01.04.1954
Efri deild: 75. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (2021)

173. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Frsm. meiri hl. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Í tilefni af ræðu hv. 6. landsk. vil ég taka það fram, að það er síður en svo, að við í meiri hl. n. viljum banna öðrum sveitarfélögum það, sem við viljum leyfa Reykjavík, eins og hann komst að orði. Við erum a. m. k. allir þingmenn fyrir kaupstaði úti á landi og viljum gæta hagsmuna þeirra ekki síður en aðrir þm. vilja gæta hagsmuna sinna kjördæma. En það, sem við álítum óviðurkvæmilegt og viljum ekki fallast á, er, að þessum tveimur málum sé blandað saman. Brunatryggingum í Reykjavík og brunatryggingum úti á landi hefur í löggjöfinni verið haldið aðskildum, vegna þess að það stendur öðruvísi á um þær. Ég talaði í frumræðu minni um, að það bæri nauðsyn til að endurskoða grundvöllinn undir Brunabótafélagi Íslands og iðgjaldagreiðslum þar og að það mál væri í undirbúningi. Það er alls ekki undirbúið eins og það mál, sem hér liggur fyrir, og er sjálfsagt, eftir því sem mér skilst eftir atkvgr., sem hafa farið fram um þetta mál á þingi, meiri hluti fyrir því að endurskoða þennan grundvöll á réttan hátt.

Annars vil ég benda á, að það eru þrjú atriði, sem koma mjög til greina í sambandi við tryggingarmál, sem ekkert getur verið eitt út af fyrir sig. Að tryggingariðgjöldin eru lág og fást lækkuð, kemur auðvitað til af því, að það eru auknar fyrst eldvarnir og síðar brunavarnir. Þegar talað er um kostnað út af brunamálum, er ekki hægt að líta á iðgjöldin ein. Það verður líka að líta á það, sem hvert sveitar- eða bæjarfélag leggur fram til þess að forðast bruna eða draga úr honum, ef hann verður. Þessar upphæðir samanlagðar eru það, sem menn raunverulega borga til þess að forðast tjón af eldsvoða. Tryggingariðgjöldin geta því aðeins orðið lág, að eytt sé talsverðu fé til eldvarna og til brunavarna. Og tryggingariðgjöldin í Reykjavík hafa fengist þetta niður af því, að það bæjarfélag hefur eytt sérstaklega miklu til þess að draga úr brunahættu. Þetta vildi ég aðeins benda á til að sýna, að það er ekki hægt að líta eingöngu á upphæð tryggingariðgjaldanna. Þau eru aðeins einn hluti af þessu.

Út af ræðu hv. þm. Str. vil ég aðeins taka fram örfá atriði. Mér skildist á honum, að hann hefði skilið það þannig, að útboðin hjá bæjarstjórn Reykjavíkur hefðu verið með sama hætti og áður hefði verið og það hefði ekki verið fyrr en þau bárust, að farið var að leita heimilda þeirra, sem óskað er eftir í lögum þessum. Í tilefni af þessu vil ég geta þess, sem raunar hefur áður komið óbeinlínis fram í umræðum um þetta mál, að það er meira en ár síðan bæjarstjórn Reykjavíkur ákvað að athuga þann möguleika að taka brunatryggingarnar að einhverju eða öllu leyti í sínar hendur. Út af þessari athugun var útboði til tryggingarfélaganna hagað á tvennan hátt, — fyrst eins og venjulega, en auk þess, að bærinn tæki að sér tryggingarnar og endurtryggði svo áhættuna með mismunandi móti hjá brunabótafélögunum. Það var fyrst eftir að tilboð í þessa átt höfðu borizt, að bæjarráð eða bæjarstjórn gat gert það upp við sig, hvort hún óskaði eftir, að þessi aukna heimild yrði tekin í lög. Þegar hún hafði látið sína tryggingarfræðinga athuga tilboðin, komst hún einmitt að þeirri niðurstöðu, að hún óskaði þessarar heimildar.

