæðari tryggingarkjörum með því að bjóða út sameiginlega tryggingu húseigna í Reykjavík heldur en húseigendur á öðrum stöðum á landinu hafa þurft að sæta.

Nú hefur verið lagt hér fyrir frv., þar sem Reykjavíkurkaupstaður óskar enn eftir aukahlunnindum fram yfir það, sem aðrir eiga við að búa, og nú er hér gert ráð fyrir í fyrirliggjandi frv., að Reykjavíkurkaupstaður geti einnig tekið sjálfur að sér brunatryggingarstarfsemina hér í bænum, þ. e., að Reykjavíkurkaupstaður getur rekið þessa tryggingarstarfsemi og þá ekki aðeins væntalega notið hinna hagstæðustu kjara, heldur er einnig gert ráð fyrir því í frv., að Reykjavík geti safnað nokkrum hagnaði af rekstri trygginganna og ráðstafað honum í ákveðnu augnamiði, m. a. til að halda uppi brunavörnum í bænum, efla þær og gera sem beztar, einnig til þess að halda uppi annarri tryggingarstarfsemi, eins og segir í frv., en það skilst mér að bjóði upp á allvíðtæka starfsemi að taka hagnaðinn af þessum brunatryggingum og ráðstafa til almennrar tryggingarstarfsemi. Þetta virðast vera allmikil aukahlunnindi fram yfir það, sem öðrum bæjar- og sveitarfélögum í landinu er sett.

Það hafa nokkrum sinnum komið fram raddir hér á hv. Alþingi um það að heimila fleiri kaupstöðum á landinu en Reykjavík þennan rétt að mega bjóða út brunatryggingarnar. En það hefur jafnan farið svo, að þær till. hafa ekki náð hér fram að ganga eða verið dregnar til baka af ýmsum ástæðum og þá kannske einna oftast af þeirri ástæðu, að Brunabótafélagið sjálft hefur að einhverju leyti skorizt í leikinn og boðið þá fram nokkra lækkun á þeim tryggingariðgjöldum, sem Brunabótafélagið hafði látið gilda fram að þeim tíma, og jafnvel ýmis önnur fríðindi.

Það er nú alveg orðið augljóst mál, að vegna þessarar sérstöðu, sem Reykjavík hefur haft í löggjöfinni, er orðinn geysilega mikill munur á aðstöðu húseigenda í Reykjavík og húseigenda annars staðar á landinu í þessum efnum. Ég vil í þessu efni nefna máli minn til sönnunar nokkrar tölur, sem ég hef aflað mér og ég vænti að séu réttar. Samkvæmt þeim hafa á undanförnum árum iðgjöld af brunatryggingum í Reykjavík verið þannig, að af steinhúsum með innréttingum, en í þeim flokki eru langflest hús hér í bænum, hafa iðgjöld verið 0.70‰. Í samanburði við aðra staði á landinu lítur þetta þannig út, að á Akureyri hafa þessi iðgjöld verið rösk

lega helmingi hærri, eða 1.50‰, í Hafnarfirði hafa þessi sömu iðgjöld líka verið 1.50‰, á Ísafirði 1.60, í Neskaupstað 1.91, á Seyðisfirði 1.80, í Vestmannaeyjum 1.80 og á Siglufirði 1.9‰.

Nú fyrir skömmu voru þessar tryggingar enn á ný boðnar út hér í Reykjavík og kepptu um tryggingarnar á næsta tímabili líklega flest vátryggingarfélögin í Reykjavík, og buðu þau öll stórkostlega lækkun á iðgjöldunum frá því, sem þau hafa verið. M. a. er kunnugt um það, að eitt af tryggingarfélögunum bauð 47% lækkun á iðgjöldunum í Reykjavík frá því, sem þau hafa verið, og yrðu samkvæmt því tilboði þær tryggingar, sem ég minntist hér á, þannig, að í Reykjavík yrðu iðgjöld af steinhúsum með innréttingu 0.37‰, borið saman við t. d. á Siglufirði 1.91‰, eða að iðgjöldin á Siglufirði mundu þá vera fimm sinnum hærri en þau væru þá orðin í Reykjavík, en í flestum öðrum kaupstöðum utan Reykjavíkur yrðu iðgjöldin 3–5 sinnum hærri.

