20.10.1953
Efri deild: 6. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

61. mál, alþjóðaflugþjónusta

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ísland tekur þátt í Alþjóðaflugmálastofnuninni, en þessi stofnun hefur með höndum ýmsa starfsemi til þess að greiða fyrir flugi landa á milli, m.a. veðurþjónustu, og einnig sinnir stofnunin öðrum greinum flugþjónustunnar. Nú hefur Ísland tekið að sér að sjá um veðurþjónustu og skeytaþjónustu eðaleiðbeiningarþjónustu fyrir flugið um norðanvert Atlantshaf. Það kostar mikið, en 95% af kostnaðinum er endurgreitt Íslandi af öðrum þátttakendum. Til þess að geta annazt þessa þjónustu þurfti að koma upp á Rjúpnahæð hér við Rvík byggingu í stað bráðabirgðabyggingar, sem er að verða ónýt. Þetta kostar á fimmtu millj. kr., og menn töldu ekki fé fyrir hendi til þess að leggja þetta út úr ríkissjóði, þar sem greiðslan kemur til baka smátt og smátt á nokkrum árum frá samtökunum. Stofnkostnaðinn verður Ísland að leggja fram, en hann kemur til baka á nokkrum árum. Þess vegna var sú lelð tekin að útvega lán í bygginguna, sem endurgreiðist í raun og veru af öðrum þátttökuríkjum. Er þetta lán tekið hér hjá Framkvæmdabankanum, en Framkvæmdabankinn fær peningana hjá Alþjóðabankanum.

Í fjárlagafrv., sem fyrir liggur, er tekin upp heimild fyrir ríkisstj. til þess að ganga frá þessari lántöku, en nú liggur orðið mjög mikið á framkvæmdum í þessu efni. Peningarnir liggja alveg tilbúnir, en ekki hægt að ganga frá málinu, svo að þeir komi til afnota, fyrr en heimild hv. Alþingis til lántökunnar liggur fyrir. Þess vegna höfum við í fjmrn. tekið það ráð að búa út sérstakt frv. um þessa lántökuheimild, sem hér liggur nú fyrir til umræðu. Vonum við, að með því móti fáist hraðari afgreiðsla á málinu en með því að afgr. það í fjárlögunum. — Er það nú beiðni mín til n. þeirrar, sem fær þetta mál til meðferðar og væntanlega verður hv. fjhn. d., að hún gefi út nál. svo fljótt, að málinu gæti orðið lokið hér í d. fyrir helgi. Gæti það þá komið til Nd. í næstu viku.

Ég leyfi mér að leggja til, að málinu verði visað til hv. fjhn. að lokinni umr.