Hv. þm. Str. taldi það einkennilegt, að ef stórbruni kæmi, þá ætti bærinn að fara að endurgreiða tjónin eða koma með þetta nýja blóð, sem hann nefndi. Það er ekkert einkennilegt við það. Tryggingarstarfsemi er venjuleg viðskipti, og öll þau tryggingarfélög, sem hafa gert tilboð, hafa sjálfsagt ætlazt til, að þau a. m. k. töpuðu ekki á því. Þetta nýja blóð er því ekkert annað en iðgjöld, sem húseigendur greiða, hvort sem það er greitt til bæjarins eða til einstakra félaga.

Þá minntist hv. þm. Str. á það, að reksturinn mundi verða dýrari, ef bærinn tæki þetta að sér, og minntist í því sambandi á rekstrarstarfsemi Brunabótafélags Íslands o. fl. Ég vil einmitt geta þess, að ein af ástæðunum til þess, að bærinn telur sig geta haft hag af þessu fyrir sína borgara, er sú, að innheimtukostnaður brunabótagjalda getur verið miklu ódýrari í höndum hans heldur en í höndum tryggingarfélaga, eins eða ekki síður fleiri. Þarna þarf ekki að bæta nema einni upphæð, iðgjaldaupphæðinni, á reikninginn, sem hverjum fasteignaeiganda er sendur yfir fasteignagjöld. Og það er þar að auki til þæginda fyrir fasteignaeigendur að fá þetta þarna á einum stað í stað þess að þurfa að fara á marga staði að greiða gjöld sín. Ég sé ekki betur en að þetta sé einmitt aukin ástæða til þess, að bærinn reyni þá leið, sem farið er fram á að honum verði veitt leyfi til.

Ég gat ekki séð, að hv. þm. Str. gæti á nokkurn hátt hrakið það, sem ég sagði um veðhæfi húsa í sambandi við að gefa tryggingarnar frjálsar. Eins og nú standa sakir, getur veðhafi gengið út frá því sem gefnu, að hann eigi veð í brunabótafjárhæð húss, ef það skyldi brenna, alveg án tillits til þess, hvort skuldari hefur trassað að greiða iðgjaldið eða ekki. Ef menn geta hlaupið á milli félaga í þessum efnum, er miklu meiri ástæða til þess að óttast, að svo geti farið, að veðið sé ekki tryggt, og ég vil einmitt í því sambandi benda á, að bæði í lögunum um Brunabótafélag Íslands og eins um brunamál hér í Reykjavík er sérstaklega tekað fram, að veðréttur veðhafa standi án tillits til greiðslu gjaldanna og án tillits til þess t. d., hvort húseigandi kveikir sjálfur í húsi sínu eða ekki, þannig að hann eftir almennum reglum mundi missa réttinn í hendur tryggingarfélaginu.

Þá minntist hv. þm. Str. á, að menn tryggðu sjálfir lausafé sitt, og fór sérstaklega nokkrum orðum um tryggingu á bifreiðum og taldi, að þar færi allt vel, og væru þó sömu vandkvæði á eins og yrðu, ef tryggingar á húseignum væru gefnar frjálsar. Í því sambandi vildi ég benda á, að tryggingar bifreiða eru ekki að öllu leyti frjálsar. Ábyrgðartryggingin er skyldutrygging, og bifreið er tekin úr umferð af bifreiðaeftirlitinu, ef ekki er greitt iðgjald af henni. Aftur á móti er kaskótryggingin frjáls, og það hefur sýnt sig og mun sýna sig, að menn hafa ekki hirðusemi á að tryggja kaskótryggingu eða tryggja of lágt, og er áreiðanlega mjög ábótavant í sambandi við bifreiðatryggingar, enda hefur það gert að verkum, að það er mjög erfitt að fá lán út á bíla. Annars er það náttúrlega ekki sambærilegt út frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, hversu miklu meiri nauðsyn er á því, að vel sé um búið um tryggingu á fasteignum en um tryggingar á lausafé.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál.