27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1563 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. óskar þess, að málið sé tekið út af dagskrá og frestað, og ber það fyrir sig, að hér sé um svo vandasama lagasetningu að ræða. Eins og frv. þetta var flutt, þá liggur málið ákaflega ljóst fyrir, og ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur fyrir löngu áttað sig til fulls á því. Það, sem kann að gera málið nokkru vandasamara, er brtt., sem samþ. var hér í gær frá hv. 11. landsk. þm. um að gefa frjálsar tryggingar í öllum bæjar- og sveitarfélögunum utan Reykjavíkur. Það má vera, að þessi till. hafi gert málið nokkru vandasamara, en þessi till. náði samþykki í d. fyrir atbeina hæstv. fjmrh. og flokksbræðra hans. Maður skyldi því ætla, að hann og flokksbræður hans hafi ekki greitt atkv. blindandi um málið, heldur hafi þeir verið búnir að átta sig á þessari brtt. áður en þeir samþykktu hana. Ég sé því ekki, að þessi ummæli hans og rökstuðningur fyrir því, að fresta þurfi málinu vegna þess, hvað málið sé vandasamt, geti haft við nein rök að styðjast, heldur hefur hann sjálfur með atkv. sinu gersamlega afsannað þessa röksemd, sem hann flutti hér fram. Ég vil aðeins taka það skýrt fram, að ég skora eindregið á hæstv. forseta að verða ekki við þessari ósk. Það er öllum vitanlegt og hæstv. fjmrh. líka, að þetta frv., sem miðar að því að gera Reykjavíkurbæ kleift að gera nauðsynlegar ráðstafanir út af brunatryggingunum hér í bæ, þarf að afgreiðast fyrir mánaðamót. Með því að taka málið út af dagskrá núna, sem er út af fyrir sig gersamlega ástæðulaust og hæstv. fjmrh. hefur í rauninni afsannað í öðru orðinu að sé réttmætt, þá er nokkurn veginn útilokað, að frv. geti orðið að lögum fyrir þennan tíma.

Ég þarf í rauninni ekki mörgu við að bæta það, sem ég sagði við 2. umr. þessa máls, því að flest af þeim atriðum, sem hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. V-Húnv. höfðu hér fram að færa, voru aðeins endurtekningar, sem búið var að svara. En það gætir yfirleitt furðulega mikils misskilnings, sérstaklega þó í ræðu hv. þm. V-Húnv., og er þess vegna kannske nauðsynlegt hans vegna og annarra þm. einhverra að skýra þetta nokkru nánar.

Reykjavíkurbær efndi til útboðs um tryggingarnar, og það var óskað tvenns konar tilboða. Báðir þessir tilboðsflokkar voru miðaðir við það, að bæjarstjórnin tæki rekstur trygginganna í sínar hendur, þ. e. a. s. innheimtu iðgjalda, greiðslu brunabóta og annað, sem snertir daglegan rekstur. Báðir útboðsflokkarnir voru miðaðir við það. Annar var svo miðaður við 100% endurtryggingu, en hinn við endurtryggingu þannig, að bærinn hefði vissan hluta af hugsanlegu brunatjóni í eigin ábyrgð, en endurtryggingar fyrir því, sem yrði umfram þá prósent eða prómilletölu. Það hefur verið lítið svo á, að gildandi lögum um þetta þyrfti að breyta, hvorum tilboðunum sem ætti að taka, úr hvorum flokki sem væri.

Nú kemur það alveg greinilega fram, og það er ekkert verið að draga neitt dul á það í ummælum hv. þm. V-Húnv., að ástæðan fyrir andstöðu hans og flokksbræðra hans hér í hv. d. gegn frv. er hagsmunir Samvinnutrygginga. Hann fer ekki dult með það og lýsir því hér yfir margsinnis. Ég vil þá benda honum á það, að til þess að bæjarstjórn Reykjavíkur gæti nú tekið þessu tilboði Samvinnutrygginga, þá er samþykkt þessa frv. nauðsynleg. Það hefur verið talið, að samkv. gildandi lögum væri ekki hægt að taka tilboði Samvinnutrygginga, vegna þess að það byggist líka á því, að bærinn taki daglegan rekstur trygginganna í sínar hendur, en hins vegar endurtryggi að fullu. Hér gætir því eins og víðar ákaflega mikils misskilnings, sem stafar af því, að þessi hv. þm. og fleiri virðast alls ekki hafa sett sig inn í málið nógu vel, heldur aðeins hlaupa hér fram fyrir skjöldu út af einhverjum ímynduðum hagsmunum ákveðins fyrirtækis.

