27.03.1954
Neðri deild: 71. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1570 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru fáein orð út af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan. Hann skar þykkar sneiðar og útdeildi á báða bóga, einkum þó framsóknarmönnum, í sambandi við þetta mál, og það gefur mér tilefni til þess að segja fáein orð.

Ég hef ekki skilið, hvaða nauður rekur til þess að breyta lögunum um brunatryggingar í Rvík. Mér skilst, að bæjarstjórnin hafi eftir núgildandi lögum alveg fulla og óskoraða heimild til þess að bjóða út tryggingarnar í Rvík og semja við þann, sem bezt býður. Hvað er áfátt við þessa löggjöf? Hvað er það, sem gerir að verkum, að það þykir nú allt í einu svo nauðsynlegt að knýja fram nýja löggjöf um brunatryggingar í Rvík? Ég hef ekki heyrt neina frambærilega ástæðu borna fram fyrir því. Er það ekki nóg fyrir bæjarfélagið að hafa óskoraða heimild til þess að bjóða út tryggingarnar fyrir íbúana og geta frjálst tekið lægsta og bezta tilboðinu fyrir bæjarmenn? Hvað er það, sem skortir? Hvað vantar á ? Ég held því þess vegna alveg hiklaust fram, að það sé eitthvað annað en umhyggja fyrir Reykvíkingum, sem gerir það að verkum, að lagt er slíkt ofurkapp á að fá breytt lögunum um brunatryggingar í Rvík í það horf, sem hér er gert ráð fyrir, og ég vil láta þá skoðun mína alveg eindregið í ljós í tilefni af því, sem hv. 7. þm. Reykv. sagði hér áðan.

Hver getur verið tilgangurinn með þessu frv.? Frv. er um það, að í stað þess, að bærinn hefur nú óskoraða heimild til þess að bjóða tryggingarnar út og semja við þann, sem bezt býður, þá skuli heimilað, að bærinn taki að einhverju leyti tryggingarnar í eigin hendur. Dettur mönnum í hug, að þetta sé gert til þess, að Reykvíkingar geti fengið lægri tryggingariðgjöld eða betri tryggingarkjör? Dettur yfirleitt nokkrum í hug, að það muni vera hægt að fá betri kjör með því, að bærinn færi að taka þarna hluta af áhættunni, heldur en með hinu mótinu? Ég held ekki. Hér er á hinn bóginn á ferðinni tilraun af hendi bæjarstjórnarmeirihlutans til þess að sölsa til sín í bæjarsjóð eða til afnota fyrir þá, sem stýra fjárhagsmálum bæjarins, eitthvað af því, sem bæjarbúar ættu að fá í lækkuðum iðgjöldum. Ég sé enga ástæðu til þess að stuðla að slíku. Það er hvort tveggja, að ég hef ekki neina sérstaka trú á bæjarrekstri á tryggingum né ríkisrekstri á tryggingum, og svo líka hitt, að ég sé enga ástæðu til þess, að bæjarstjórnin í Rvík fái heimild til þess að skattleggja íbúa Rvíkur í gegnum tryggingarnar með því að halda fyrir þeim iðgjaldalækkunum, sem þeir eiga með réttu að fá, en það er þetta tvennt, sem um er að ræða í þessari nýju lagasetningu.

Það er sannarlega farin að færast skörin upp í bekkinn, þegar sá flokkur í landinu, sem telur sig byggja á einstaklingsrekstri og frjálsri samkeppni, fer að beita sér fyrir lagasetningu eins og þessari, lagasetningu, sem fjallar um það eitt, að bæjarsjóður eða bærinn geti tekið í sínar hendur þennan rekstur að einhverju eða öllu leyti. Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir því, eins og ég sagði áðan, að það sé hin veikasta von til þess, að hægt væri að fá betri kjör fyrir Reykvíkinga með slíku móti. Hitt er annað mál, að með þessu móti mætti kannske takast fyrir bæjarsjóðinn og þá, sem honum stýra, að ná til sín einhverjum fjármunum, sem með réttu lagi ættu að renna til almennings, eins og ég gat um áðan.

Ég sé svo að vísu, að það er önnur ástæða líka í þessu máli. Það er verið að finna einhverjar leiðir til þess að þurfa ekki að semja við Samvinnutryggingar. Ástæðurnar fyrir lagasetningunni eru tvær sýnilega: Annars vegar að sölsa til bæjarsjóðs nokkuð af því fé, sem íbúarnir eiga með réttu að fá í lækkuðum iðgjöldum, hins vegar að komast hjá því að semja við Samvinnutryggingar, þótt þær bjóði beztu kjörin. Þegar svona mikið liggur við, þá er ekki verið að horfa í prinsipin eða horfa í það, þó að sjálfstæðismenn, bæði í bæjarstjórn og á þingi, verði að kasta fyrir borð stefnu sinni, enda eru þeir ekki óvanir því.

Ég vildi láta þessi orð falla, þar sem hv. 7. þm. Reykv. leyfði sér að tala um umhyggju fyrir Reykvíkingum í sambandi við þetta mál.