27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1557 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Við höfum leyft okkur, minni hl. allshn., að bera fram brtt. við frv.

Ég hafði við 2. umr. málsins gert grein fyrir afstöðu okkar til þessa máls. Við lögðum þá til, að þessar tryggingar væru gefnar frjálsar, en ekki einskorðaðar við það, að bærinn gæti tekið þær í sínar hendur. Nú hefur sú breyting orðið á frv., að bæjarfélög og sömuleiðis sveitarfélög hafa heimild til að semja um tryggingar fyrir umbjóðendur sína eða taka tryggingarnar í sínar hendur. Við erum vitaskuld, minni hl., jafnandvígir frv., þó að þessi breyting hafi verið gerð á, að bæjar- eða sveitarfélög fari að taka þetta í sínar hendur. Við höfum ekki trú á því, að það verði þeim til hagræðis umfram það, sem það gæti orðið í frjálsri samkeppni að tryggja fyrir húseigendur. Því höfum við verið fylgjandi, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefði það í hendi sinni að semja fyrir umbjóðendur sína, húseigendur í bænum, og við gerum ekki mjög mikið úr því atriði, þó að það sé yfirfært á hendur bæjarstjórnum annarra bæja í landinn, eða þó að sveitarstjórnir fái með þessari löggjöf heimild til þess að semja fyrir umbjóðendur sína um brunatryggingarnar. Það má segja, að í þeim búningi, sem frv. er nú að þessu leyti til, þá gæti jafnréttis á milli manna. Þau stjórnarvöld bæjar og sveitarstjórnarvöld, sem vilja láta sig þessi málefni skipta, hafa þá leyfi til þess að semja, og um slíkt er ekki að sakast, en það gegnir nokkuð öðru máli um það atriði, ef bær eða sveit ætlaði að trygginguna sjálft í sínar hendur og íbúum, hvort það er nú bæjar- eða sveitarfélags, þá með öllu óheimilt að tryggja annars staðar eða hafa aðra skipun á tryggingu húsa sinna heldur en bærinn þá fyrirskipar.

Ég lét í ljós við 2. umr. málsins, að þetta fyrirkomulag gæti kallað á annað og meira um ýmsa viðskiptaháttu, og ég var ekki viss um, að það gæti enginn fyrir séð, hvaða dilk það kynni að draga á eftir sér. Það a. m. k. væri rétt að athuga fyrir þá, sem hafa trú á frelsi og að einstaklingarnir hafi sem mest ráð til athafna, að þá gæti þetta orðið vísir að því, að meiri og frekari höft yrðu sett á athafnafrelsi manna. Nú ætla ég ekki að rekja það nánar, því að ég þóttist gera því nokkra grein við 2. umr. og ætla ekki að fara að endurtaka það. En út frá þessu sjónarmiði meðal annars flytjum við þessa brtt., hv. þm. Dal. og ég, um, að bæjar- og sveitarstjórnum verði heimilt að semja við eitt eða fleiri vátryggingarfélög fyrir umbjóðendur sína, en að þeim heimilist ekki að taka trygginguna í sínar hendur, hvorki að einu eða öllu leyti. Ég hygg, að það sé heppilegra sakir þess möguleika m. a., sem bæði bæjar- og sveitarfélög hafa á því að annast svona mál. Ég get að vísu viðurkennt, að Reykjavíkurborg hefur náttúrlega sérstöðu nokkra í þessu efni. Það gerir hennar fjölmenni og möguleiki á að taka slíka tryggingu í sínar hendur; en að það verði íbúunum hagfelldara en með samkeppni milli tryggingarfélaganna um slíka samninga, það efast ég mjög um, og enn meir efast ég um það þó í framtíðinni heldur en kannske nú. Mér hefur aldrei dottið í hug um þá menn sem að þessu standa, annað en að fyrir þeim vekti gott eitt og þeir teldu, að þeir gætu séð hagsmunum sinna umbjóðenda vel borgið með þessu. En ég mætti máske minna þá á það, að þó að þeir ráði nú um stund, þá geta þeir á engan hátt tryggt, að sams konar sjónarmið, þegar frá liði, hlyti að vera ráðandi og ríkjandi í þessum málum frekar en öðrum í stjórn bæjarins, og kynni þá svo að fara, að það skyti nokkuð skökku við þær hugmyndir, sem þeir hafa gert sér um þetta, þegar frá liði; auk þess sem einmitt þetta mál, sem er nú nýtt hér hjá okkur, kann að færast út á víðara svið og á allt annan hátt en mönnum þætti æskilegt.

Líka er rétt að hafa það í huga, að það er engan veginn nógu vel séð fyrir því eða menn geti, gert sér þess glögga grein, hvað þetta kann að skaða þann félagsskap, sem hefur nú annazt vátryggingar húseigna um landið allt nema í Reykjavík, Brunabótafélag Íslands, og ef mjög róttæk breyting væri gerð á þessum málum, væri eðlilegast, að það gerðist á þann hátt, að gott tóm gæfist til íhugunar á því, hvernig því mætti verða fyrir komið gagnvart þeim félagsskap, svo að hann yrði ekki limlestur alveg gersamlega á eftir.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að gera þetta frekar að umtalsefni. Ég vil vona, að hv. þm. hafi fengið brtt. Mér er sagt, að það sé búið að útbýta þeim. Þetta er ekki margbrotið efni. Það er aðeins, eins og ég sagði, að bæði bæjar- og sveitarfélög geti haft það í hendi sinni, hvort sem þau vilja semja um brunatryggingar við eitt eða fleiri félög, en ekki heimilt að taka það í sínar hendur, eins og frv. eins og það nú liggur fyrir, gerir þó ráð fyrir. Og ég ætla, hvað áhrærir málið sjálft og ekki sízt þá vegna framtíðarinnar, að það sé langtum hyggilegra að afgreiða það nú í þeim búningi heldur en að það gangi í gegn eins og það er, þótt það að vísu sé meira jafnrétti gagnvart þegnum landsins eftir ákvæðum frv. í þessum búningi, sem það er nú, heldur en það var upphaflega.