Það er náttúrlega mjög mikill misskilningur, að þetta frv. sé fram komið vegna þess, að þegar tilboð voru opnuð, þá hafi þetta tiltekna fyrirtæki verið lægstbjóðandi. Í fyrsta lagi er þess að geta, að það er komið á annað ár síðan bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti að láta athuga sérstaklega þá leið, að bærinn tæki rekstur brunatrygginganna í eigin hendur. Það mun hafa verið í ársbyrjun 1953, sem sú samþykkt var gerð. Áð því máli hefur síðan verið unnið, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið fyrir alllöngu og miðað við niðurstöður þeirrar rannsóknar.

Hv. þm. V-Húnv. vildi halda því fram, að hér hefði verið framið lögbrot á undanförnum árum með því, að í sjóð bæjarins hefði runnið ágóðahlutdeild, þ. e. a. s. hluti af þeim ágóða, sem tryggingarfélagið hefur haft af brunatryggingunum. Ég vil aðeins benda á það, að núna um undanfarin a. m. k. tíu ár hefur þetta ákvæði um, að viss prósenttala af ágóða tryggingarfélagsins rynni til bæjarins, verið í gildi, og það hefur aldrei verið hreyft neinum athugasemdum við það. Þetta var samþykkt á sínum tíma einróma af bæjarstjórn Reykjavíkur, það var staðfest af ríkisstj., og frá engum aðila hafa komið fram athugasemdir nm það, fyrr en nú er reynt að tína þetta til, sem þó hefur í rauninni ekki neinn grundvöll.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri; vísa aðeins til fyrri ummæla og röksemda í þessu efni. Mér virðist till. hv. frsm. meiri hl. n. eðlileg, að eins og málinu er komið, þá verði það beinlínis ákveðið,lögboðið, að bjóða skuli út tryggingarnar á fimm ára fresti og að settar séu vissar skorður við því, að bæjar- og sveitarstjórnir noti þetta ekki sérstaklega til tekjuöflunar. Í rauninni á það að vera tryggt í frv. eins og það er og eins og það var flutt, með því að tekjur, sem bæjar- eða sveitarstjórn kynni að hafa af þessari starfsemi, skuli renna í sérstakan tryggingarsjóð, en ekki í bæjar- og sveitarsjóði. En sem sagt, ég get vel fellt mig við till. hv. þm.

Ég vil svo aðeins bæta því við út af margendurteknum ummælum hv. framsóknarmanna hér um, að það væri fasteignaeigendum fyrir langsamlega beztu að gefa tryggingarnar frjálsar, sem þeir kalla, — þá vil ég benda á það, að hér hefur um ákaflega langan aldur í Reykjavík verið ákveðið, að sameiginlega skuli tryggðar allar húseignir í bænum. Nú virðist Framsfl. snúast mjög harkalega gegn þessari samhjálp og samvinnu, sem hér hefur verið í höfuðstaðnum um tryggingarmálin um langan aldur og við teljum að hafi gefið góða raun, og reynslan sýnir líka, að tryggingariðgjöldin eru eða hafa verið um langan aldur hér í Reykjavík miklu lægri en nokkurs staðar annars staðar. Í öðru lagi má benda á það, að þar sem tryggingarnar eru frjálsar hér í Reykjavík, þ.e.a.s.varðandi innanstokksmuni, innbú og lausafé, þá er iðgjaldið af þeim frjálsu tryggingum um 2½ sinnum hærra en iðgjaldið af fasteignunum eða steinhúsunum í bænum, þar sem um þetta hefur verið samið í einn lagi að undangengnum útboðum. — Annars vil ég aðeins ljúka þessum orðum með því, að ég ætla, að menn þurfi varla að draga í efa, hvorum sé betur trúandi til þess að koma brunatryggingum Reykvíkinga sem bezt fyrir, annars vegar einhuga bæjarráði Reykjavíkur með samþykki stjórnar Fasteignaeigendafélagsins eða framsóknarmönnum, sem Reykvíkingar hafa nú nýskeð alveg afþakkað og ekki kosið að eiga fulltrúa úr þeim flokki á Alþingi.