Það kann nú að vera, að þessi mikli mismunur verði að einhverju leyti afsakaður með því, að brunavarnir séu allmiklu fullkomnari hér í Reykjavík en annars staðar á landinu. Þó efast ég um, að það sé svo í mörgum þessum tilfellum, sem hér er um að ræða, svo að nokkru nemi, þegar tekið er tillit til þess, að hér í Reykjavík er einnig miklu meiri brunahætta, m. a. af því, að sambygging húsa er hér hlutfallslega miklu meiri en annars staðar á landinu og því brunahætta frá húsi til húss miklu meiri hér.

En það er líka alveg augljóst mál, að það eru ekki brunavarnirnar í Reykjavík, sem hér ráða úrslitum, heldur eitthvað allt annað. Samanburður liggur líka fyrir um það, hvernig iðgjöldin eru t. d. hér í Kópavogshreppi og á Seltjarnarnesi, þar sem brunaliðið frá Reykjavík annast brunavarnirnar, og má því telja, að brunavarnirnar séu álíka góðar þar eins og á mörgum stöðum í Reykjavíkurbæ. En mismunurinn milli iðgjaldanna af nákvæmlega eins húsum í Kópavogshreppi er alveg nákvæmlega sami og í þessum kaupstöðum, sem ég var að nefna hér áðan. Í Kópavogshreppi er t. d. af algengustu íbúðarhúsum iðgjaldið 1.80‰, á móti 0.37, sem verða mundi eftir þessu nýja útboði, sem nýlega hefur verið gert.

Ég hygg, að þessar staðreyndir, sem ég hef hér bent á, séu svo ótvíræðar, að þeim verði ekki hnekkt, og þá er aðeins spurningin, hvaða ástæða er til þess að mismuna á þennan hátt húseigendum í hinum ýmsu kaupstöðum og kauptúnum landsins. Hvaða ástæða er til þess að láta Reykjavíkurbæ einan allra kaupstaða í landinu hafa þann rétt að mega á frjálsum grundvelli bjóða út sínar brunatryggingar, en banna öðrum kaupstöðum hið sama? Ég skal játa það, að ég er ekki nákunnugur rekstri Brunabótafélags Íslands. Það væru hugsanlegar þær skýringar, að einhver sveitarfélög væru þannig á sig komin í þessum efnum, að það þyrfti raunverulega að borga með iðgjöldunum á þeim stöðum. Ég skal ekki segja um, hvort það er svo, — ég dreg það í efa, — en þá vil ég líka benda á það, að sé um þá þörf að ræða, að það þurfi einhvers staðar annars staðar frá að koma aukaiðgjöld vegna þessara staða, þá væri miklu eðlilegra, að ríkisheildin hlypi þar undir og borgaði þann mismun, heldur en að leggja þær kvaðir á kaupstaðina utan Reykjavíkur að standa undir þessum aukaútgjöldum.

Af þessum ástæðum, sem ég hef nú greint, hef ég ásamt hv. 9. landsk. leyft mér að flytja nokkrar brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir, en brtt. okkar fela það fyrst og fremst í sér að veita öllum bæjar- og sveitarfélögum á landinu sama rétt og Reykjavík óskar nú eftir að fá sér til handa og þá fyrst og fremst þann rétt, sem hún hefur haft, að mega bjóða út sínar brunatryggingar á frjálsum grundvelli. Ég vil mega vænta þess, þar sem Reykjavík hefur notið þessara sérhlunninda nú um langan tíma og hefur sannað það í reyndinni, að þetta hefur gefizt vel, að fulltrúar Reykjavíkur, sem standa að flutningi þessa frv., taki undir okkar till., styðji hana og vilji unna okkur, sem teljum okkur fulltrúa byggðarlaga úti á landi, sama réttar og þeir hafa sjálfir áunnið sér og sama réttar og þeir biðja nú sjálfir um sér til handa.

Í þessu efni má minna á það, að það hefur sí og æ borið meir og meir á því á undanförnum árum, að menn úr öllum flokkum hafa talið það sér til ágætis að vilja vinna sem mest að því að skapa jafnrétti þegnanna hvar sem þeir eru búsettir á landinu, að skapa öllum landsmönnum sem jafnastan rétt, og þar sem svo hefur staðið á, að þeir, sem búið hafa t. d. í Reykjavík eða í fjölbýlinu og hafa á eðlilegan hátt fengið nokkur sérréttindi fram yfir aðra eða hagstæðari kjör, þá hefur þótt sjálfsagt að vinna að því í gegnum Alþingi að skapa fólkinu úti um land hliðstæðan rétt með beinni lagasetningu. Í þessu efni vil ég minna á það, þegar hér var lögfest á s. l. ári að ákveða sama verð á olíu um allt land. Það var alveg vitað mál, að það var gert að nokkru leyti á kostnað Reykvíkinga, sem bjuggu við tiltölulega hagstæðast verð, en þá þótti sjálfsagt að verða við því að jafna verðið og láta alla landsmenn borga hið sama. Nú eru enn uppi raddir um það að fara jafnvel sömu leið í sambandi við verð á rafmagni og að allir ættu að búa við sama verð. Þessar ráðstafanir hafa verið gerðar þannig og verða ef til vill gerðar þannig, að þar verður nokkuð tekið af þeim, sem búið hafa við beztu kjörin, og fært hinum, sem búið hafa við hin lakari. Hér í okkar till. er ekki gengið svona langt, heldur aðeins farið fram á það, að þeirra réttinda, sem húseigendur í Reykjavík fái að njóta, fái húseigendur úti á landi sömuleiðis að njóta.

Ég tel fulla ástæðu til þess, einmitt þegar frv. það, sem hér liggur fyrir, er hér til afgreiðslu, þó að það sé fyrst og fremst um það, að óskað er eftir nokkrum viðbótarhlunnindum til handa Reykjavíkurbæ í sambandi við brunatryggingar sínar, að þetta mál verði tekið fyrir á þeim grundvelli, sem till. okkar 9. landsk. gerir ráð fyrir. Það er með öllu ástæðulaust að ætla að vísa því máli frá og benda á það, að réttara hefði verið að breyta lögunum um Brunabótafélag Íslands, sem fjalla um þetta mál. Það er alveg eins eðlilegt að gera þessa breytingu um leið og verið er að auka á sérstök réttindi þess eina kaupstaðar í landinu, sem notið hefur fyrir nokkurra fríðinda í þessum efnum.

Það atriði, sem fram kemur í frv. eins og það liggur fyrir, þar sem gert er ráð fyrir því, að Reykjavíkurkaupstaður taki jafnvel upp sjálfur að annast rekstur brunatrygginganna, skal ég leiða hjá mér að mestu leyti í þessum umr. Það kann vel að vera, að hér í Reykjavík megi takast að fá hagstæðari tryggingar með þeim hætti heldur en með þeirri aðferð, sem notuð hefur verið með almennu útboði. Ég fyrir mitt leyti dreg nokkuð í efa, að það muni takast. En Reykjavíkurkaupstaður velur skiljanlega þá leið í þeim efnum, sem hann telur heppilegasta á hverjum tíma, hann getur valið útboðsleiðina í annan tíma, þó að hann velji hina leiðina í hitt skiptið. Eins mundu bæjar- og sveitarfélög úti um allt land geta haft þetta. Ef þau fleiri en eitt vildu slá sér saman, eins og gert er einnig ráð fyrir í okkar till. að möguleikar séu fyrir, og vildu þannig taka að sér eða annast beinlínis rekstur trygginganna, þá er það vitanlega þeirra mál að ákveða um það. En ég býst nú frekar við því, að hin leiðin yrði almennt farin meðal kaupstaða og kauptúna úti um land, að gera almennt útboð á brunatryggingum og taka síðan lægsta tilboði, sem fengist.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar, en vil ekki trúa því, fyrr en á reynir, að þeir þm. séu hér til, sem vilja í þessu efni neita bæjarfélögunum úti á landi og öðrum sveitarfélögum um þennan rétt, á sama tíma sem fyrir liggur að auka við þessi réttindi til handa Reykjavíkurkaupstað.