03.12.1953
Efri deild: 27. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

8. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þegar þessari umr. var frestað hér á dögunum, þá var það með tilliti til þess, að nefndin athugaði betur brtt. sína á þskj. 198, hvort hún væri ekki óþörf. Ég gat þess að vísu þá þegar, að ég áliti, að þetta væri fullathugað og óþarfi að fresta umr. þess vegna. Ég hef nú athugað það betur síðan, að það er alveg ástæðulaust að samþ. 2. tölulið 3. gr., þar sem hann er um sama efni og kemur að nokkru leyti í bága við e-lið 1. tölul. Þessi 2. tölul. mun bara vera leifar úr eldri lögum. Þá var heimilað að lækka um helming aðflutningsgjald af sykri o.s.frv., en svo var síðar settur inn e-liðurinn, án þess að 2. tölul. væri afnuminn. Brtt. n. er því alveg hárrétt að mínu viti. Hefur lítillega um það verið rætt í n. síðan, og er það álít nefndarinnar.

Þá liggja hér fyrir brtt. frá 4. þm. Reykv. Það segir sig sjálft eftir þeirri afstöðu, sem þegar er tekin af meiri hl. n., að hún getur ekki fallizt á þessar till., a.m.k. ekki á 1. og 2. lið þeirra. Hér er um framlengingu eldri laga að ræða, og þetta álag á verðtollinn, sem hér um ræðir, hefur áður verið innheimt og verið framlengt, og við, sem erum í meiri hl. n., álítum, að það geti ekki komið til mála að lækka tekjur ríkissjóðs á þann veg, sem hv. 4. þm. Reykv. leggur til. Það má auðvitað færa ýmsar ástæður fyrir till. um skattalækkanir og tollalækkanir, en þeim till. þyrfti þá að fylgja greinargerð fyrir því, hvað ætti að koma í staðinn eða hvaða útgjöld ríkissjóðs ætti að lækka í staðinn. Ég álít, að ekki sé forsvaranlegt af þeim þm., sem vilja telja sig bera nokkra ábyrgð á gerðum sínum, að bera fram svona till. án þess. Ég býst við, að þetta komi nú betur til umr. í öðru máli, sem hér er á dagskrá í dag.

Það, sem hv. þm. sagði um það, að verðtollurinn fylgdist með verðbreytingum, þá er nokkuð til í því. En elns og hann sjálfur tók fram, þá var einmitt þetta álag lækkað, þegar gengisbreytingin var gerð, og þar af leiðandi tekið tillit til þeirrar verðbreytingar, og svo hækka sífellt útgjöld ríkisins, en ég hef ekki orðið þess var, að hv. þm. vildi nú lækka þau mikið, m.a. liggur nú hér fyrir frv. frá honum sjálfum, sem mundi hafa í för með sér töluverðan gjaldaauka.

Um 3. lið brtt. hv. þm. get ég ekkert sagt fyrir n. hönd, því að það hefur ekki beinlínis verið tekið fyrir á nefndarfundi, en þó geri ég ekki ráð fyrir því, að n. vilji nokkuð breyta afstöðu sinni í þessu máli, en fullyrði ekki um það fyrr en frekar liður á umr.