25.03.1954
Neðri deild: 68. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1991)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir því og taldi í rauninni óþarft að taka til máls við þessa umr., því að ég taldi meginatriði málsins nægilega fram tekin í framsöguræðunni, auk þess sem frsm. meiri hl. allshn. hefur gert glögglega grein fyrir þeim rökum, sem mæla með þessu frv. og liggja til þess, að meiri hl. allshn. mælir með samþykkt þess eins og það liggur fyrir.

En út af þessari furðulegu ræðu, sem hv. þm. V-Húnv. var að ljúka við að halda, þá kemst ég ekki hjá því að leiðrétta hér ákaflega furðulegar rangfærslur, sem hann leyfði sér að bera hér á borð. Ræða hans byggist eiginlega á því, að þetta frv. sé til komið vegna fjandskapar flm. við samvinnuhreyfinguna; þetta sé úrræði til að komast í kringum það, að Samvinnutryggingar hafi í því útboði, sem fór fram nýlega í Reykjavík um brunatryggingarnar, orðið lægstbjóðandi. Ég vil aðeins upplýsa hér, að þetta er algerlega rangt. Hagstæðasta tilboðið er ekki frá Samvinnutryggingum, heldur frá öðrum bjóðanda. Þar með er í rauninni alveg hruninn grundvöllurinn undan ræðu þm. V-Húnv.

Ástæðan til þess, að þetta frv. er flutt eftir einróma áskorun bæjarráðs Reykjavíkur, er fyrst og fremst sú, að það þykir að athuguðu máli og að ráði hinna færustu manna, sem um þetta hafa fjallað, hentugra og ódýrara, að bærinn sjálfur hafi með höndum innheimtu iðgjaldanna og bókhald, af þeirri einföldu ástæðu, að það verði ódýrara en ef vátryggingarfélögin hafa það með höndum. Þetta stafar af því, að bærinn þarf að innheimta ýmiss konar fasteignagjöld, eins og húsagjald, lóðagjald, vatnsskatt o. fl., sem er innheimt í einu lagi, á einum og sama fasteignagjaldsseðli, og má bæta þar við brunabótaiðgjaldinu með sáralitlum aukakostnaði. Þetta er heldur ekkert nýmæli, því að um langan aldur eða fram til ársins 1924 var þessi háttur á hafður í Reykjavík. Það var þá sérstakur brunamálastjóri, sem á vegum bæjarins innheimti gjöldin og sá um rekstur trygginganna. Í rauninni er hér farið fram á að þessu leyti það sama og var hér um marga áratugi og gafst að mörgu leyti vel.

Í öðru lagi er það nýmæli í þessu frv., að það er opnaður möguleiki til þess, að Reykjavíkurbær sjálfur eða bæjarsjóður taki á sig áhættu að einhverju leyti. Ef út á þá braut yrði farið, að bærinn keypti ekki fulla eða 100% endurtryggingu, heldur að bærinn hefði eitthvað af tjóni í eigin áhættu, þá yrði því hagað þannig, að áhætta bæjarins gæti aldrei numið meiru en iðgjöldin. M. ö. o., þau hámarkstjón, sem yrðu í eigin ábyrgð bæjarins, færu aldrei fram úr iðgjaldaupphæðinni á hverju ári. Ef tjónin næmu meiru, þá yrði að sjálfsögðu endurtryggt fyrir því. M. ö. o., ef út á þessa braut yrði farið, þá er það víst, að bæjarsjóður mun ekki hafa af því neina áhættu. Hins vegar ef tjónin nema minni upphæð á hverju ári heldur en iðgjöldin nema samanlagt, þá mundi það verða gróði þessa tryggingarsjóðs, sem hér er lagt til að stofnaður sé. Það er sérstakur og sjálfstæður tryggingarsjóður, en sá ágóði, sem kynni að verða af tryggingunum, rynni ekki í bæjarsjóðinn.

Ef við lítum yfir reynsluna s. l. 5 ár, þá sést, að það tryggingarfélag, sem hafði brunatryggingarnar, hefur haft af því margra milljóna hagnað vegna þess, hvað brunatjónin hafa, sem betur fer, verið lítil á síðustu 5 árum. Þetta stafar af mörgum ástæðum, bæði vegna síbættra brunavarna í bænum og vegna þess að tala steinhúsa hefur farið mjög fjölgandi hlutfallslega á móti timburhúsum. Ef þessi leiðin yrði farin, að viss ábyrgð á brunatjónum yrði hjá bænum sjálfum, en þó, eins og ég tók fram, aldrei meira en iðgjöldin nema á hverju ári, þá er sem sagt skapaður möguleiki, ef tjónin verða lítil, til að mynda sjóð, og í frv. er gert ráð fyrir og alveg lögbundið, hvernig megi verja þeim sjóði. Það segir, að þessar tekjur, sem kynnu að verða, skyldi leggja í sjóð til eflingar brunavörnum og tryggingarstarfsemi og lækkunar á iðgjöldum húseigenda eftir ákvörðun bæjarstjórnar.

Nú sést það á brtt. minni hl. allshn., fulltrúa Framsfl. í n., að þeir vilja fella burt ákvæðið um það, að það megi nota þennan væntanlega sjóð til að efla brunavarnir í bænum. Mér virðist sannast sagna ákaflega erfitt að skilja röksemdafærslu fyrir því. Efling brunavarna er auðvitað fyrst og fremst gerð vegna húseigendanna. Bættar brunavarnir eru til þess að draga úr brunatjónum og þar með skapa möguleika til þess að lækka iðgjöldin. Ég held, að engum húseiganda geti blandazt hugur um það, að kaup á nýtízku, stórvirkum, öruggum tækjum til brunavarna og bætt aðstaða til brunavarna á allan hátt er fyrst og fremst þeirra hagsmunamál. Þess vegna er ákaflega örðugt að skilja rök hv. framsóknarmanna fyrir því að vilja fella burt úr frv., að úr þessum tryggingarsjóði megi nota fé til að efla brunavarnirnar í bænum.

Aðalefni brtt. framsóknarmanna er það, að húseigendum sé í sjálfsvald sett, hvar þeir tryggi húseignir sínar, og svo var að skilja á hv. þm. V-Húnv., að þetta mundi vera hinn mesti hagur fyrir húseigendur. Nú hefur svo verið um mjög langan aldur, ekki aðeins að skylt hefur verið að tryggja allar húseignir í Reykjavík, heldur líka að skylt væri að tryggja það hjá einn og sama félagi, sem bæjarstjórnin hefði samið við, og reynslan sýnir, að þessi tilhögun hefur reynzt vel. Í þetta skipti, þegar samningur er að renna út, hefur verið látið fara fram útboð og öllum tryggingarfélögum gefizt kostur á að bjóða í tryggingarnar, en reynslan sýnir það líka, að langsamlega lægstu brunabótaiðgjöld, sem þekkjast í landinu, eru og hafa verið hér í Reykjavík. Á þeim húsum, sem langmestu máli skipta, sem eru steinhús, er brunabótaiðgjaldið 0.7‰, í stað þess, eins og kom fram hér áðan, að brunabótaiðgjöldin fyrir kaupstaði og sveitir utan Reykjavíkur eru frá 1.5‰ og upp í eða upp undir 2‰. En við höfum líka haft alveg frjálsar tryggingar hér í Reykjavík að því er snertir lausafé, og hver hefur svo reynslan orðið? Hún er sú, að á meðan iðgjaldið af steinhúsum er 0.7‰, þá er iðgjaldið fyrir lausafjártryggingar, innbú og þess háttar, 1.8‰. Það er sem sagt 2½ sinnum dýrara að tryggja innanstokksmuni, lausafé, í Reykjavík heldur en fasteignir. Maður skyldi nú ætla, að eftir kenningu framsóknarmanna hefði þetta verið alveg öfugt, að þá hefði sá liðurinn í tryggingarstarfseminni, lausafjártryggingarnar, sem hafa verið og eru frjálsar, verið kominn niður fyrir.

Ég vil svo að lokum taka það fram, að þetta frv. var sýnt og rætt ýtarlega við stjórn Fasteignaeigendafélags Reykjavíkur, og hún hefur tjáð sig samþykka því, að frv. næði fram að ganga og að sú tilhögun yrði á þessum málum höfð, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hv. þm. V-Húnv. taldi, að hér væri nú um bandalag allra flokka gegn Framsfl. og samvinnuhreyfingunni að ræða. Flm. þessa frv. eru eftir áskorun bæjarráðs allir þm. Reykv. og landsk. þm. hér í bænum. Ástæðan til þess, að ekki var framsóknarmaður einnig flm., er einfaldlega sú, að þm. fyrir Reykjavík úr Framsfl. fyrirfinnst ekki, og það er náttúrlega af ósköp eðlilegum ástæðum, vegna þess að Reykvíkingar hafa reynt það á undanförnum áratugum, að framsóknarmönnum er ekkert sérstaklega vel treystandi til þess að vinna að hagsmunamálum höfuðstaðarins. Þess vegna kemur manni það óneitanlega nokkuð spánskt fyrir, þegar svo framsóknarmenn, sem höfuðstaðarbúar hafa alveg afþakkað að hafa sem sína umboðsmenn á þingi, koma hér og þykjast vera hinir einu sönnu málsvarar Reykvíkinga.

Mér fannst það nú nokkuð furðulegt í lok ræðu hv. þm. V-Húnv. að vera hér með bæði óbeinar og beinar hótanir í garð þm., ef þeir leyfi sér að hafa sjálfstæðar skoðanir í þessu máli og samþ. frv., en það kom þó greinilega fram hjá honum að ef þingheimur dirfðist að ganga gegn vilja Framsfl. í þessu máli, ja, þá skyldum við eiga framsóknarmenn á fæti á eftir, og þá gæti margt komið þar í kjölfarið. Að vísu væri fróðlegt að vita um það nánar, hvað þessar hótanir þýða, en hvað sem þær þýða, þá finnst mér þetta næsta mikil smekkleysa af hv. þm.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. En ég vil taka það fram þó að lokum, að ég tel, að Alþ. eigi að virða í hvívetna sem mest sjálfsforræði bæjar- og sveitarfélaga og Alþ. eigi að verða við þeim óskum, sem fram hafa komið einróma frá bæjarráði Reykjavíkur um að leyfa þennan hátt á brunatryggingum í höfuðstaðnum.

Ég vil segja það út af brtt. um, að það sama gangi yfir önnur bæjarfélög, að mér finnst sú till. vissulega mjög athyglisverð. Reynslan sýnir, að önnur bæjarfélög hafa sem sagt orðið að sæta miklu verri kjörum um vátryggingar sinna fasteigna heldur en Reykjavík. Ég hef hins vegar talið óheppilegt að vera að blanda því, sem er auðvitað gagnger breyting á Brunabótafélaginu og þeirri skipan, sem um þessi mál hefur gilt, inn í þetta mál, því að um þetta hafa um áratugi gilt sérlög fyrir Reykjavík. Mér fyndist miklu eðlilegra, að kæmi fram sérstakt frv. um breytingu á l. um Brunabótafélag Íslands í þá átt, heldur en að fleyga þetta frv. með því.